Leikstarf um allt land er í lamasessi vegna Covid. Þau félög sem komu á aðalfund sögðu stuttlega frá stöðu mála hjá sér á fundinum og hér má sjá hvað sagt var, með nokkrum viðbótum og breytingum vegna þess sem gerst hefur síðan fundurinn var haldinn:

Leikfélag Mosfellsbæjar stefndi á að frumsýna Stuart litla þegar ósköpin dundu yfir síðasta vetur. Ákveðið hafði verið að frumsýna loks nú í október en nú eru þau plön aftur komin á ís um sinn. Hið öfluga barnastarf félagsins hefur verið í fullum gangi.
Leikfélag Kópavogs sem þurfti að hætta sýningum á Fjallinu, hugðist taka aftur upp þráðinn nú í haust en þegar til kom voru of margir leikarar sem komnir voru í önnur verkefni til að hægt væri að æfa aftur upp og sýna. Vægur möguleiki er á að sýningin verði æfð upp aftur eftir áramót. Barnastarf er í gangi í samstarfi við Leynileikhúsið. Stefnt var að nýliðanámskeiði sem átti að hefjast nú í október en því var frestað þegar yfirstandandi smithrina skall yfir.
Leikfélag Hveragerðis hefur verið í startholunum í haust en ekki lagt í að hefja æfingar vegna ástandsins. Barnastarf er í gangi í samstarfi við Leynileikhúsið og spunanámskeið á döfinni.
Leikfélag Hafnarfjarðar hefur fengið endurnýjaðan samning um húsnæði í Kapellu gamla St. Jósepsspítala til eins árs. Loks er komið heitt vatn í húsnæði þeirra og auka salerni sem nauðsynlegt var til að fá starfsleyfi. Ekki gekk að æfa leikritið Ferðamaður deyr á netinu eins plön voru um. Félagið sýndi nokkur fjarverk á vefnum síðasta vetur. Eru búin að setja af stað höfundasmiðju einu sinni í viku og opin hús og undirbúningur að “hinu vikulega” er hafinn. LH ætlar að taka upp æfingar af Ferðamanninum en mögulega ekki fyrr en í vor. Stefna einnig á að setja á dagskrá námskeið fyrir eldri borgara, höfundanámskeið og jólaævintýri í Hellisgerði. Þau hafa ekki verið með skipulagt barna eða unglingastarf. LH er að byggja upp starfið eftir nokkurra ára heimilisleysi og segja að gámaleikhús sé ekki vænlegt.
Af Hugleik er það að frétta að þau náðu að sýna í nóvember og desember. Óperusamstarfsverkefni var frestað frá í vor fram á haust og hefur nú verið frestað aftur. Sýningarhúsnæði sem þau voru með fyrir áramót hefur verið breytt í geymslu. Hugleikur stefnir á leikaranámskeið í æfingahúsnæði og stuttverkadagskrár í vetur. Grasrótarstarf er í forgangi þar sem ekki er hægt að æfa nýtt verk.
Leikfélag Selfoss frumsýndi Djöflaeyjuna síðasta vetur og náðu þremur sýningum áður en allt skall í lás. Fyrirhugað var að hefja æfingar aftur í september en vegna nýjustu tíðinda hefur enn verið frestað. Stefnt er á námskeið í vor. Héldu sumarnámskeið fyrir börn í fyrrasumar og stefnt er á að halda áfram með þau. Ýmsir fastir liðir eru á plani en það fer eftir stöðunni hvað verður.
Freyvangsleikhúsið náði 9 sýningum af Dagbók Önnu Frank áður en þurfti að loka. Sýningar voru hafnar að nýju nú í haust en þurftu að hætta eins og aðrir, a.m.k. í bili.
Leikfélag Hólmavíkur náði tveimur sýningum af nýrri leikgerð á Stellu í Orlofi áður en lokaði. Þau ætluðu að taka hana upp aftur nú með haustinu, en Covid stoppaði það.
Halaleikhópurinn er í sömu vandræðum og aðrir. Þau voru búin að ráða Sigrúnu Valbergsdóttur til að leikstýra tveimur einþáttungum, Gular baunar og Aldrei fer ég suður. Stefnt var að því að byrja nú í haust en aftur er óvissan tekin við og ekkert að gera nema sjá til.
Leikfélag Sauðárkróks hefur vanalega verið með tvær sýningar á ári, barnasýningu að hausti og farsa í tengslum við Sæluviku að vori. Voru byrjuð að æfa síðasta vetur en þurftu að hætta eins og aðrir. Félagið stefnir ótrautt á sýningu vorið 2021. Hugmyndin var að nýta haustið til að vera með lítið verk í barnastarfið. Sveitarstjórn varð við ósk þeirra um nýtt húsnæði og eru þau nú að standsetja það í Covid ástandinu.
Leikfélagið Sýnir er yfirleitt með starfsemi á sumrin en var ekki með sýningu í sumar. Ekkert sérstakt er í plönunum hjá félögunum enda er eðli félagsins þannig að þegar önnur leikfélög eru í lamasessi, smitast það í Sýnir.