Forvinna sýningarinnar var unnin af alþjóðlegum hópi á Íslandi í vor og lauk með tveimur forsýningum á Listahátið og var verkið svo sýnt í Kaupmannahöfn og Malmö og hlaut mikið lof gagnrýnenda ytra. Sýningin í Borgarleikhúsinu hefur verið þróuð enn frekar og er hún skipuð einvala hópi íslenskra leikara, með Jóhann Sigurðarson, Nínu Dögg Filippusdóttur, Stefán Hall Stefánsson, Hilmi Snæ Guðnason og Þórunni Ernu Clausen í burðarhlutverkum.
Innblástur Bastarða er sóttur í Karamazov Bræður Dostojevskis. Bastarðar er saga um brotna fjölskyldu; föður, börn hans og maka þeirra. Eftir margra ára sambandsleysi berst systkinunum boð um að vera viðstödd giftingu föðurins. Þegar þau átta sig á að brúðurin er æskuást elsta bróðurins upphefst miskunnarlaus og ofsafengin barátta. Þetta er mögnuð saga afbrýði, haturs og morða en jafnframt fjallar hún um bróðurþel og ást. Og leitina að uppruna sínum.
Leikstjóri sýningarinnar er Gísli Örn Garðarsson og leikmyndahönnuður er Börkur Jónsson en þeir hlutu ásamt Vesturporti ein virtustu leikhúsverðlaun heims; The European Theatre Prize árið 2011. Sýningin ber sterk einkenni Vesturports og er öllum meðulum leikhússins beitt. Handritið skrifar Gísli með Richard LaGravenese en hann hefur hlotið tilnefningar til Óskarsverðlauna fyrir handrit á borð við The Fisher King, Water for Elephants og The Bridges of Madison County. Tónlistin er samin af hinum þekkta dansk-sænska tónlistardúett Cæcilie Norby og Lars Danielsson.