Skemmtilegt heimildarverk sem vermir manni um hjartarætur. Frumsýnt 11. nóvember í Hofi á Akureyri.

Ástarsögur dynja á okkur – endalaust; ýmist óendurgoldnar ástir eða skammlífar. Flestar eiga þær það sameiginlegt að enda ekki vel. En hvað með sögurnar sem enda vel, eða ganga vel? Hvernig eru þær sögur og hvar er þær að finna?

Leikhópurinn Artik hefur í sumar og haust safnað saman raunverulegum ástarsögum para víða af norðausturland og unnið úr þeim leikverkið Elsku – Ástarsögur Norðlendinga. Handritið er unnið orðrétt upp úr viðtölum sem tekin voru við pörin og einnig er tónlist nýtt til að teikna sögurnar upp. Þetta er því hreinræktuð heimildarsýning sprottin upp úr okkar umhverfi á norðurhjara veraldar. Frá nágrönnum þínum, frænkum, frændum, mömmu, pabba, ömmu, afa, systkinum – eða jafnvel þín eigin saga.

Forveri verkefnisins, Elska  – ástarsögur Þingeyinga, var unnið af Jennýju Láru Arnórsdóttur árið 2013, með styrk frá Aftur heim, verkefni Menningarráðs Eyþings. Það verkefni var einungis unnið af henni sjálfri og var því mjög smátt í sniðum. Engu að síður fékk það mjög góð viðbrögð, bæði fyrir norðan sem og í höfuðborginni, og var Jenný hvött til að halda áfram að þróa það og bæta við samstarfsaðilum. Þá fékk Jenný til liðs við sig Agnesi Wild leikstjóra, leikarann Jóhann Axel Ingólfsson, sem sér einnig um tónlistina í leikverkinu og leikmynda- og búningahönnuðinn Evu Björg Harðardóttur. Saman hafa þau að þróað verkefnið, rætt við fleiri viðmælendur á norðausturlandi og auðgað umgjörðina. Því er um algerlega sjálfstætt framhald að ræða.

Hægt er að panta miða á www.mak.is

ATHUGIÐ AÐ UM SNARPAN SÝNINGARTÍMA ER AÐ RÆÐA, EN EINUNGIS VERÐA SÝNINGAR 11. OG 12. NÓVEMBER.

Handrit: Jenný Lára Arnórsdóttir, Jóhann Axel Ingólfsson og Agnes Wild

Leikstjórn: Agnes Wild

Leikararar: Jenný Lára Arnórsdóttir & Jóhann Axel Ingólfsson

Tónlist: Jóhann Axel Ingólfsson

Leikmynd og búningar: Eva Björg Harðardóttir

Aðstoð við dans og hreyfingar: Katrín Mist Haraldsdóttir

Aðstoð við lýsingu: Þóroddur Ingvarsson

Ljósmyndir: Daníel Starrason

Grafísk hönnun: Vaiva Straukaite