Að undanförnu hafa ungmennafélagar í Flóahreppi, úr Umf. Baldri, Samhygð og Vöku unnið að uppsetningu á gamanleiknum Draumur á Jónsmessunótt eftir William Shakespeare. Leikstjóri er Gunnar Sigurðsson.
Þessi þrjú félög sem starfa í austanverðum Flóanum eru rótgróin ungmennafélög með langa sögu og sterka hefð. Umf. Samhygð í Gaulverjabæjarhreppi og Umf. Baldur í Hraungerðishreppi voru bæði stofnuð 1908 og Umf. Vaka í Villingaholtshreppi 1936. Markmið þessara þriggja félaga hefur ætíð verið að halda uppi öflugu æskulýðs- og menningarstarfi í sinni sveit og hefur leiklist átt sér fastan sess í starfi þeirra frá upphafi.
Félögin hafa alltaf átt gott samstarf og stóðu oft að leikuppfærslum allt fram til 1970 þegar þau settu upp Nýársnóttina eftir Indriða Einarsson í leikstjórn Eyvindar Erlendssonar. Þá varð hlé þar til félögin ákváðu að taka höndum saman á ný 2005 og settu þá upp Stútungasögu. Og nú er það Draumur á Jónsmessunótt.
Mikið er lagt í sýninguna til að hún megi heppnast sem best og samhliða æfingum og öðrum nauðsynlegum undirbúningi undanfarið hafa staðið yfir miklar endurbætur á leiksviði félagsheimilisins Þingborgar. Leiksviðið var allt hækkað eða byggt upp eins og alltaf hafði verið ætlunin en ekki framkvæmt fyrr en nú. Auk þess byggðu ungmennafélagar framlengingu á sviðið fram í sal þar sem þeir ætla að geysast um í Draumnum.
Frumsýnt verður 10. mars nk. í félagsheimilinu Þingborg.
Næstu sýningar eru:
Sunnudag 11. mars
Fimmtudag 15. mars
Föstudag 16. mars
Sunnudag 18 mars
Sýningarnar hefjast allar klukkan 20:30.
Miðapantanir eru í símum 486-3319 og 845-9719.
Í Þingborg er gott aðgengi fyrir hjólastóla.