BLAM!, nýjasta verk Krisjáns Ingimarssonar, verður frumsýnt á Stóra sviðinu strax eftir páska, miðvikudaginn 3. apríl kl 20. BLAM! er óður til leikgleði og hugrekkis, bræðingur af „Die hard“ og „The Office“, verk án orða þar sem frábærir listamenn (og eldhugar) endasendast um sviðið í stórhættulega fyndnum slagsmálaleik. Sýningin hefur slegið rækilega í gegn í Danmörku og víðar um heim og í lok síðasta leikárs hlaut hún Reumert verðlaun dómnefndar sem sýning ársins. Aðeins fimm sýningar verða á verkinu í Borgarleikhúsinu, sýnt þétt dagana 3 – 7 apríl.

Þrír kúgaðir skrifstofumenn sólunda lífi sínu á sorglegustu skrifstofu veraldar undir vökulu auga siðblinds yfirmanns. Í hvert sinn sem hann lítur undan, nýta þeir tækifærið til að „blamma“: Að endurgera uppáhalds senurnar sínar úr hasarmyndum. Þegar yfirmaðurinn fer að „blamma“ með þeim færist fjör í leikinn og við tekur stórhættuleg saga sem leikin er á ógnarhraða og krefst ofurmannlegra átaka.

Kristján Ingimarsson er listrænn stjórnandi Neander leikhópsins sem hefur þróað hefur sitt eigið líkamstungumál sem samanstendur af látbragðsleik, gamanleik, fimleikum, trúðleik, dansi og leiklist – og því þvælist ekkert hefðbundið tungumál fyrir áhorfendum á sýningum þeirra. Tónlistin er áberandi og húmorinn er aldrei langt undan. Þessi nýjasta sýning Kristjáns hefur slegið rækilega í gegn í Danmörku og vakið athygli víða um heim. Sýningin hefur hlotið mikið lof og valdi dómnefnd hinna virtu Reumert verðlana hana sýningu ársins í Danmörku.

Höfundar: Kristján Ingimarsson og Jesper Pedersen
Leikstjórn: Kristján Ingimarsson, Simon Boberg
Leikmynd: Kristian Knudsen
Lýsing: Edward Lloyd Pierce
Hljóðmynd: Svend E. Kristensen og Peter Kyed
Leikarar: Kristján Ingimarsson, Lars Gregersen, Didier Oberlé og Joen Højerslev