Komið þið sæl.

Áhugaleiklistin er frjór jarðvegur. Jarðvegur sem svo mörg okkar sem kosið hafa að gera leiklistina að ævistarfi eru sprottin úr. Ég á áhugahreyfingunni og Litla leikklúbbnum á Ísafirði ótrúlega margt að þakka.Þar kynntist ég maka mínum, þar eignaðist ég marga af mínum bestu vinum, þar kviknaði áhuginn á listinni og það varð aftur til þess að ég fór í háskólanám í leikstjórn og gerði hana að ævistarfi mínu.

Þegar ég kom heim úr námi frá Bretlandi tók áhugahreyfingin mér opnum örmum og varð minn fyrsti vinnuveitandi. Þar fékk ég tækifæri, og hef fengið tækifæri, sem ég hef ekki fengið annarsstaðar. Ég lít í raun þannig á að ég standi í nokkurri skuld við áhugahreyfinguna og vil henni allt hið besta. Ég lít líka á áhugahreyfinguna sem framtíðarstarfsvettvang fyrir mig, samhliða störfum í atvinnuleikhúsi. Sérstaða íslensks áhugaleikhúss hefur einmitt í gegnum tíðina falist í þessum nánu tengslum við atvinnumennskuna. Í öðrum löndum myndi áhugleiklistin hér teljast „semi-professional" en ekki „amateur", og fyrir vikið er standardinn á íslenskri áhugaleiklist hærri en víðast annars staðar. „Við spilum ekki í sömu deild“, eins og Toggi orðaði það hér áðan.

Eitt af því sem hefur aðeins verið rætt innan Leikstjórafélagsins er sú stefna sem hefur borið á undanfarinn áratug eða svo, að áhugafólkið sjálft sjái um leikstjórn sinna verkefna. Eftir mjög lauslega könnun á verkefnum síðustu ára, þá sýnist mér að áhugafólk sjái um uppsetningu meiri hluta þeirra í dag, að dagskrám og styttri verkum þá meðtöldum. Það er auðvitað ekkert nýtt að áhugafólk leikstýri, en nú er það farið að koma að leikstjórn með mun markvissari hætti en áður, og þá sérstaklega með tilkomu skóla Bandalagsins.

Ekkert er eðlilegra en að í áhugaleikfélögum vakni áhugi einstaklinga á að leikstýra. Þannig komst ég sjálf á bragðið. Þess vegna hlýtur það líka að teljast eðlilegt af hálfu Bandalagsins að bregðast við þessum áhuga með námskeiðahaldi og öðrum stuðningi. Í kjölfarið hafa margir hæfileikaríkir áhugaleikstjórar komið fram. Ég hef séð sýningar sumra þeirra. Þetta er að mínu mati einn mest spennandi vaxtarbroddurinn í áhugaleikhúsinu að leikrituninni frátalinni.

En nú spyr ég: Hvaða stefnu vilja áhugaleikfélögin, þið sjálf, taka í leikstjóramálum? Er vilji fyrir að halda í þessi tengsl við atvinnuleikstjóra með svipuðu sniði og verið hefur eða vilja leikfélögin kannski tengjast stéttini á nýjan hátt? Og ég spyr eins og Rúnar gerði líka, er jafnvel vilji fyrir að slíta þessu sambandi og gera áhugahreyfinguna óháða atvinnumennskunni? Sálf tel ég þetta geta farið vel saman og á vonandi eftir að gera það um ókomna framtíð, en þetta eru spurningar sem áhugahreyfingin þarf að svara fyrir sjálfa sig áður en lengra er haldið. Þessar spurningar finnst mér á þessu stigi skipta jafnvel meira máli en tal um peninga, eins miklu máli og þeir nú skipta. Fyrst þarf að vita hvert takmarkið er, svo hægt sé að taka stefnuna út frá því.

Ef til vill er það eðlileg þróun, þar sem tími fólks er dýrmætari en áður, að starfsemi áhugaleikfélaga sé í auknum mæli í formi uppsetninga á styttri verkum og dagskrám á kostnað uppsetninga í fullri lengd. Í raun verð ég að segja að mér finnst það alveg ótrúlegt að í nútímasamfélagi skuli enn yfirhöfuð vera hægt að setja upp leikrit í fullri lengd með áhugafólki, og fá það til að mæta á fjögurra klukkustunda langar æfingar, kauplaust, sex sinnum í viku í allt að tvo mánuði.

Eitt hefur mér alltaf þótt skrítið, kannski vegna þess að ég hef setið beggja vegna borðsins, og það er umræða sem byggist á einhverju „við" og „þið" tali þegar kemur að áhugaleikhúsinu og atvinnuleikstjórum. Mér liggur við að segja að þarna eigi sér stað einhver paranoia. Leikstjórar koma fram með rulluna sem Guðjón vitnaði í: „Það er verið að taka frá okkur vinnu og peninga sem við eigum með réttu" og áhugaleikhóparnir segja á móti: „Þessir leikstjórar koma bara út á land til að sækja peningana sína". Svona tal er hvorki uppbyggjandi né sanngjarnt.

Ég vona að í dag og hér eftir verði litið meira á heildarmyndina. Hvað er áhugaleiklistinni fyrir bestu? Er það ekki hagur beggja að sem flestir hæfir leikstjórar starfi með félögunum? Leikstjórar eru ekki allir góðir, hvorki atvinnumenn né áhugamenn. Þannig er það bara. Þess vegna er það mikilvægt að boðskipti á milli leikfélaga séu góð og það sé látið spyrjast út þegar einhver reynist vel, alveg eins og þegar einhver reynist illa.

Það hlýtur samt að vera einhver munur þarna á; atvinnuleikstjórum og áhugaleikstjórum. Ég efast ekki um að menntun og reynsla gera góðan leikstjóra betri og vinnubrögðin markvissari. Það þýðir ekki að áhugamaður geri endilega verri sýningu – bara öðruvísi.

Þetta er kjarni málsins og þarna held ég að leikfélögin verði að velja og hafna í hvert skipti sem þau ákveða að fara út í uppfærslu. Hvað viljum við gera núna? Fá til liðs við okkur atvinnumanneskju til að taka af okkur ómakið við að leiða vinnuna, eða njóta þess að gera það sjálf? Þannig líka þróast félögin og einstaklingar innan félaganna áfram með því að fást við ólík verkefni með ólíku fólki. Ég held að þetta sé fullkomlega eðlileg og jákvæð þróun. Að þarna þrífist hlið við hlið, tvennskonar áhugaleikhús. Alvöru áhugamannaleikhús og svo „semi-professional“ leikhús (þýðing óskast).

Mér þykir hins vegar miður ef leikfélögin eru farin að þurfa að haga vali á leikstjóra verkefna, ekki eftir vilja eða listrænum metnaði, heldur peningum eingöngu. Ráða sem ódýrastan leikstjóra og gera sem einfaldasta og stysta sýningu, sem nær sem flestum áhorfendum inn vegna þess að það eru ekki til peningar til annars. Þar hafi áhugi eða eldmóður þeirra í félaginu ekkert með að gera hvað er valið. Ég spyr mig, hvers virði er þá að vinna sýningar og hvers virði er vinna þeirra sem að verkinu standa? Aðstandendur fórna fjölskyldulífi og öllum frístundum vikum saman fyrir uppsetninguna og þess vegna er það þyngra en tárum taki ef sú vinna er metnaðarlaus og losaraleg af einhverjum ástæðum. Þetta getur að sjálfsögðu gerst jafnt undir handleiðslu áhuga- og atvinnumanns. Metnaður leikfélags og metnaður leikstjóra verður að fara saman.

Við erum samherjar. Við erum öll leikhúsfólk, hvert á sinn hátt. Það er gaman að vinna með metnaðarfullu leikfélagi, það hef ég svo sannarlega reynt, t.d. í tvígang hérna í Kópavoginum. Ég veit líka af eigin reynslu sem áhugamanneskja, að það er gaman og gefandi að vinna með leikstjóra sem setur markið hátt og gerir kröfur. Látum ekki umræðuna stjórnast af einhverri vænisýki á báða bóga heldur tökum höndum saman um að styrkja áhugaleiklistina á Íslandi. Og þar er keppikeflið auðvitað, vegna þess að því miður snýst þetta svo mikið um peninga, að berjast sameiginlega fyrir auknu fjármagni inn í þessa listgrein. Ekki sitt í hvoru lagi, heldur saman.

Ég hvet Bandalagið eindregið til að halda áfram að fræða og rækta eigin leikstjóra. Alveg eins og leikara, ljósahönnuði, leikmyndahönnuði og ég tala nú ekki um leikskáld því þar á sér stað mikil og jákvæð nýsköpun. Ég er persónulega meira en til í samkeppni við hæfa áhugamenn um verkefni. Ég vil bara fá að keppa á jafnréttisgrundvelli, að ástæðan fyrir því að áhugamaðurinn er tekinn framyfir sé sú að hann er talinn heppilegri kostur í þetta tiltekna verkefni, en ekki einungis að hann kosti minna.

Takk fyrir.

(Erindi þetta er efnislega óbreytt, en hefur verið stytt og snyrt töluvert af höfundi, vonandi til bóta.)