Fanný og Alexander hin ástsæla fjölskyldusaga Ingmars Bergmans verður frumsýnd á Stóra sviði Borgarleikhússins á þrettándanum, 6. janúar næstkomandi. Hér er sögð saga systkinanna Fannýjar og Alexanders sem alast upp á ástríku, hlýju heimili þar til faðir þeirra fellur óvænt frá og líf þeirra umbreytist í vondan draum. Leikgerðin byggir á sjónvarpsþáttum Bergmans sem hann stytti síðan í kvikmynd árið 1982. Leikstjóri er Stefán Baldursson en þýðinguna gerði Þórarinn Eldjárn.

Myndin var síðasta kvikmyndaverk leikstjórans og eins konar þakklætisóður til leikhússins þar sem andi Hamlets svífur yfir vötnum. Leikritið var heimsfrumsýnt í Þjóðleikhúsi Norðmanna í desember 2009 og uppfærslan orðin sú vinsælasta í sögu leikhússins. Þau Hilmar Guðjónssons, Ísabella Rós Þorsteinsdóttir, Katrín Ynja Þorkelsdóttir, Halldóra Geirharðsdóttir, Rúnar Freyr Gíslason, Kristbjörg Kjeld og Gunnar Eyjólfsson eru í burðarhlutverkum en alls taka 20 leikarar þátt í sýningunni hér heima. Þegar er uppselt á fyrstu 15 sýningar verksins.

Jólunum er fagnað hjá Ekdahl-stórfjölskyldunni. Þar er dansað leikið og sungið. Fjölskyldan er langt frá því að vera fullkomin en hún er lifandi, ástríðufull og litrík – sérstaklega í augum barnanna Fannýjar og Alexanders. Þau alast upp í hlýjum faðmi ástríkra foreldra, Emilíu og Óskars, þar sem gleði, frelsi og umburðarlyndi ráða ríkjum. Dag einn umturnast veröld barnanna þegar faðirinn fellur óvænt frá. Í sorg sinni leitar Emilía stuðnings Edvards biskups sem áður en langt um líður ber upp bónorð við ekkjuna. Fljótlega vaknar hún upp við þann vonda draum að heimili biskups reynist ekki það skjól sem hún þráði.

Einn fremsti kvikmyndaleikstjóri heims, Ingmar Bergman (1918–2007) vann upphaflega að þessari ógleymanlegu fjölskyldusögu í framhaldsþáttum fyrir sjónvarp en stytti síðan í kvikmynd árið 1982. Myndin var kveðjumynd hans og þakklæti til leikhússins þar sem andi Hamlets svífur yfir vötnum með afturgöngum og týndri föðurímynd. Myndin hlaut fern Óskarsverðlaun sem er fáheyrt fyrir mynd sem ekki er á ensku. Heimsfrumsýning leikritsins var í Þjóðleikhúsi Norðmanna í Ósló í desember 2009 og er uppfærslan þegar orðin sú vinsælasta í sögu leikhússins. Verkið hefur einnig notið ómældra vinsælda í Finnlandi og Danmörku og er væntanleg á fjalir virtra leikhúsa víða um heim.

Tónlistarstjórn er í höndum Jóhanna G. Jóhanssonar. Vytautas Narbutas hannar leikmynd, Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir búninga og Björn Bergsteinn Guðmundsson lýsingu.

{mos_fb_discuss:2}