Einleikurinn Brák eftir Brynhildi Guðjónsdóttur hefur verið sýndur undanfarin þrjú ár á Sögulofti Landnámssetursins í Borgarnesi. Verkið var sérstaklega skrifað til flutnings þar og hefur sýningin, í leikstjórn Atla Rafns Sigurðarsonar, gengið fyrir fullu húsi í þrjú ár. Nú hefur Landnámssetur – Brynhildur þegið boð Þjóðleikhússins um að sýna verkið í Kúlunni og hefjast sýningar þar 6. febrúar.

Verkið er saga Þorgerðar brákar, ambáttar landnámsmannsins Skallagríms Kveldúlfssonar og fóstru Egils Skallagrímssonar. Leikritið vann Brynhildur uppúr Egilssögu aðallega en öðrum Íslendingasögum einnig, fornaldarsögum norðurlanda, svo og írskum sögum og annálum. Frásögnin er innblásin af sagnahefð sögualdar á Íslandi og frásögnum af þeim fjölmörgu konum sem hnepptar voru í ánauð og fluttar til Íslands á Víkingaöld. Verkið varpar ljósi á ambáttina Brák, konuna sem fóstraði skáldskapargáfu mesta skálds Íslendinga, hjálpaði honum að finna farveginn og að lokum gaf honum líf sitt.

Leikritið hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda og hlaut Brynhildur á sínum tíma tvenn Grímuverðlaun fyrir verkið, annars vegar sem Leikkona ársins í aðalhlutverki 2008 og einnig sem Leikskáld ársins 2008.

{mos_fb_discuss:2}