Í vetur hefur leikfélagið Hugleikur flutt samsettar dagskrár í Þjóðleikhúskjallaranum. Í nóvember var sýnd dagskráin "Einu sinni var…" Dagskráin er spunnin úr gömlum örlagasögum sem ellefu manns segja úr eigin umhverfi og krydduð með tónlist, ýmist fornum stefjum eða tónlist sem tengist sögunum sem sagðar eru. Sýningin er afrakstur af námskeiði hjá Benedikt Erlingssyni og Charlotte Böving sem haldið var hjá félaginu í október.

Vegna fjölda áskorana verður dagskráin endurflutt nú í febrúar. Sýningar verða sunnudaginn 18. og þriðjudaginn 20. febrúar og hefjast klukkan 20:00. Miðaverð er 1.000. krónur. Þetta er sýning sem áhugamenn um íslenska frásagnarhefð ættu ekki að láta framhjá sér fara.

Athugið breytingar á áður auglýstum sýningardögum.