Fagnaður eftir Nóbelsskáldið Harold Pinter í leikstjórn Stefáns Jónssonar verður tekinn til sýninga á ný í Þjóðleikhúsinu og að þessu sinni á Stóra sviðinu. Fyrsta sýningin verður sunnudaginn 24. september n.k.

Harold Pinter, eitt frægasta leikskáld samtímans, hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2005. Þjóðleikhúsið sýnir nýjasta leikrit hans, Fagnað, sem hlaut þá umsögn gagnrýnanda þegar það var frumflutt í London árið 2000 að það væri fyndnasta og aðgengilegasta verk skáldsins í mörg ár. Verkið gerist á veitingastað í London. Á hverju borði er verið að fagna einhverju. En smám saman verðum við vör við ógnina sem býr undir niðri.
fagn.jpgHarold Pinter er af mörgum talinn eitt frumlegasta og merkasta leikskáld Breta á síðari hluta tuttugustu aldar. Pinter hefur skrifað um þrjá tugi leikrita, en hann hefur jafnframt haft mikil áhrif á leiklist í Bretlandi sem leikstjóri og höfundur fjölda útvarps- og sjónvarpsleikrita. Hann hefur einnig skrifað nokkur kvikmyndahandrit. Á síðari árum hefur Pinter látið mikið til sín taka á opinberum vettvangi í mannréttindabaráttu. Hörð gagnrýni hans á ríkisstjórnir Bretlands og Bandaríkjanna vegna stefnu þeirra í alþjóðastjórnmálum hefur meðal annars vakið mikla athygli. Mörg leikrita Pinters hafa verið sett upp á Íslandi, meðal annars Húsvörðurinn, Liðin tíð, Einskonar Alaska, Kveðjuskál, Heimkoman, Elskhuginn, Vörulyftan og Svik. Harold Pinter voru á þessu ári veitt evrópsku leiklistarverðlaunin, virtustu leiklistarverðlaun álfunnar.

Í tengslum við endurupptöku sýningarinnar verður boðið upp á Kvöldstund með Pinter þau kvöld sem sýningar verða. Þær hefjast með þriggja rétta kvöldverði í Leikhúskjallaranum kl. 19.00. Að málsverði loknum flytur Martin Regal dósent í ensku við Háskóla Íslands erindi um Pinter og verk hans og leiksýningin hefst síðan kl. 21.00.

Leikendur eru Edda Arnljótsdóttir, Guðrún Gísladóttir, Hjálmar Hjálmarsson, Jón Páll Eyjólfsson, Kristján Franklín Magnús, Margrét Kaaber, Nanna Kristín Magnúsdóttir, Ólafur Darri Ólafsson og Ólafur Egill Egilsson.

Þýðandi er Elísabet Snorradóttir, búningar eru í höndum Rannveigar Gylfadóttur, Björn Bergsteinn Guðmundsson sér um lýsingu, höfundur leikmyndar er Börkur Jónsson og leikstjóri sem fyrr Stefán Jónsson.