Hugleikur mun þann 7. október nk. hefja á ný sýningar á  leikritinu Einkamál.is eftir Árna Hjartarson. Leikritið var frumsýnt sl. vetur og fékk lofsamlega dóma gagnrýnenda. Þegar sýningum var hætt í vor var uppselt flest sýningarkvöld. Sem fyrr er sýnt í húsnæði leikfélagsins að Eyjarslóð 9.

Einkamál.is er dramatískur gamanleikur um samtímafjölskyldu í heimatilbúnum vanda. Hvað gerir barnelskur karl þegar hann kemst að því að einkasonur hans og tengdadóttir hafa ákveðið að eignast ekki börn? Hann tekur málið auðvitað í sínar hendur, setur auglýsingu á einkamál.is og óskar eftir kynnum við konu sem væri til í að ganga með barnabarn fyrir hann. Viðbrögðin eru lífleg en brátt tekur málið óvænta og uggvænlega stefnu.

Árni Hjartarson er gamalreyndur Hugleikshöfundur og sækir sér hér efnivið í samtímann og þjóðfélagsleg álitamál. Spurt er um genamengið og viðgang þess, þrána eftir afkomendum og hversu langt skuli gengið í viðhaldi ættarinnar.

Valinkunnir Hugleikarar fara með hlutverk í uppfærslunni og má þar nefna Rúnar Lund, Elísabetu Indru Ragnarsdóttur, Júlíu Hannam og Einar Þór Einarsson. Leikstjórar eru Hulda B. Hákonardóttir og Þorgeir Tryggvason.

Í leikdómi Silju Aðalsteinsdóttur á vef Tímarits Máls og menningar (www.tmm.is) segir  m.a. um sýninguna: „Einkamál.is er afbragðs vel fléttaður og vel skrifaður gamanleikur […] Það gleður mann alltaf alveg sérstaklega að sækja sýningar hjá Hugleik en sjaldan held ég að þeim hafi tekist eins vel upp. Efnið er gott, sviðsetningin gerð af skemmtilegri hugkvæmni og leikurinn allur hinn vandaðasti, hófstilltur og einlægur um leið og leikarar túlkuðu skoplegar aðstæður sínar.“

Í leikdómi Lárusar Vilhjálmssonar á Leiklistarvefnum (www.leiklist.is) segir m.a. um uppfærsluna: „Það er skemmst frá að segja að

Hugleikur sannar það enn einu sinni að leikfélagið er í fremstu röð þegar kemur að því að setja á svið ný íslensk leikverk.“

Aðeins verða fjórar sýningar í október og eru þær sem hér segir:
1. sýning föstudaginn 7. október kl. 20.00
2. sýning sunnudaginn 9. október kl. 20.00
3. sýning fimmtudaginn 13. október kl. 20.00
4. sýning fimmtudaginn 20. október kl. 20.00

Almennt miðaverð eru 2.000 krónur en 1.500 krónur fyrir nemendur, öryrkja og eldri borgara. Allar nánari upplýsingar um uppsetninguna og leikfélagið má nálgast á vefnum www.hugleikur.is. Tekið er við miðapöntunum á netfanginu: midasala@hugleikur.is.

{mos_fb_discuss:2}