Dansaðu fyrir mig, dansverk eftir Brogan Davison og Pétur Ármannsson, frumsýnt í Tjarnarbíó fimmtudaginn 20. febrúar kl. 20:00. Verkið hefur áður verið sýnt í Hofi á Akureyri fyrir fullu húsi og á leiklistarhátíðinni Lókal í ágúst á síðasta ári, en nú í febrúar og mars fá höfuðborgarbúar tækifæri til að sjá sýninguna. Uppselt er á fyrstu tvær sýningarnar, 20. og 23. febrúar, en næstu tvær sýningarnar verða 1. og 2. mars. Það er því vissara að hafa hraðar hendur og missa ekki af þessu frábæra dansverki, en það hefur hlotið mikið lof þar sem það hefur verið sýnt.

Sýningunni hefur þegar verið boðið á þrjár erlendar listahátíðir: You Are Here-hátíðina í Ástralíu, Now-hátíðina í Kanada og á Aerowaves showcase í Mousonturm-leikhúsinu í Frankfurt.

Nánar um verkið: Ármann Einarsson er þriggja barna faðir og tónlistarkennari. Hann er 48 ára gamall, 172 sentímetrar á hæð og með bumbu. Ármann hefur enga formlega danskennslu hlotið en fyrir ári síðan kom hann að máli við tengdadóttur sína, danshöfundinn Brogan Davison, og skýrði henni frá því að sig hefði alltaf dreymt um að dansa samtímadans á sviði.
Úr varð að þau Brogan og Ármann sömdu dansverk sem þau frumsýndu á Akureyri á seinasta ári en nú vill Ármann elta drauminn sem lengst og dansa fyrir sem flesta. Áður en Ármann eltir drauminn til útlanda þá fá höfuðborgarbúar þetta einstaka tækifæri til þess að upplifa einlægt og bráðfyndið leikhúsverk um langþráða drauma, sköpunarferlið og efann sem hellist yfir mann þegar minnst varir. Er dans fyrir alla?

Frekari upplýsingar og miðapantanir í midasala@tjarnarbio.is og 527-2100.

Dansarar: Ármann Einarsson og Brogan Davison

Höfundur: Brogan Davison og Pétur Ármannsson

Sýningar
20. febrúar (UPPSELT)
23. febrúar (UPPSELT)
1. mars
2. mars

Vefsíður sýningarinnar:
Heimasíða: danceformetour.com
Facebook-síða: facebook.com/dansadu
Facebook-viðburður: facebook.com/events/245022955677677