Leikfélag Ölfuss frumsýnir nýtt íslenskt leikrit eftir heimamanninn Aðalstein Jóhannsson í leikstjórn Don Ellione, en þetta er í annað sinn sem hann leikstýrir hjá Leikfélagi Ölfuss.
Verkið nefnist Einn rjúkandi kaffibolli og fjallar um rithöfund sem venur komur sínar á kaffihús eitt í von um að fá innblástur við bókaskrif. Það hleypur á snærið hjá honum þegar bæjarróninn Elísa veldur spaugilegri uppákomu og fá áhorfendur að sjá skrif rithöfundarins lifna við. Stundum má þó varla sjá skilin milli þess raunverulega og skáldskapar. Jafnvel persónurnar sjálfar efast um geðheilbrigði rithöfundar, því ekki fer allt eins og ætlað er og grípur rithöfundurinn þá til örþrifaráða til að halda lífi í skrifunum.
Leikfélagið sýnir nú í nýju húsnæði að Selvogsbraut 4 þar sem áður var staðsett öldurhús en við það skapast mikil nánd milli leikara og áhorfenda þar sem þeir eru í raun gestir á kaffihúsinu. Einn rjúkandi kaffibolli verður frumsýndur föstudaginn 16. október n.k. en miðapantanir eru á leikfjelag@gmail.com eða í síma 692-0939. Miðaverð 2.500 kr.