Leikstjórn í áhugaleikhúsi – Faglegt öryggi eða listrænn metnaður
Þegar ég tók að mér að flytja framsögu á þessu málþingi þurfti ég að byrja á að setja niður fyrir mér hvaðan ég myndi nálgast viðfangsefnið – leikstjórn í áhugaleikhúsi. Ég er nefnilega í þeirri stöðu að horfa á leiklist áhugamanna úr nokkuð mörgum áttum þessi misserin. Átti ég að horfa á leikstjórn út frá nýfenginni reynslu minni sem leikstjóri í áhugaleikhúsi? Eða væri betra að nýta reynslu mína sem leiklistargagnrýnandi til tveggja ára til að gefa einhvers konar yfirlit yfir það sem ég hef séð á þeim tíma? Báðir þessir vinklar væru kannski fróðlegir, en á endanum fannst mér að ég yrði að tala út frá því sjónarhorni sem skiptir mig mestu máli, frá sjónarhóli þátttakanda í áhugaleikhúsi í víðasta skilningi. Frá því ég fékk leiklistarbakteríuna illræmdu í kringum 1985 hef ég staðið á sviði, setið í stjórn leikfélags, skrifað í leiklistarblaðið og á Leiklist.is, sótt námskeið í leik og leikstjórn, skrifað leikrit, samið tónlist, stjórnað höfundasmiðju, setið í varastjórn bandalags íslenskra leikfélaga og starfað í þjónustumiðstöð samtakanna. Það er sem áhugaleikhúsmaður sem ég mun reyna að átta mig á samlífi leikstjóra og leikhóps á forsendum áhugaleikhússins næstu mínúturnar, með lykilorðin listrænar kröfur og nýsköpun að leiðarljósi. Reynsla mín sem leikstjóri og gagnrýnandi nýtist síðan auðvitað líka og hefur áhrif á allt sem ég segi.
Á síðasta aðalfundi Bandalags íslenskra leikfélaga voru gerðar breytingar á opinberri menningarstefnu þess. Flestar þeirra voru næsta smávægilegar, nokkrar greinar voru felldar niður vegna þess að þær lýstu markmiðum sem samtök áhugaleikhúsfólks litu ekki lengur á sem sín markmið. En ein breytingin var að mínu viti grundvallarbreyting. Svohljóðandi lið var bætt inn í menningarstefnu samtakanna:
– að hvetja til að listrænn metnaður og virðing fyrir leiklistinni sé leiðarljós allra áhugaleikara.
Nú kynni einhvern að undra að slíkt stefnumið hafi til skamms tíma ekki verið meðal þess sem samtök áhugaleikfélaga telja mikilvægt. En staðreyndin er sú að áhugaleikhúsfólk hefur verið einkennilega feimið við að kenna iðju sína við listsköpun, eða leggja listræna mælikvarða á afrakstur vinnu sinnar. Hvers vegna það er svo er efni í annað málþing, en sú staðreynd að ofangreindum lið var mótatkvæðalaust bætt inn í menningarstefnu bandalagsins bendir til að kannski sé að verða breyting þar á. Mig grunar að þar spili inn í fjörefnið sem streymt hefur um æðar leikfélaganna með tilkomu Leiklistarskóla Bandalagsins svo og smárra og stórra leiklistarhátíða sem hafa einkennt starfsemi samtakanna undanfarin ár. Þá ber ekki að vanmeta áhrif samkeppninnar um athyglisverðustu áhugaleiksýninguna sem Þjóðleikhúsið stendur fyrir með myndarbrag ár hvert. Einnig gætu menningarrýnar freistast til að tala um endurskilgreiningu listhugtaka á þessum póstmódern tímum, gott ef ekki gengisfellingu. En það er aftur efni í enn annað kjaftaþing, og það sýnu leiðinlegra.
Listrænn metnaður er semsagt opinberlega kominn á dagskrá sem leiðarljós í starfi áhugaleikfélaganna. Það er því athyglisvert að á sama tíma gerast þær raddir háværari sem þykir hafa þykknað upp á himninum yfir leikhúsi áhugamanna. Fyrir utan almenna óáran á borð við sífellt harðari slag um frítíma fólks og auraleysi heyrist sú skoðun að íslensku áhugaleikhúsi stafi mesta hættan af leikstjórum sem ekki eru menntaðir til starfans, leikstjórum sem ekki hafa þekkingu, leikstjórum sem ekki eru fagmenn.
Nú er það staðreynd að samvinna íslensks áhugaleikhúss og leikhúslistamanna úr röðum atvinnufólks er mikil blessun. Eftir að hafa sótt þónokkrar leiklistarhátíðir með þátttöku norrænna leikhópa leyfi ég mér að fullyrða að okkar áhugaleikhús spilar ekki í sömu deild og skandinavía á þessu sviði. Við erum ofar. Við spilum reyndar ekki í sömu úrvalsdeildinni og eystrasaltsþjóðirnar eða rússar en þar er þessi samvinna enn þróaðri og almennari.
Það er líka staðreynd að undanfarin ár hefur þeim sýningum sem leikstýrt er af fólki úr okkar röðum stórfjölgað, einkum eftir að leiklistarskóli Bandalagsins kom til sögunnar. Sífellt fleiri leikfélög hafa innan sinna raða fólk sem treystir sér til að stýra vinnu félaga sinna, að minnsta kosti við viðaminni verkefni, en líka á heilum verkum. Og hin allra síðustu ár hefur jafnvel borið á því að sumir þessara "heimaræktuðu" leikstjóra eru kallaðir til starfa hjá öðrum félögum. Fáeinir eru á góðri leið með að gera leikstjórn í áhugaleikhúsi að sinni aðalatvinnu. Það er þessi þróun sem sumir telja bliku á lofti, upphafið á hnignunarskeiði, allavega hið versta mál. Fagmennska er einskis metin lengur.
Ég held að þessar áhyggjur séu ástæðulausar og á misskilningi byggðar. Misskilningi á eðli leikstjórnarstarfsins og kannski jafnvel listsköpunar yfirleitt.
Peter Brook heitir maður, nú á áttræðisaldri. Hann er leikstjóri, af lettneskum ættum, fæddur í Englandi og hefur verið búsettur í Frakklandi um árabil, þar sem hann stýrir alþjóðlega samsettum leikhópi sínum. Hann er einn mesti áhrifamaður í vestrænu leikhúsi á tuttugustu öld, og sennilega frægastur slíkra áhrifamanna. Eins og næstum því allir helstu leikstjórar breta á síðari hluta tuttugustu aldarinnar hefur hann enga formlega leikhúsmenntun að baki.
Fyrir allnokkru fékk hann bréf frá manni sem dreymdi um að verða leikstjóri og bað um ráð til að láta þennan draum sinn rætast. Í svari sínu segir Brook meðal annars:
Leikstjórar tilnefna sig sjálfa. Það er merkingarlaust að tala um atvinnulausan leikstjóra. Þú verður leikstjóri með því að kalla þig leikstjóra og sannfæra síðan aðra um að það sé satt.
Hvað er fagmennska? Í henni felst að búa yfir þekkingu á viðfangsefni sínu, þekkja aðferðir þess og virða þær reglur sem gilda um það. Fagmaður gerir sér grein fyrir því til hvers er ætlast af honum og mun skila því verki í krafti kunnáttu sinnar og starfsmetnaðar.
Tryggir fagmennskan að útkoman verði sómasamleg? Já sennilega, ef aðrar forsendur eru fyrir hendi. En er þetta það sem þarf til að skapa leiklist? Snýst listsköpun um trygga útkomu?
Að mínu viti er betra að líta á ekki á leikstjórn sem FAG, heldur STÖÐU. Stöðu eins og forstjóra fyrirtækis eða þjálfara fótboltaliðs. Eins og Brook sagði, að breyttu breytanda: atvinnulaus forstjóri er merkingarleysa. Slíkur maður var eitt sinn forstjóri en er það ekki lengur. Um leið og hann fær nýtt forstjórastarf er hann forstjóri á ný. Og slíkt starf fær hann með því að sannfæra fólk um að hann valdi því. Pípulagningamaður er hinsvegar fagmaður. Hann hættir ekki að vera pípulagningamaður þótt hann fáist við önnur störf. Annar merkur breskur leikstjóri á öldinni sem leið heitir Jonathan Miller. Hann er læknir að mennt. Og hann er læknir, jafnvel þótt hann starfi ekki sem slíkur. Að vera læknir er fag. Að vera leikstjóri, eða þjálfari fótboltaliðs er hins vegar staða. Og líkt og þjálfari fótboltaliðs er markmið leikstjórans ekki að fylgja mótaðri leið að fyrirfram gefinni útkomu heldur að beita öllum ráðum innan gefinna forsendna til að ná árangri. Undir stjórn hins góða þjálfara sigrar liðið. Leikkerfin hjálpa stundum til, en hverjum er ekki sama ef sigur vinnst. Og hvað er líka í húfi ef leikur tapast? Það er nýr á morgun og tapleikurinn kenndi öllum eitthvað, leikmönnum og þjálfara, sem báðir mæta stæltari til leiks á ný.
Leikstjórn er staða. Þekking á leikhúsinu hjálpar einstaklingnum að standa sig í stöðunni. Það gerir líka sköpunarþörf, hugmyndaauðgi, færni í samskiptum, skapandi hugsun, myndræn sýn, textanæmi, vinnusemi, sjálfstæði í skoðunum, ást á leikhúsinu, og listin að gera hæfilegar kröfur til þátttakendanna.
Það að finna rétta manninn til að vinna með leikfélaginu sínu að tilteknu verkefni útheimtir af stjórn þess þekkingu á viðfangsefni sínu og þeim kröfum sem það gerir, tilfinningu fyrir leikhópnum, getu hans og möguleikum og listina að gera hæfilegar kröfur til mannsins í leikstjórastöðunni. Ef hann hefur próf í faginu er það gott. Ef hann hefur reynslu sem leikmaður er það líka gott. Ef hann er ástríðufullur leikhúsmaður er það fínt. Ef hann er allt þetta er það frábært.
En ef hann blæs ekki leikhópnum eldmóð í brjóst, ef hann nær ekki að virkja áhuga og hæfileika leikaranna, ef hann horfir ekki á viðfangsefnið með opnum augum og hlustar eftir því sem það er að segja, þá skiptir prófið, reynslan og ástríðan engu máli. Hann var ekki starfi sínu vaxinn, ekki STÖÐU sinni vaxinn.
Lykilorðin sem okkur voru fengin fyrir þetta málþing voru nýsköpun og listrænar kröfur. Kröfur leikstjóra til leikhópa, og leikhópa til leikstjóra. Ég byrjaði á því að tala um hvernig listrænn metnaður er skyndilega kominn á opinbera dagskrá í áhugleikhúsinu. Og vonandi hef ég fært að því skiljanleg rök að leikstjórnarstarfið er þess eðlis að formlegar fagkröfur eru ekki það mikilvægasta, og því engin ástæða til að óttast hnignun þótt fleiri og fleiri áhugamenn finni hjá sér þörf til að standa upp, kalla sig leikstjóra og reyna að sannfæra aðra um að svo sé. Ef það mistekst þá er það svosem ekkert einskorðað við áhugamenn, og ekki stór skaði skeður. Forstjórinn er látinn taka pokann sinn og er þar með ekki lengur forstjóri. En ef það tekst og þátttakendur jafnt sem áhorfendur láta heillast er viðkomandi leikstjóri og hananú. Þetta var um listrænar kröfur, og hvernig þær eru ekki fagkröfur.
Gera leikstjórar nægilegar listrænar kröfur til leikfélaganna? Stundum, sumir, sumir ekki, stundum ekki. Það sama gildir um kröfur leikfélaganna til leikstjóranna. Ég hef séð sýningar sem voru verri en ástæða var til. Ég hef líka séð sýningar sem voru betri en hægt var að gera ráð fyrir. En það er miklu auðveldara að sætta sig við mislukkaða sýningu þar sem ástríðan blasir við, en vandlega sviðsetta sýningu sem engin leið er að sjá að neinn hafi séð sérstaka þörf fyrir að setja á svið.
En hvað með nýsköpun? Er nýsköpun að finna í íslensku áhugaleikhúsi? Já, það tel ég. Reyndar held ég að hin uggvænlega framsókn óreyndra og menntunarskertra leikstjóra sé eitt dæmi um nýsköpunina. Sveigjanleikinn sem fylgir því að hafa heimamann við stjórnvölinn sem ekki þarf að fæða eða hýsa og jafnvel ekki greiða laun, skapar tilraunafrelsi sem auðvitað er sumstaðar verið að nýta. Gleymum því ekki að sú kynslóð sem núna er ríflega þrítug og er víða að axla ábyrgð í áhugaleikhúsinu er pönk-kynslóðin. Boðskapurinn sem við tókum inn í gegnum skaddaðar hljóðhimnurnar var að allir eigi að tjá sig, kunnátta og færni var sett í aftursætið, eða hent út um gluggan. Eða eins og Einar Örn Benediktsson, hinn laglausi söngvari Purrks Pillnikks og síðar heimsfrægur með Sykurmolunum gargaði:
Málið er ekki hvað þú getur heldur hvað þú gerir.
Auðvitað mun þessi þörf okkar til að gera allt sjálf ekki útrýma einstakri og frábærri samvinnu íslenskra áhugaleikfélaga við leikstjóra úr heimi atvinnumennskunnar. En atvinnumennskan er ekki trygging fyrir list, og það er heldur ekki trygging sem við viljum.
Besta skilgreining á leikhúsi sem ég þekki er annað erindið í þjóðsöng leikfélagsins míns.
Situr einn og segir frá
Sveitist við að ljúga.
Annar hlustar hrifinn á
og hamast við að trúa.
Þú gerist leikstjóri með því að segjast vera leikstjóri og sannfæra síðan aðra um að svo sé. Á sama hátt og leikarinn á allt sitt undir trúnaðartrausti áhorfandans á leikstjórinn allt undir trausti leikhópsins. Ef leikhópurinn þarfnast prófgráðu á leikstjórann til að finna til þess trausts, þá verður svo að vera. En áhorfandinn horfir á leiksýninguna, sveitist við að trúa og ef það tekst er málið útrætt og vel skipað í stöðuna.
Áhugaleikhúsið þarf ekki forskrift til að fara eftir, ekki leiðarvísi að gefinni niðurstöðu. Við viljum stjórnast af listrænum metnaði og virðingu fyrir leiklistinni. Það sem við krefjumst af leikstjórum er innblástur til að skapa.
Hvorki meira né minna.