Þann 2. ágúst sl. sté fríður hópur áhugaleikara úr Leikfélagi Kópavogs og Hugleik uppí flugvél og hélt á vit ævintýranna í Riga, höfuðborg Lettlands. Ætlunin var að sýna leikritið Bingó, sem félögin settu upp saman fyrir tveimur leikárum, á Norður-evópsku leiklistarhátíðinni sem haldin var þar í borg. Ásta Gísladóttir var með í hópnum og ritaði ferðasöguna.

Fyrir rúmu ári síðan setti Leikfélagið Hugleikur og Leikfélag Kópavogs í sameiningu upp sýninguna Bingó eftir Hrefnu Friðriksdóttur í leikstjórn Ágústu Skúladóttur. Til stóð að vera með þessar klassísku 10-12 sýningar en yfirvöld í Kópavogi voru með aðrar hugmyndir og byrjuðu að rífa niður leikhúsið rétt eftir að sýningar hófust. Það var því með herkjum að það tókst að troða inn 9 sýningum á alltof stuttu tímabili um leið og aðstandendur jafnt sem áhorfendur forðuðu sér undan þrálátu niðurrifi verkmannanna. Sýningum á Bingói lauk vorið 2007 frekar stuttu eftir að þær hófust og eftir öll skakkaföll sem hún hefði gengið í gegnum gátu aðstandendur aðeins látið sig dreyma um þá sýningu sem hefði orðið.

bingoriga1.jpgÞað var því ómælt gleðiefni og heiður fyrir hópinn að Bingó skyldi valið sem fulltrúi Íslands á Neata hátíðinni 2008 og langþráð annað tækifæri sem fáum sýningum hlotnast. Hátíð þessi er haldin annað hvert ár í einhverju af hinum níu aðildarlöndumlöndum Norður-Evrópska leiklistarsambandsins (Neata) og þetta árið skyldi haldið til Riga í Lettlandi.

Ferðin út gekk björtustu vonum framar. Hópurinn hafði áður skrúfað sundur og pakkað saman leikmyndinni svo hún kæmist fyrir í venjulegum farangri og tókst með undraverðum hætti að halda þyngd undir hámörkum og koma öllu á sinn stað í tæka tíð frá Keflavík til Kastrup og þaðan til Riga. Það var því bjartsýnn og glaðlegur, ef nokkuð svefnvana, hópur sem festi fæti í Lettlandi um hádegisbil þriðjudaginn 2. ágúst.

Þar tók hún Inguna, framkvæmdastjóri hátíðarinnar, á móti okkur og sá til þess að við kæmum leikmyndinni í örugga höfn inn í leikhúsið og vorum við síðan keyrð lengst út í sveit þar sem gistiaðstaðan var. Þar tók við fyrsta menningarsjokk af ófáum í þessari ferð. Aðbúnaðurinn var vægast sagt hrár. Risastór skólabygging sem síðast sá viðhald einhvern tímann snemma á Sovéttímanum. Herbergin voru illa tilhöfð og húsgögn öll úrsérgengin. Rúmið mitt var t.d. með of lítilli plötu undir dýnunni þannig að ég svaf í halla allan tímann. Sturtan kom klippt beint út úr hryllingsmynd og reyndist heit einungis eftir geðþótta. Ekki var þó mikill tími til að velta slíku fyrir sér þvi hópurinn var orðinn frávita af þreytu og tók tveggja tíma síðdegisblundi fegins hendi. Síðan var öllum smalað í rútu og haldið aftur til Riga fyrir setningarhátíðina og fyrstu leiksýninguna.

bingoriga4.jpg Eftir afskaplega sætt og skemmtilegt opnunaratriði Lettanna var komið að fyrstu sýningunni; „Who pulled the leg of Teddy bear off?“ eftir Hermanis Paukšs í uppfærslu Jurmala leikhússins frá Lettlandi. Hin fínasta sýning sem fylgdi þremur konum frá vöggu til grafar. Margt gott – og margt ekki alveg nógu gott. Ófáir dottuðu yfir henni – sem átti eftir að verða gegnumgangandi þema á full mörgum sýningum hátíðarinnar. Eftir sýninguna var hópurinn orðinn ansi hungraður og ekki ennþá fengið tækfæri til að kynnast lettneski matagerð (það átti heldur betur eftir að breytast). Við hópuðumst því inn á lítinn veitingastað handan við hornið sem seldi hina ýmsu tilbúna kjötrétt með torkennilegum nöfnum og var allur hin Múlakaffilegasti. Flestir gátu þó borið kennsl á kjúklingalæri og var farið með birgðir af slíku ásamt kartöflum aftur á heimavistina og skóflað í sig fyrir svefninn.

Miðvikudagurinn hófst með námskeiðshaldi. Þó nokkrir af Íslendingunum kíktu á námskeið sem gaf sig út fyrir að vera dans en reyndist ganga út á hreyfingu á svið. Nánar til tekið hreyfingu í mótleik. Enn aðrir skelltu sér á spunanámskeið. Enginn komst á námskeið í látbragðsleik sem var einnig haldið á sama tíma. Eftir næringarríkan hádegisverð sem innihélt sem oftast ríkulegt magn af dilli var haldið í bæinn og kíkt á næstu sýningar. Fyrst hlupu þó undirrituð og Júlía Hannam niður í bæ og fjárfestu í nýjum barnavagni fyrir sýninguna en sá gamli hafði verið úrskurðaður of viðkvæmur fyrir ferðalög. Nú var komið að Eistum sem buðu upp á hina sjarmerandi og þjóðlegu ferðasögu „Beyond the sea“ eftir Juri Tuulik í flutningi Randlane leikhússins í Haapsalu. Tvær eldri konur fór á kostum en eitthvað vantaði upp á að restin af leikhópnum hrifi mann með. Það var mál mann að þau hefðu verið á tánum en ekki hælunum og afleiðingin var sú að aftur gafst tækifæri fyrir smá lúr.

bingoriga3.jpg Ekki var það hins vegar raunin með sýningu Litháanna sem var bráðskemmtileg og vel út færð leikgerð á sögunni „The cobbler and the devil“ eftir Anton Chekhov í flutningi Birstonas Culture Center leikhússins. Þar fór fremstur í flokki Rimantas Jacunskas sem bæði leikstýrði og lék aðalhlutverk í fástískri frásögn um mann sem selur sál sína djöflinum. Gífuleg orka og leikgleði, athyglin fönguð frá fyrstu mínútu og Íslendingarnir höfðu eignast nýtt átrúnaðargoð.
Þegar við komum aftur í Sovét – eins og heimavistin var kölluð í hópnum – seint um kvöldið var slegið til kvöldvöku og héldu Eistar og Litháar uppi fjörinu með þjóðlegasta hætti. Íslendingarnir fóru snemma í bólið því þeir áttu annasaman dag framundan.

Fimmtudagurinn fór nær allur í undirbúning fyrir sýningu á Bingói daginn eftir. Hópurinn kom sér snemma í Daile leikhúsið þar sem leikmyndin var geymd og hófst handa við að skrúfa hana saman. Sigga Lára varð eftir og ætlaði að kíkja á námskeiðið í látbragðsleik sem enginn hafði komist á daginn áður. Það reyndist hið mesta happ því auðvitað urðu ófáir bráðnauðsynlegir hlutir eftir á heimavistinni og þá brýnt að hafa innanbúðarmanneskju sem gat hlaupið til og gramsað í dótinu. Á meðan við pukruðumst í portinu og reyndum að vera ekki fyrir Finnunum sem voru að undirbúa sína sýningu hófust þeir síðar nefndu á að útdeila nákvæmri senulýsingu á leikritinu ásamt ítarlegum þýðingum á hinum ýmsu finnsku frösum sem finna mátti í sýningu þeirra. Ekki veit ég hvort margir náðu að tileinka sér finnskuna en lýsingin kom að góðum notum þegar leikritið „Some explicit polaroids“ eftir Mark Ravenhill í flutningi Jyväskylän Huonerteatteri var sýnt. Fagmannlega gerð sýning en kannski helst til óspennandi. Gaf sig út fyrir að vera ögrandi með því að setja inn eitt stuðandi atriði en var svo feimin í öðrum. Leikhópurinn stóð sig þó prýðilega og sagan komst vel til skila.

Gestasýning Þjóðverjanna kom svo strax í kjölfarið og hét „Peer Gynd fast forward“ eftir Thomas Birkmeir, STIC-er theater, Stralsund. Skemmtileg unglingaútgáfa af Pétri Gaut þar sem var reyndar rétt aðeins hægt að grilla upprunalega verkið í ef maður pírði augun og hallaði undir flatt. Engu að síður hæfileikaríkir krakkar og sniðugar lausnir á atriðum.
Þegar hér var komið við sögu voru Íslendingarnir farnir að finna fyrir stressinu þvi Bingó var næst á dagskrá daginn eftir. Við höfðum fengið loforð um að fá að vera áfram í leikhúsinu um kvöldið og setja upp ljós. Ekki var mikið um efndir og tókst okkur með herkjum að fá að vera í húsinu í ca. tvo tíma að setja upp tjöld, markera sviðið og renna einu sinni. Brynja hans Skúla var send út í Múlakaffi að kaupa kjúkling og kartöflur því allir voru sársoltnir eftir daginn og skröltum við aftur út í Sovét upp úr eitt, hálf tvö með matinn okkar. Gengum beint í flasið á rokna rokktónleikum hjá Færeyingum sem höfðu verið með festival partý um kvöldið og þótti okkur virkilega miður að missa af því. En eftir afskaplega síðbúin kvöldverð þurfti dauðuppgefinn hópurin á allri afgangsorku að halda fyrir næsta dag og var skipað í rúmið.

bingoriga5.jpg Þrátt fyrir loforð um rútu kl. átta komust við ekki niður í leikhús fyrr en um tíuleytið og þá hófst brjáluð ljósavinna. Það þurfti að stilla kastara og setja á filtera og átta sig á græjunum, hanna alla lýsinguna frá grunni og snúast í þó nokkra hringi í stresskasti. Skúli ljósamaður var þó eins og klettur í öllu þessu hafaríi, tókst að sefa trylltar taugar starfsmanna hússins og koma öllu á sinn stað. Við Hrefna og Brynja dunduðum okkur við að koma Bingóskiltinu saman á meðan leikhópurinn hitaði upp, renndi í senur og kom sér í gervin.

Það eru engar ýkjur að segja að sýningin tókst með eindæmum vel. Leikhópurinn var í banastuði og krafturinn í sýningunni eftir því. Áhorfendaskarinn átti í erfiðleikum með að hemja sig og var í sífellu að slá leikhópinn út af lagi með því að fagna, klappa og blístra af miklum ákafa á undarlegustu stöðum. Og gríðarleg fagnaðarlæti að lokum þar sem allir í salnum risu á fætur sem einn – í fyrsta skipti á hátíðinni. Það eina – allra eina – sem klikkaði var myndbandsupptakan sem undirrituð bar ábyrgð á. Gleymst hafði að huga nógu vel að batteríum og fyrir vikið vantar ca. hálftíma í upptökuna. En það var erfitt að tapa sér í svekkelsi á meðan svona gríðarleg ánægja svífur yfir vötnum og var íslenski hópurinn skiljanlega í skýjunum a.m.k. það sem eftir var dags – ef ekki ennþá.

Svíþjóð og Noregi var því lítill greiði gerður að koma í kjölfari. Svíar sýndu „Fröken Júlíu“ eftir August Strindberg í flutningi Teater_apa frá Lund. Allt annar bragur tók nú við þar sem Svíarnir buðu upp á heldur þunglamalega sýningu. Leikararnir stóðu sig vel en eitthvað hefur farið úrskeiðis í leikstjórninn sem ekki tókst að miðla nóg sannfærandi sögu til áhorfenda. Enn og aftur var dottað enda kannski ekki skrítið eftir fjöldaspennufallið í kjölfar vel heppnaðar Bingósýningar.

Norski hópurinn Black out sýndi sína sýningu „Mmmmm“ tvisvar á hátíðinni, enda aðeins tuttug mínútur að lengd. Þótt margir hafi fundið fyrir vonbrigðum með sænsku sýninguna hvarf sú tilfinning eins og dögg fyrir sólu eftir að hafa setið undir þessari. Vonbrigði fundu sér nýjar heimslóðir. Þessari sýningu tókst á ekki lengri tíma að öðlast sess sem sú allra versta sýning sem slysast hefur á Neata hátíð og fann ég engann sem gat andmælt þeirri staðhæfingu. Nema hugsanlega norska leikstjórann. Fimm léttklæddar stúlkur stóðu fyrir framan míkrafóna og sungu dægurlög og fluttu pistla um vonleysi karlkynsins eins og „við allar“ þekktum það. Flestir kusu að vera ósammála og ófáir voru hreinlega móðgaðir.

bingoriga6.jpg Hátíðargestir voru þó í góðu skapi þegar komið var aftur á heimavist og brett upp ermar fyrir hátíðarklúbbana. Þýsku krakkarnir riðu á vaðið með fjörugum söng og síðan tóku norsku stelpurnar við . Undirrituð missti að vísu af þeim þar sem hún ráfaði um endlausa hala skólans í leit að dularfullum bar sem allir sögðu að væri þar til staðar en hafði ekki erindi sem erfiði. Finnarnir voru með metnaðarfulla söngdagskrá sem var kannski fulllöng og svo ráku Íslendingarnir lestina. Þetta var stutt og laggott hjá okkur; Krummi svaf í klettagjá og Á Sprengisandi kyrjað með tilþrifum og búkspili og svo öllum boðið í brennivín, harðfisk og Djúpur á meðan Bandalagið var kyrjað við gítarspil Togga. Einnig kom ástleitin fjallageit í heimsókn. Partýið hélt áfram í einhverja stund en flestir drösluðu sér í rúmið á skikkanlegum tíma – enda vantaði Færeyingana sem voru að undirbúa sýningu sína næsta dag.

Laugardagurinn hófst á gagnrýnisumræðum í leikhússsal skólans og eins og við var að búast komst Bingó ansi vel frá þeim dómum. Danski gagnrýnandinn vildi nú ekki segja neitt slæmt um sænsku og norsku vini sína og kom það því í hlut Íslendinga að benda á nakta keisarann. Að því loknu – og hádegisverði með dillívafi – var haldið inn í bæ og hátíðin kláruð. Fyrst steig á stokk færeyski leikhópurinn Huðrar með „Óþelló“ eftir William Shakespeare. Eftir ósköpin frá Noregi – og almennt séð brokkótt framlög – kom sýningin eins og ferskur andblær inn í leikhúsflóru þessarar hátíðar. Samstilltur og öflugur ungur leikhópur flutti verkið af ótrúlegu öryggi og fagmennsku. Þar hjálpaðist allt að: einföld og flott leikmynd, skemmtileg nýting á annars takmarkandi rými, stílhreinir búningar og fallegur leikur samantvinnaður dansleikhúsi. Það gat enginn setið kjurr í sætunum þegar sýningu lauk.

„Everybody dies for a reason“ eftir Monsuna hópinn kom næst. Danirnir buðu upp á eitthvað allt öðruvísi þar sem þeir stilltu sér upp í andyri leikhússins og skemmtu áhorfendum með grímuleik og fjörugum tónlistarflutningi. Það var ekki annað hægt en að smitast af gleðinni og orkunni og látlaus umgjörðin jók aðeins á sjarmann. Þetta var n.k. farandsýning sem hópurinn var nýfarinn af stað með og hefði verið gaman að sjá hvernig hún slípaðist í gegnum ferðalagið.

Þá var bara ein sýning eftir, hin lettneska „Don‘t believe the nonsense!“ í flutningi Rezekne áhugaleikhússins. Spunahópur með skemmtileg gervi sagði hinar ýmsu þjóðsögur. Mikið fyrir augað en sögurnar sjálfar voru ekki að rata til áhorfenda. Dottviðbrögð áhorfenda náðu nýjum hæðum á þessari enda hátíðargestir orðnir örþreyttir eftir vikuna og leikhúsmettun sennilega farin að láta kræla á sér.

bingoriga7.jpg Að lokinni gagnrýni, leikmyndarróti og rútuflakki var haldið vestur fyrir Riga í lokahófið. Það var haldið í fallegu sveitasetri þar sem hægt var að sitja úti, borða gómsætan grillmat, drekka, dansa og spjalla frameftir kvöldi. Allir skemmtu sér konunglega og var haft eftir reyndu leiklistarhátíðarfólki að þetta væri skemmtilegasta lokahóf sem Neataþjóð hefði boðið upp á. Allt svo látlaust og frjálslegt sem skapaði vinalega og fjöruga stemmningu. Reynt var að halda partýinu gangandi þegar upp í rútur var komið en þrátt fyrir skiplagðar tilraunir til að búa til „partýrútu“ og „svefnrútu“ varð þetta soldið beggja blands. Ferðin aftur til skólans tók hátt á þriðja tíma og flestir aðframkomnir af þreytu þegar þangað var komið.

Sunnudagur var heimferðardagur. Íslendingahópurinn var ræstur eftir alltof lítinn svefn, tókst bæði að halda rænu og pakka sér inn í rútu og svo var haldið á flugvöllinn með leikmyndina. Flugið okkar átti ekki að fara fyrr en seinna um daginn og því hugsuðum við okkur gott til glóðarinnar að geta loksins skoðað Riga eins og sannur túristi. Í gegnum þessa hátíð hafði hverju landi verið úthlutaður innfæddur leiðsögumaður en íslenski hópurinn var svo óheppinn að reynslulitli leiðsögumaðurinn okkar hætti að mæta á þriðja degi sökum veikinda og þurftum við að redda okkur sjálf það sem eftir var. Þó hafði kærasta hans, hún Stina, verið okkur óformlega innan handar við og við og þennan síðasta dag hitti hún okkur í gamla bænum og leiddi okkur um strætin. Við gömnuðum okkur þarna í miðbænum í nokkra klukkutíma og hentumst síðan upp á flugvöll þar sem tók við ekki hálft eins ljúf heimferð og utanferðin hafði verið. Skyndilega var ekki nærri því eins einfalt að skrá inn heila leikmynd sem farangur 10 manns og það hafði verið og ekki var hálftíma bið standandi í svælandi hita í lettneskri flugrútu að bæta ástandið. Allir komust þau heilir í höfn fyrir rest – meira að segja taska Siggu Láru og pakkinn með dúkkuvagninum sem kusu að verða eftir í Danmörku yfir nótt.

Það fer ekki á milli mála að þetta reyndist hin mesta frægðarför og heppnaðist í alla staði vel. Þó grunar mig að flestir hafi sofið vel fram í næstu viku þegar heim var komið. Enda ekki seinna að vænna að hefjast handa við safna kröftum fyrir Neata hátíðina 2010 – sem næst verður haldin á Akureyri.

Ásta Gísladóttir

{mos_fb_discuss:3}