Þann 30. janúar verður samvinnuverkefni Draumasmiðjunnar, Leikfélags Reykjavíkur og Íslenska dansflokksins frumsýnt á litla sviði Borgarleikhússins. Verkið heitir Óþelló, Desdemóna og Jagó og er nýstárleg leikgerð Gunnars I. Gunnsteinssonar á Óþelló eftir William Shakespeare, en Gunnar er jafnframt leikstjóri verksins.
 
Í sýningunni eru aðeins þrjú hlutverk og hefur hvert hlutverkanna sitt eigið tjáningarform, þ.e.a.s. dans, táknmál og talað mál. Þessum ólíku tjáningarformum er hér stefnt saman og standa þau annars vegar sjálfstæð eða tvinnast saman í dramatíska framvindu örlaga þriggja höfuðpersónanna í einu þekktasta  leikverki  Shakespeare. Framsetning verksins er fyrst og fremst sjónræn, en öðrum skynfærum er þó einnig gert hátt undir höfði með frumsaminni tónlist eftir Rúnar Þórisson og ljóðrænni þýðingu Helga Hálfdanarsonar. Má með sanni segja að hér sé á ferðinni sannkallað augna og eyrnakonfekt fyrir alla sem unna skáldskap, fagurri list og langar að sjá nýjar leiðir farnar í leikhúsinu.
 
Í hlutverki Óþellós er dansarinn Brad Sykes. Desdemóna er í höndum Elsu G. Björnsdóttur og Jagó er leikinn af Hilmi Snæ Guðnasyni.  Aðrir aðstandendur sýningarinnar eru Ástrós Gunnarsdóttir, danshöfundur, Vignir Jóhannsson myndlistarmaður, sem hannar leikmyndina og María Ólafsdóttir búningahönnuður. Magnús Arnar Sigurðsson hannar lýsinguna en tónlistin er í höndum Rúnars Þórissonar, gítarleikara sem bæði semur og flytur hana á sýningum.  Elsa G. Björnsdóttir og Hjördís Anna Haraldsdóttir hafa þýtt texta Desdemónu yfir á táknmál og er þetta í fyrsta skipti sem texti Shakespeare er þýddur yfir á táknmál. Uppsetningin er styrkt af Menntamálaráðuneytinu.

 
Næstu sýningar verða:
Sun. 3. febrúar
Sun. 10 febrúar
Lau. 16. febrúar
Sun. 24. febrúar
Fim. 28. febrúar
 
Miðasala í síma 568 8000 – Takmarkaður sýningarfjöldi!

{mos_fb_discuss:2}