Borgarleikhúsið hefur hleypt af stokkunum fræðsludeild sem starfar við leikhúsið. Markmið deildarinnar er að opna Borgarleikhúsið enn frekar fyrir ungum leikhúsgestum og að glæða, með auknu framboði á fræðslu, áhuga almennings á leikhúsi og því starfi sem þar fer fram, með sérstakri áherslu á unga áhorfendur. Ástrós Elísdóttir hefur verið ráðin fræðslufulltrúi Borgarleikhússins.

Metnaðarfullar leikhúsheimsóknir fyrir 10 ára börn
Ár hvert verður öllum börnum í 5. bekkjum grunnskóla Reykjavíkur boðið í heimsókn í Borgarleikhúsið heilan morgun þar sem tækifæri gefst til að skoða leikhúsið, sjá leiksýningu og taka þátt í leiksmiðju. Leiksýningin sem boðið verður upp á næsta vetur er Hamlet litli sem er fjörleg sýning sem byggir á sjálfum Hamlet eftir Shakespeare. Bergur Þór Ingólfsson mun leikstýra verkinu en hans síðasta uppfærsla er Mary Poppins sem er vinsælasta sýning ársins. Eins og fram hefur komið mun leikhúsið setja upp Hamlet um jólin þar sem Ólafur Darri fer með titilhlutverkið. Unnið verður að undirbúningi heimsóknanna og úrvinnslu í samstarfi við kennara barnanna.

Töfrar leikhússins fyrir leikskóla borgarinnar
Leikskólabörnum í borginni verður boðið í leikhúsið þar sem kappkostað verður að opna töfraheim leikhússins fyrir yngstu áhorfendunum. Auk þess sem börnunum verða sýndar ýmsar leikhúsbrellur munu ýmsar kynjaverur skjóta upp kollinum.

Fyrirlestraröð í framhaldsskólum
Borgarleikhúsið mun bjóða upp á fyrirlestra í framhaldsskólum um starf leikarans og ferli leiksýningar frá fyrstu æfingu fram að frumsýningu.

Fjölbreytt námskeið fyrir almenning og útgáfa fræðsluefnis
Eins og undanfarin ár mun Borgarleikhúsið bjóða upp á fjölda námskeiða fyrir almenning, m.a. í samstarfi við Endurmenntun HÍ. Námskeiðin kallast á við verkefni leikársins þar sem fræðimenn fara dýpra í viðfangsefni uppsetninganna og veita þannig dýpri skilning á verkunum sem boðið er upp á á fjölum leikhússins. Borgarleikhúsið hyggst gefa út fræðsluefni um nokkrar sýningar vetrarins sem skólum og einstaklingum er velkomið að nýta við kennslu og fræðslu. Til stendur að framleiða myndbönd um starfið í leikhúsinu, vinnu ólíkra listamanna og lífið að tjaldabaki.

Skoðunarferðir og Opið hús
Sem fyrr verður tekið á móti hópum í heimsóknir baksviðs í Borgarleikhúsinu og næsta vetur verður tekin upp sú nýbreytni að bjóða upp á opnar skoðunarferðir fyrir almenning – Að tjaldabaki – á auglýstum dagsetningum. Þá er ástæða til að minna á Opið hús í Borgarleikhúsinu þann 31. ágúst, en sá viðburður hefur fest sig rækilega í sessi undanfarin ár. Þar er töfraheimur leikhússins opnaður öllum og gestum býðst að sjá brot úr fjölmörgum verkum vetrarins, fara í leiðsöguferðir og kynnast starfseminni náið. Opna húsið í Borgarleikhúsinu hefur slegið rækilega í gegn og hefur verið stútfullt hús undanfarin ár en árlegur gestafjöldi hefur verið á bilinu 10-13.000 gestir.

Fjölbreytt dagskrá fyrir fjölskyldur og ungt fólk
Auk hefðbundinna barnasýninga hefur Borgarleikhúsið lagt áherslu á að bjóða upp á leiksýningar sem eru kjörnar fyrir fjölskyldur til að njóta saman. Á næsta leikári verða nokkrar sýningar á fjölum Borgarleikhússins sem höfða sterkt til ungs fólks og barna. Hefðbundnar barnasýningar á næsta ári eru Hamlet litli sem Bergur Þór Ingólfsson leikstýrir og Jólahátíð með Skoppu og Skrítlu. Þá höldum við áfram að sýna vinsælustu leiksýningu ársins, Mary Poppins en hún höfðar til fjölskyldunnar allrar. Meðal annarra sýninga leikársins sem eru tilvaldar fyrir fólk á öllum aldri eru Furðulegt háttalag hunds um nótt og Mýs og menn. Á síðustu árum hefur færst í vöxt að skólar hafi fjölmennt á ýmsar sýningar Borgarleikhússins og oft hefur verið boðið upp á umræður á eftir, þessar heimsóknir hafa verið afar ánægjulegar á báða bóga og bera vitni um aukinn áhuga á leikhúsi og leikhússtarfseminni. Borgarleikhúsið er staðráðið í að bregðast við þessum áhuga og er stofnun fræðsludeildar mikilvægasta skrefið í þá átt.Þá mun fræðsludeild kappkosta að fagna hvers kyns umleitunum ungs fólks í átt að leikhúsi og styðja við þær. Ástrós Elísdóttir hefur verið ráðin í starf fræðslufulltrúa, en hún er leikhúsfræðingur að mennt.

„Ég er full tilhlökkunar að takast á við þetta skemmtilega verkefni. Leikhúsmenntun ungs fólks er mér hugleikin og auðvitað grundvallaratriði fyrir framþróun leiklistar. Þá finnst mér frábært að ganga til liðs við þann góða hóp sem í Borgarleikhúsinu starfar. Þetta verður gaman,“ segir Ástrós Elísdóttir.

„Við erum afskaplega glöð að geta nú hleypt fræðsludeild af stokkunum. Það hefur verið draumur okkar um nokkurra ára skeið að auka fræðslustarf leikhússins og setja það í fastari skorður. Á undanförnum árum höfum við átt í afar góðu samstarfi við skóla og tekið á móti gríðarlegum fjölda fólks í leikhúsinu en nú með stofnun formlegrar fræðsludeildar getum við sótt fram og styrkt þennan þátt í starfseminni svo um munar,“ segir Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri Borgarleikhússins.