Þann 26. janúar næstkomandi verður leikritið Eldhaf eftir Wajid Mouwad frumsýnt á Nýja sviði Borgarleikhússins. Eldhaf er stór saga, harmleikur um fortíðina sem skapar nútímann, sem höfðar beint til hjartans. Verkið hefur farið sigurför um heiminn, verið þýtt á tuttugu tungumál og sýnt í yfir 100 uppsetningum. Leikstjóri er Jón Páll Eyjólfsson og þýðingu annaðist Hrafnhildur Hagalín.

Aðstandendur uppfærslu Borgarleikhússins á verkinu eru margir hverjir þeir sömu stóðu að sýningunni Elsku barn sem fékk 7 tilnefningar til Grímunnar á síðasta leikári. Ilmur Stefánsdóttir hannar leikmynd og búninga og tónlistarstjóri er Hallur Ingólfsson. Í burðarhlutverkum eru Unnur Ösp Stefánsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson og Lára Jóhanna Jónsdóttir. Þegar er uppselt á fyrstu 15 sýningar verksins.

Kona deyr á sjúkrahúsi. Börn hennar, tvíburarnir Símon og Janine, eru boðuð á fund lögfræðings vegna erfðaskrár móður þeirra. Hann afhendir þeim sitt hvort bréfið frá móðurinni og segir það hinstu ósk hennar að tvíburarnir afhendi bréfin í eigin persónu. Annað á að færa bróður þeirra sem þau vissu ekki að væri til og hitt föður þeirra sem þau töldu látinn. Systkinin halda með bréfin í óvenjulega ferð sem afhjúpar þeim áður ókunna fortíð móður þeirra og hræðilegt leyndarmál.

Wajdi Mouawad (1968) er fæddur í Líbanon en flúði með foreldrum sínum til Parísar og býr nú í Montréal í Kanada þar sem hann starfar sem leikari, leikstjóri, leikhússtjóri og leikskáld. Eldhaf er hans þekktasta verk, hefur verið þýtt á tuttugu tungumál, farið sigurför um heiminn og verið sýnt í yfir 100 uppsetningum á síðustu árum. Kvikmyndin sem gerð var upp úr leikritinu hefur hlotið einróma lof og fjölda verðlauna.

{mos_fb_discuss:2}