Sunnudaginn 11. október verður Bláa gullið, nýr og spennandi trúðleikur, frumsýndur á Litla sviði Borgarleikhússins. Verkið er spunaverk leikhópsins Opið út sem í samstarfi við Borgarleikhúsið setur upp sýninguna. Leikstjóri er Charlotte Böving en hún er jafnframt höfundur verksins ásamt leikurum verksins, Maríu Pálsdóttur, Sólveigu Guðmundsdóttur og Víkingi Kristjánssyni.

Út frá sjónarhorni trúðsins er vatn skoðað á einlægan en trúðslegan hátt. Hvert ætli sé eðli vatns? Hvað er svona merkilegt við það? Hvað er úthaf og hvað er tár, hvað er foss og regn? Hvaðan kemur vatn og hvert fer það? Trúðnum er ekkert óviðkomandi og hann hikar ekki að leggja fram spurningar og vangaveltur um allt milli himins og jarðar.

Trúðarnir halda í rannsóknarleiðangur um undraheima vatnsins sem endalaust er hægt að skoða, undrast og skemmta sér yfir. Ragnhildur Gísladóttir tónlistarmaður og Gjörningaklúbburinn skapa sýningunni töfrandi umgjörð með nýstárlegri hjóð- og sviðsmynd. Sýningin er fræðandi og forvitnileg fyrir pælandi skólakrakka, en fyrst og fremst bráðskemmtileg trúðasýning fyrir alla fjölskylduna.

{mos_fb_discuss:2}