Sviðslistahópurinn, Leikhúslistakonur 50+ frumsýndi sýninguna Dansandi ljóð síðastliðinn laugardaginn í Þjóðleikhússkjallaranum. Næstu sýningar eru miðvikudag 15. maí kl. 20.00 og sunnudag 19. maí kl. 20.00.

Í verkinu er sögð ævisaga konu frá fæðingu til fullorðinsára og túlka leikkonurnar líf hennar, ástir og örlög í ljóðum, hreyfingum og tónlist. Sýningin byggir á ljóðum Gerðar Kristnýjar en leikstjóri er Edda Þórarinsdóttir. Leikkonur eru: Margrét Kristín Sigurðardóttir (Fabúla) sem einnig semur tónlistina, Bryndís Petra Bragadóttir, Helga E. Jónsdóttir, Júlía Hannam, Rósa Guðný Þórsdóttir, Sólveig Hauksdóttir, Vilborg Halldórsdóttir og Þórey Sigþórsdóttir.
Helga Björnsson hannar leikmynd og búninga og danshöfundarnir Ingibjörg Björnsdóttir og Ásdís Magnúsdóttir hafa samið hreyfingar. Sýningin tekur rúma klukkustund.
Miðaverð er kr. 4.200,-. Miðar eru seldir í miðasölu Þjóðleikhússins og hjá tix.is.