Leikfélag Selfoss hefur hafið æfingar á farsanum Bót og Betrun eftir enska leikskáldið Michael Cooney í þýðingu Harðar Sigurðarsonar. Verkið segir frá Eric Swan sem grípur til bótasvika þegar hann missir vinnuna. Hins vegar fer svindlið úr böndunum og kemst Eric að því að stundum er auðveldara að komast á bætur en af þeim þegar boltinn er einu sinni farinn að rúlla.

Bót og betrun er gamanleikur eins og þeir gerast bestir, hefðbundinn farsi með misskilningi, flækjum og pínlegum aðstæðum af öllu tagi eins og efnið ber með sér. Verkið á erindi við alla sem vilja upplifa gleði og glaum og gera vel við hláturtaugarnar.

Alls taka 10 leikarar þátt í sýningunni en með aðalhlutverk fara þeir Stefán Ólafsson og Guðmundur Karl Sigurdórsson, báðir þrautreyndir á leiksviðinu. Leikstjóri er Jón St. Kristjánsson en þetta er í fimmta sinn sem hann leikstýrir hjá Leikfélagi Selfoss. Stefnt er að frumsýningu í lok febrúar.