Mæður Íslands
Leikfélag Mosfellssveitar og Miðnætti
Leikstjórn: Agnes Wild
Hrund Ólafsdóttir rýnir sýningu
Listahópurinn Miðnætti er alinn upp í Leikfélagi Mosfellssveitar. Þær Agnes Wild leikstjóri, Eva Björg Harðardóttir leikmynda- og búningahönnuður og Sigrún Harðardóttir tónlistarhöfundur, og flytjandi ásamt Lofti S. Loftssyni, eru ungar og flottar listakonur sem hafa gerst atvinnumenn eftir nám í útlöndum. Sem hópurinn Miðnætti sviðsetja þær nú verk í annað sinn fyrir leikfélagið sitt en hið fyrra var Ronja ræningjadóttir sem var valin athyglisverðasta áhugasýningin og sýnd í Þjóðleikhúsinu í vor.
Mæður Íslands er einlæg sýning með litlum nafnlausum myndum, samin af leikstjóranum og tíu manna leikhópi sem allt eru konur. Eitt af því sem heillaði mig við sýninguna var heildarmyndin sem listakonurnar þrjár skapa; stíll, leikmynd, búningar og tónlist falla vel saman. Áhorfendur eru látnir ganga inn í fagran kvennaheiminn á sviðinu með því að sitja á stólum sem eiga að vera hluti af leikmyndinni en að baki þeim og um kring hanga blúndugardínur og hvít kvennærföt frá ýmsum tímum á snúrum. Lýsingin er ljómandi fín og styður við þetta. Búningar leikaranna hvít blúndunærföt og stundum svartir jakkar utanyfir. Hugmyndin er sú að persónurnar komi til dyranna „eins og þær eru (fá)klæddar” og að þannig komi kjarni þeirra best í ljós. Það er prýðilega heppnað. Tónlistin styður þetta ágætlega en hún er bæði frumsamin og flutt lifandi aftan við áhorfendur og einnig þekkt lög flutt í græjum.
Í sýningunni er lagt upp með það stóra og metnaðarfulla verkefni að segja sögur kvenna einlæglega og tæpitungulaust í draumkenndum stíl og reyna þannig að fanga hvað það er að vera móðir á Íslandi. Bæði nú og fyrir áratugum síðan, en farið er fram og aftur í tíma. Leikkonurnar eru á ýmsum aldri og það er fyndið og skemmtilegt að láta aldursforsetann Maríu Guðmundsdóttur leika litla stelpu á fyrri hluta tuttugustu aldar en láta Dóru Wild dóttur hennar leika móður hennar. Það má alveg hafa gaman af því líka að þessar tvær reyndu og góðu leikkonur eru amma og mamma leikstjórans efnilega. Ungu stelpurnar í sýningunni eru fleiri en þær eldri og nokkrar þeirra nýjar í félaginu. Það fylgir þeim æskukraftur og gleði sem ég naut mjög að sjá og hvað hópurinn var sterkur sem heild. Það er ánægjulegast við þessa sýningu að það hefur greinilega ríkt traust, ánægja og gleði í öllu sköpunarferlinu. Sögurnar eru sögur leikhópsins og fyrirferðarmestar eru myndir af stelpum sem eru skotnar í strákum, sem langar að eiga börn eða verða óvart óléttar, langar í fullorðinslíf og fallegt brúðkaup en efast. Einnig eru þarna stuttar myndir af konum sem hafa misst börn eða geta ekki eignast börn og af konum sem missa mæður sínar.
En allt eru þetta stuttar myndir sem eru bara örlítil innsýn og dýptina vantar til að snerta áhorfendur svo þeim standi ekki á sama um örlög kvennanna. Persónur eru nafnlausar, þeim er varla fylgt eftir og ekki hægt að átta sig á hvort leikkonurnar leika sömu persónur oftar en í einu eða tveimur brotum. Dramatúrg eða ,,þriðja augað” hefði leyst mikið af þessum vanda og jafnvel ef meiri tími hefði verið gefinn í undirbúning. Í vandaðri leikskránni er m.a. greint frá því að hópurinn hafi byrjað á núlli fimm vikum fyrir frumsýningu. Ég myndi vilja sjá þessar konur aftur í sýningu í fullri lengd þar sem dramatískir hápunktar í lífi þeirra væru undirbyggðir. Þannig snerta persónur við hjörtum áhorfenda sem þyrstir einmitt í persónulegar sögur. Þess vegna segi ég: Áfram stelpur!
Hrund Ólafsdóttir