Hugleikur frumsýndi á föstudaginn var, 5 tengda einþáttunga eftir Þórunni Guðmundsdóttur undir samheitinu Kleinur. Þættirnir sýna svipmyndir úr ævi almúgamannsins Sigga og er atburðarásin rakin í öfugri tímaröð. Eins og nafnið gefur til kynna leika kleinur nokkuð stórt hlutverk í lífi Sigga og eru jafnvel örlagavaldar á köflum. Elsti þátturinn var skrifaður fyrir nokkrum árum og þá ku ekki hafa staðið til að skrifa meira um Sigga og samferðafólk hans. Það er þó skiljanlegt að Siggi hafi kallað á meiri skrif hjá höfundi því þessi alþýðlega persóna og líf hans vekur einkennilega samkennd hjá áhorfendum. Þó auðvelt sé að hlæja að því sem gerist í lífi söguhetjunnar fer ekki hjá því að manni fari smám saman að þykja vænt um kallinn.
Höfundurinn hefur áður sýnt að hann er lipur penni og rúmlega það og bregst ekki bogalistin hér. Þættirnir eru vel skrifaðir og sumar senurnar eru hreint óborganlegar. Þeir fyrstu þrír hefðu vel getað staðið einir en þeir tveir síðustu eru einskonar endahnútur á hina og gætu ekki án þeirra verið.
Sævar Sigurgeirsson sýndi hreint magnaðan leik í hlutverki Sigga. Túlkun hans á persónunni á mismunandi æviskeiðum var ótrúlega sannfærandi hvort sem hann staulaðist um sem sjötugur kall eða valhoppaði sem Siggi 12 ára. Hann hoppaði milli æviskeiða eins og að drekka vatn og rödd, fas og líkamsburður gerðu það að verkum að hann var ávallt algerlega trúverðugur.
Aðrir leikarar voru í minni hlutverkum og stóðu sig ágætlega en þó verður sérstaklega að nefna þau Huldu Hákonardóttur og Sigurð Atlason sem sýndu skínandi takta í hlutverkum sínum. Hulda leikur Gunnu eiginkonu Sigga í tveimur þáttum og gerði það framúrskarandi vel. Sérstaklega fór hún á kostum í þættinum þar sem þau hjón fá þjóðháttafræðing í heimsókn. Í samleik þeirra hjóna reis sýningin hæst. Sigurður Atlason hefur ekki stigið á svið með Hugleik í allnokkur ár og var það löngu orðið tímabært. Alþýðuskáldið og iðnaðarmaðurinn varð í meðförum hans að ógleymanlegri persónu. Áreynslan og sálarangistin sem gagntók hann þegar hann glímdi við skáldagyðjuna lét engan í salnum ósnortinn.
Það var töluvert um hlátursköll í Kaffileikhúsinu meðan á sýningu stóð og þess á milli sat undirritaður skælbrosandi eins og sennilega flestir áhorfendur, svo undir lokin voru komnir brosverkir í kjálkana. Það var yndislegt að eyða kvöldstund Sigga og hans fólki og ég væri til í að heimsækja þau hjónin oftar. Kleinur eru settar upp af augljósri væntumþykju og töluverðri list. Þó látleysi einkenni sýninguna má kannski lýsa henni best með setningu úr einum þættinum:
„Það er ekki alltaf samasemmerki á milli fitu og dugnaðar.“
Hörður Sigurðarson