Freyvangsleikhúsið
Fiðlarinn á þakinu
Höfundar: Joseph Stein, Jerry Bock og Sheldon Harnick. Þýðandi: Þórarinn Hjartarson
Leikstjórar: Oddur Bjarni Þorkelsson og Margrét Sverrisdóttir

Fimmtudaginn 27. mars frumsýndi Freyvangsleikhúsið söngleikinn góðkunna Fiðlarann á þakinu eftir þá Joseph Stein, Jerry Bock og Sheldon Harnick. Hann þekkja margir og hafa séð – en það breytir engu, hann er löngu sígildur ekki síst fyrir tónlistina. 

Leikurinn gerist árið 1905 í gyðingaþorpinu Anatevka í Rússneska keisaradæminu. Í miðju sögusviðsins eru mjólkurpósturinn Tevje, eiginkona hans Golda og dætur þeirra. Sagan snýst svo að nokkru leyti um átök hefðarinnar og nýja tímans – sérstaklega þegar að því kemur að finna þarf eiginmenn fyrir dæturnar – um samspil þeirra við vonbiðlana og svo samskiptin við fulltrúa keisaravaldsins í þorpinu. Hefðin býður að hjúskaparmiðlari finni mannsefnin en unga fólkið vill fara sínar eigin leiðir – á sama tíma vofir yfir ógn vegna aðgerða yfirvalda gegn Gyðingunum.

Haft er eftir söngtextahöfundinum Harnick að eftir að söngleikurinn var frumsýndur á Broadway árið 1964 og náði sínu ótrúlega flugi þá hafi komið í ljós að hann er í raun ekki gyðingasaga heldur fjölskyldusaga sem fólk hvarvetna um heiminn sér sjálft sig í. Það má til sanns vegar færa.
Heyri maður að Freyvangsfólk hyggist setja á svið Fiðlarann og þekki maður til, þá grípur mann strax hugsun sem mætti lýsa með þessari jöfnu: Freyvangur + Fiðlarinn = Hannes Örn Blandon. Það mun að vísu ekki hafa verið meining frá upphafi heldur hljóp Hannes í skarðið fyrir annan sem forfallaðist. Breytir því ekki að Hannes er fæddur í rullu Tevjes mjólkurpósts. Á frumsýningu var hann ofurlítið köflóttur í leiknum, sem mun slípast af með fleiri sýningum, en traustur og sannfærandi heilt yfir. Þegar hann var hvað bestur var hann einfaldlega og gjörsamlega framúrskarandi. Eins og í martraðarsenunni og eins í angist efans yfir eiginmannsefnum dætranna. Goldu, eiginkonu Tevjes, leikur Hrund Hlöðversdóttir og gerir það ákaflega vel – hlý og ástúðleg undir niðri en þarf aðstæðna vegna oft að vera ströng og hrjúf á yfirborðinu. Samleikur þeirra Hannesar í áðurnefndri martraðarsenu er óborganlegur. En þau ná líka vel saman á tilfinningaríkum augnablikum eins og í dúettnum „Elskar þú mig?“.
Hlutverkin í Fiðlaranum eru feykimörg og ekki ráðrúm til að gera framistöðu allra leikara skil hér. Dætur Tevjes voru allar sannfærandi, hver á sinn hátt og sama má segja um vonbiðlana og önnur stærri hlutverk þorpsbúa. Vitaskuld mátti sjá að leikararnir eru mislangt á veg komnir á leikarabrautinni en allir gerðu vel. Af þeim reyndari má nefna til dæmis Ingólf Þórsson sem leikur rabbínann í þorpinu. Hann var með afbrigðum skemmtilegur og leikur allra lifnaði þegar hann átti sviðið. Sýningin er nokkuð löng fyrir hlé og það er tvímælalaust gæðamerki að tíminn flaug áfram og hvergi dauð stund. Eftir hlé féll spennan og hraðinn aðeins – en ég skrifa það hiklaust á frumsýninguna. Mun slípast til eftir því sem sýningum fjölgar.
Uppsetningin er mjög hefðbundin og leikmynd, búningar og lýsing í samræmi við það. Leikmyndin er einföld en nokkuð hugvitssamleg – sama hornið er krá, lestarstöð, saumaverkstæði og heimili. Svefnherbergi Tevjes og Goldu er flutt út á mitt svið þegar á þarf að halda eins og í martraðarsenunni. Búningarnir eru trúverðugir, lýsingin einföld og allt þjónar þetta sýningunni afar vel. Áhorfendur dragast léttilega inn í galdurinn.
Sérstakt hól fær hljómsveitin sem er þegar allt er talið 7 manna. Tónlistarflutningurinn er öruggur og ljómandi en bandið er sýnilegt allan tímann innst á sviðinu – svona eins og í útihúsum. Virkar vel.
Freyvangsleikhúsið hefur með sinni farsælu og árangursríku sögu safnað reynslu og þekkingu sem er hverju leikhúsi nauðsynleg, hvort sem það telst áhuga- eða atvinnumanna. Í slíku skjóli er afbragð fyrir nýliða að stíga sín fyrstu skref og í því umhverfi gera þeir líka vel. Svo er í þessu tilfelli. Leikstjórarnir Margrét Sverrisdóttir og Oddur Bjarni Þorkelsson hafa náð að draga fram það besta. Krafturinn í Freyvangi er segull á gott fólk sem skilar góðu starfi. Að Fiðlaranum koma um 60 manns og full ástæða til að óska þeim öllum til hamingju með feykigóða sýningu.

Bravó, bravó Freyvangsleikhús – enn vinnið þið sigur!

Tónlistarstjórn: Brynjólfur Brynjólfsson
Leikmynd: Ingvar Guðni Brynjólfsson
Ljós: Benedikt Axelsson
Búningar: Beate Stormo

Þórgnýr Dýrfjörð

Birt með góðfúslegu leyfi Akureyri – Vikublaðs.