Leikfélag ungmennafélagsins Grettis á Laugarbakka í Miðfirði frumsýndi í lok mars farsann Einn koss enn og ég segi ekki orð við Jónatan eftir Marc Camoletti í þýðingu Sigurðar Atlasonar. Leikstjóri sýningarinnar er Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir. Páskasýning verður laugardag fyrir páska 23. apríl í félagsheimilinu Ásbyrgi á Laugarbakka.

 

Farsinn fjallar um erkipiparsveininn Jónatan.  Hann á þrjár konur sem allar eru flugfreyjur og vita þær ekki hver af annarri. Allt gengur þetta vel þar til flugfélögin fá nýjar, hljóðfráar þotur sem eru mikið fljótari í förum, en þá riðlast allt skipulag í lífi Jónatans. Ekki bætir úr skák að félagi Jónatans, kvennabósinn og piparsveinninn Róbert kemur í heimsókn. Þegar svo er komið þarf Jónatan meir en nokkru sinni á snilli ráðskonu sinnar að halda. Hver atburðurinn rekur annan og jafnt og þétt magnast ringulreiðin í lífi Jónatans.

Leikfélag ungmennafélagsins Grettis var endurreist árið 2004 eftir 22 ára hvíld með verkinu Frænka Charlie‘s. Árið 2008 var 80 ára afmæli ungmennafélagsins fagnað með sýningu á farsanum Jón og Hólmfríður og nú í ár þessi sýning.  Þetta er fyrsta sýning ungmennafélagsins sem Jóhanna Sæmundsdóttir leikstýrir og fengu þær tvær sýningar sem hafa verið mjög góðar viðtökur áhorfenda.

Með hlutverk í farsanum fara:
Gísli Grétar Magnússon, Þórarinn Óli Rafnsson, Guðrún Hálfdánardóttir, Ingibjörg Jónsdóttir, Guðbjörg Guðmundsdóttir og Hrafnhildur Víglundsdóttir

Aðrir sem koma að sýningunni:

Förðun:  Kristín Arnardóttir
Leikmynd:  Ari Guðmundur Guðmundsson, Gunnlaugur Frosti Guðmundsson, Sæunn Vigdís Sigvaldadóttir og Ingibjörg Jónsdóttir
Hljóð og ljós:  Páll Sigurður Björnsson
Búningar:  Ingibjörg Helgadóttir
Ljósmyndun og fleira:  Helga Guðrún Hinriksdóttir

Miðaverð er kr. 2.000 og fer miðasala fram við komu.

{mos_fb_discuss:2}