Fyrir helgi undirrituðu Ólafur Haraldsson framkvæmdastjóri SPRON og Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri Borgarleikhússins samstarfssamning.  Samningur þessi er afar rausnalegur af hálfu SPRON sjóðsins. Með samningnum er námsmönnum og fólki yngra en 25 ára, gert kleift að verða fastagestir í Borgarleikhúsinu á mun lægra verði en áður hefur þekkst, en SPRON niðurgreiðir áskriftarkort fyrir ungt fólk í Borgarleikhúsið um 50%  Námsmenn greiða því aðeins 4.450 fyrir kortið í stað kr. 8.900. Áskriftarkortið er að öllu leyti eins og almennt áskriftarkort og gildir á fjórar leiksýningar að eigin vali á leikárinu.  Gríðarleg eftirvænting er eftir nýju leikári í Borgarleikhúsinu.

SPRON verður auk þess máttarstólpi glænýs söngleiks Ólafs Hauks Símonarsonar, Fólkið í blokkinni, sem er  fyrsta stóra frumsýning vetrarins í Borgarleikhúsinu, en verkið verður á fjölunum frá 10. október. Þar er á ferðinni sprenghlægilegur söngleikur sem mun höfða til allrar fjölskyldunnar. Unnur Ösp Stefánsdóttir er leikstjóri og Jón Ólafsson fer með tónlistarstjórn. Í helstu hlutverkum er glæsilegur hópur ungs fólks í bland við eldri og reyndari leikara .Sýningin verður á Stóra sviðinu og áhorfendur verða á sérbyggðum pöllum á sviðinu sjálfu.

SPRON verður einnig máttarstólpi nýs sakamálaleikrits, Fýsn, en verkið vann fyrstu verðlaun í leikritasamkeppninni Sakamál á svið sem Borgarleikhúsið stóð fyrir árið 2006. Þess má geta að SPRON studdi samkeppnina á sínum tíma. Höfundur verksins er ungt og efnilegt leikskáld, Þórdís Elva Þorvaldsdóttir Bachmann, og leikstjóri er Marta Nordal. Fýsn verður frumsýnt á Nýja sviði 12. september næstkomandi.

Leiðir SPRON og Leikfélags Reykjavíkur hafa legið saman um áratuga skeið fyrst í Iðnó og nú í Borgarleikhúsinu.  Að sækja leikhús er þroskandi og ber menningarlegum lífsstíl vitni.  Með samningi þessum vill SPRON stuðla að því að sem flest ungt fólk fái notið leiklistarinnar.

{mos_fb_discuss:3}