Í komandi viku býður Íslendinga sannkölluð dansveisla þegar tveir erlendir danshópar mæta á klakann með stórfenglegar sýningar. Þetta er annars vegar pólski danshópurinn Polish Dance Theatre og hins vegar norskur danshópur sem kennir sig við stofnanda hans, Jo Strømgren Kompani. Koma danshópanna til landsins tengist samstarfi sem hóparnir tveir eiga við Sjálfstæðu leikhúsin og verður sýnt á þremur stöðum á landinu.
Borgarleikhúsið tekur á móti Polish Dance Theatre 18. og 19. maí. Þar verður flutt sýningin Czterdzieści eða fjörutíu. Sýningin fylgist með lífi konu frá því augnabliki sem hún fæðist árið 1973 og allt til afmælis hennar árið 2013. Á þessum fjórum áratugum stendur hún frammi fyrir efasemdum, von, baráttu, vali og ófyrirsjáanlegum atburðum. Öllu þessu mætir hún af hetjudáð með lífsviljann að leiðarljósi. Á þessu ferðalagi um kaótíska Evrópu tekst aðalpersónunni að feta meðalveginn milli eigin metnaðar og þeirra aðstæðna sem hún lendir í hverju sinni. Þessi sýning er þó ekki einungis saga einnar manneskju heldur verður hún um leið samnefnari fyrir ferðalag heillrar þjóðar en einnig dansleikhússins. Pólland gekk í gegnum róttækar breytingar á síðastliðnum 40 árum en hverjar eru væntingar framtíðarinnar? Á 40 ára afmæli pólska dansleikhússins leitast þau við að svara sömu spurningu.
Sömu daga eða 18. og 19. maí mun Jo Strømgren Kompani sýna The Border í Tjarnarbíói.
Þessi danssýning hefur verið sýnd um allan heim frá því að hún var fyrst frumsýnd í Tromsø í Noregi 2011. Maður og kona vinna saman á skrifstofu langt í burtu, en samt svo nærri. Þau virðast umgangast hvort annað af gagnkvæmri virðingu en undir yfirborðinu geisar stírð, bæði vilja ná yfirráðum yfir svæðinu. Kannski er þó meira í húfi, eins og kemur í ljós þegar þau uppgötva fíkn sína fyrir ástríðu. Ástríðu fyrir hvoru öðru, ástríðu fyrir leiknum sjálfum eða hinni grimmu blöndu þess beggja eins og oft vill vera í samskiptum kynjanna. Ef við leyfum ímyndunaraflinu að leika lausum hala opnum við fyrir frekari skilning. Getur verið að þessi erfiða sambúð eigi eitthvað sameiginlegt með klassískri landamæradeilu milli tveggja þjóða?
Jo Strømgren Kompani var stofnað 1998 og hafa sýningar þess vakið gríðarlega athygli bæði í Noregi og út um heim allan. Stofnandinn Jo Strømgren hefur jafnframt starfað sem danshöfundur út um allan heim og meðal annars gert fjölda sýninga fyrir Íslenska dansflokkinn.
Að lokum leggja svo danshóparnir enn undir sig fót og fara saman til Akureyrar þar sem sýningarnar verða sýndar hvor á eftir annarri í Menningarhúsinu Hofi. Póslki flokkurinn ríður á vaðið með Czterdzieści þann 21. maí og norsku listamennirnir klára svo þessa miklu dansveislu með sýningu á The Border 22. maí.
Miðasala er á midi.is, borgarleikhus.is, tjarnarbio.is og menningarhus.is. Ath að hægt er að kaupa miða á báðar sýningarnar með sérstökum afslætti. Verkefnið er fjármagnað með styrjum frá Íslandi, Liechtenstein og Noregi.