Danski leikhópurinn Scene 1 verður í Norræna húsinu í Reykjavík frá 11.–15. október 2005. Heimsóknin er hluti af ferð til Íslands og Færeyja og hópurinn hlakkar til að kynna brúðu- og grímuleiksýninguna „Konan frá hafinu“ og grímunámskeiðið „Ferð töframannsins“.
Konan frá hafinu
Hugmyndin að leiksýningunni „Konan frá hafinu“ er fengin úr gamalli norrænni þjóðsögu. Þar segir frá einmana manni, sem verður ástfanginn af villtri selkonu og heldur henni á landi í sjö ár með því að læsa selhaminn hennar niður í kistu. Í leiksýningunni blandast saman leiklist, tónlist, ljóð og brúðuleikhús – allt getur gerst og hvað sem er getur lifnað við, t.d. gríma, skór, flaska eða bindi. Meðan á leiksýningunni stendur spinnur sögumaðurinn Sedna langa örlagaþræði í kringum manninn og selkonuna í grátbroslegri ástarsögu um krafta sem eru mun öflugri en vilji mannskepnunnar.
Gagnrýnandinn Karen Gårdhus skrifaði um leiksýninguna þegar hún var sett upp á Vildskud-hátíðinni í Kaupmannahöfn árið 2004:
„Mikilfengleg flugeldasýning með brúðum, grímum, röddum og tónlist. Stórkostleg og grípandi leiksýning, þar sem mörg mismunandi tjáningarform sameinast í eina, stóra heild … Grípandi, ljóðræn, yndisleg og hugvekjandi leiksýning um hina erfiðu list ástarinnar. Sýning sem þú mátt ekki missa af!“
„Konan frá hafinu“ er leiksýning frá Scene 1 sem er leikhópur sem var stofnaður í Kaupmannahöfn árið 2003. Leikendur eru Anna Katrin Egilstrod frá Færeyjum, 24 ára, Anne Louise Munch frá Danmörku, 32 ára, og Annemarie Jeppesen frá Danmörku, 32 ára. Þær eiga sameiginlegt að hafa gengið í leiklistarskólann Center for Kreativitet og Teater, sem var stofnaður af leikstjóranum Barböru von Siebenthal. Leikhópurinn Scene 1 hefur staðið fyrir leiksýningum, tónleikum og menningarviðburðum, hann hefur m.a. verið með farandsýningar og einnig leikið á sameiginlegu leiksviði Center for Kreativitet og Teater.
Leiksýningin verður sýnd þriðjudaginn 11. október, fimmtudaginn 13. október og laugardaginn 15. október kl. 20:00 í Norræna húsinu, Sturlugötu 5, Reykjavík. Sýningin er fyrir alla 14 ára og eldri. Verð: 500 kr.
Miðapantanir og nánari upplýsingar: scene1dk@hotmail.com.
Ferð Töframannsins
Grímunámskeiðið „Ferð töframannsins“ verður haldið af leikendum sýningarinnar „Konan frá hafinu“, sem ennfremur hafa búið til grímurnar. Skemmtilegar, hugmyndaríkar, geggjaðar eða sorgmæddar – hver gríma hefur sinn eigin persónuleika. Á námskeiðinu verður notaður spuni, leikur og dans til að kanna tvær gerðir af grímum: hlutlausu grímuna og erkitýpísku grímuna. Unnið verður með líkama og tilfinningu fyrir rými og spunnir stuttir leikþættir.
Grímunámskeiðið „Ferð töframannsins“ verður haldið föstudaginn 14. október kl. 19:00 – 21:30 og laugardaginn 15. október kl. 9:00 – 16:00 í Norræna húsinu, Sturlugötu 5, Reykjavík. Námskeiðið er fyrir alla 15 ára og eldri. Verð: 5700 kr. Skráning og nánari upplýsingar: scene1dk@hotmail.com.