Leikfélag Hörgdæla frumsýnir núna á fimmtudag 7. mars hið heimþekkta leikverk Bróður minn Ljónshjarta eftir Astrid Lindgren. Sýnt er að Melum í Hörgársveit. Uppselt er á frumsýningu en örfáir miðar lausir á sýningar um helgina.

Bróðir minn Ljónshjarta er hugljúf stríðssaga af þeim bræðrum Snúð og Jónatan. Yngri bróðirinn Snúður er dauðvona en Jónatan reynir að hughreysta Snúð með því að segja honum hvað gerist eftir dauðann. Eftir stutta jarðneska dvöl hittast bræðurnir aftur í Nangijala eins og þeir höfðu talað um. Þar er lífið himneskt eða ætti öllu heldur að vera það, það er svikari í Kirsuberjadal sem aðstoðar það grimma í þeim heimi, Riddarann Þengil og hans fólk, ásamt eldspúandi drekanum Kötlu sem eiga sitt aðsetur í Þyrnirósadal.

Alls eru 14 leikarar í sýningunni en þeir eru á aldrinum 9 ára til 55 ára. Um það bil 60 manns kemur að sýningunni með einum eða öðrum hætti. Æfingar hafa verið í gangi frá því um miðjan janúar og hefur gengið mjög vel. Með aðalhlutverkið Karl “Snúð” Ljónshjarta fer hin 12 ára gamla Katrín Birta Birkisdóttir  en Eden Blær Hróa fer síðan með hlutverk eldri bróðurins, Jónatans Ljónshjarta.

Leikstjóri sýningarinnar er Kolbrún Lilja Guðnadóttir en hún hefur mikla reynslu úr leiklistarheiminum. Þetta er í fyrsta skipti sem hún leikstýrir hjá Leikfélagi Hörgdæla en þó ekki í fyrsta skipti sem hún kemur á Mela þar sem hún lék í Gauragangi árið 2019. Kolbrún leikstýrði Fólkinu í blokkinni árið 2023 í Freyvangsleikhúsinu og Tröll sem leikfélag VMA setti upp árið 2022.
Svavar Knútur hannar hljóðheiminn í sýningunni en hann þekktur tónlistarmaður hefur getið sér góðan orðstír sem bæði flytjandi og lagahöfundur bæði hérlendis sem og alþjóðlega undanfarin ár. Svavar var fyrstur til að hljóta verðlaun úr minningarsjóði Önnu Pálínu Árnadóttur fyrir framlag sitt til íslenskrar vísnatónlistar, hrífandi túlkun, nýsköpun í söngljóðagerð og lagasmíðum, endurnýjun hins þjóðlega tónlistararfs fyrir alla aldurshópa og starf í þágu ungra og upprennandi tónlistarmanna.

Bróðir minn Ljónshjarta er eftir Astrid Lindgren. Astrid er einn þekktasti barnabókahöfundur heims og mörg hafa lesið bækur hennar í grunnskóla en hennar þekktustu verk eru bækurnar um Línu langsokk, Emil í Kattholti, Ronju ræningjadóttur og Kalla á þakinu. Til eru margar kvikmyndir og leikrit sem byggð eru á sögum hennar. Leikgerð er eftir Evu Sköld og þýðandi er Þorleifur Hauksson.

Frumsýning verður fimmtudaginn 7. mars kl. 20:00 en sýningar verða annars sem hér segir:
Laugardagur 9. mars kl. 16:00
Sunnudagur 10. mars kl. 16:00
Laugardagur 16. mars kl. 16:00
Sunnudagur 17. mars kl. 16:00
Fimmtudagur 21. mars kl. 20:00
Miðvikudagur 27. mars kl. 20:00
Skírdagur fimmtudagur 28. mars kl. 16:00
Föstudagurinn langi  29. mars kl. 16:00
Laugardagur 30. mars kl. 16:00
Fimmtudagur 4. apríl kl. 20:00
Laugardagur 6. apríl kl. 16:00
Sunnudagur 7. apríl kl. 16:00

Almennt miðaverð 4.500kr
Eldri borgarar: 3.500kr
Börn (15 ára og yngri): 3.500kr

Leikarar í sýningunni eru:
Katrín Birta Birkisdóttir, Eden Blær Hróa, Fanney Valsdóttir, Stefanía Elísabet Hallbjörnsdóttir, Baldur Þór Finnsson, Ormur Guðjónsson, Emma Svavarsdóttir, Ísabella Líf Baldvinsdóttir, Eyþór Páll Ólafsson, Ýma Rúnarsdóttir, Karen Ósk Kristjánsdóttir, Sigurður Viðarsson, Ísak Óli Bernharðsson, Jóhann Jónsson.