Leikdeild Ungmennafélags Biskupstungna frumsýnir þann 5. febrúar í Félagsheimilinu Aratungu leikritið „Brúðkaup“ eftir Guðmund Ólafsson í leikstjórn Gunnars Björns Guðmundssonar. Æfingar hafa staðið yfir síðan fyrir jól og leikhópurinn er loks að sjá takmarkið fyrir augum sér með frumsýningunni.
Leikritið er fjölskyldu-gaman-drama þar sem ýmislegt gengur á og er góð lýsing á brúðkaupi eins og þau kannski gerast í nútímaþjóðfélagi þar sem væntingar eru miklar en standa ekki undir sér. Má með sanni segja að sýningin henti öllum vel sem vilja njóta ánægjulegrar skemmtunar í vetrarkuldanum.
Næstu sýningar eru sunnudaginn 7., 10.,11. og 12. febrúar. Allar sýningar hefjast kl. 20.00.
Einnig má nálgast upplýsingar um sýningardaga á fésbókarsíðu leikdeildarinnar og í síma 896 7003.
Á undan leiksýningum býður Café Mika Reykholti upp á sérstakan leikhúsmatseðil. Upplýsingar og borðapantanir í síma 486 1110.