Nú í haust hefur Leikfélag Sauðárkróks sett upp barnaleikrit í 10 ár í röð. Stjórn LS hefur ákveðið að halda upp á þessi tímamót með því að bjóða áhorfendum sínum miða á Jón Odd og Jón Bjarna á einungis 1000 krónur! Frumsýning á Jóni Oddi og Jóni Bjarna verður í Bifröst sunnudaginn 31. október kl. 19:30

Árið 2000 setti Leikfélag Sauðárkróks upp barnaleikritið Nornin Baba Jaga eftir Jevgení Schwartz og hefur eftir það sett upp barnaleikrit á hverju hausti. Nornin Baba Jaga var þó langt frá því fyrsta barnaleikritið sem LS sýndi. Klassísk verk eins og Dýrin í Hálsaskógi, Kardemommubærinn og Galdrakarlinn í Oz höfðu verið leikin og ný íslensk barnaleikrit eins og Trítill (eftir Hilmi Jóhannesson og Huldu Jónsdóttur) og Áfram Latibær (leikgerð Sigurgeirs Scheving eftir sögu Magnúsar Scheving) höfðu líka ratað á fjalirnar.

Gaman er að segja frá því að helmingurinn af þeim leikritum sem sett hafa verið upp á þessum 10 árum hafa verið íslensk. Þar á meðal er barnaleikritið Alína eftir Stefán Sturlu Sigurjónsson sem frumflutt var í Bifröst árið 2007 á sama tíma og sagan um Alínu kom út í myndskreyttri bók. Ekki er hægt að segja annað en yngstu áhorfendunum hafi verið vel sinnt í Skagafirði undanfarin ár því í viðbót við árlegar sýningar Leikfélags Sauðárkróks hafa grunnskólarnir í firðinum líka iðulega sett upp leiksýningar með barnaleikritum, ýmist í heild sinni eða í styttri útgáfu.

Leikritið Jón Oddur og Jón Bjarni er byggt á samnefndri sögu Guðrúnar Helgadóttur sem notið hefur mikilla vinsælda. Tvo leikstjóra þarf til að koma þessum prakkaradrengjum á svið, en það eru Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir og Stefán Friðrik Friðriksson sem leikstýra verkinu. Miðasala er í Kompunni og í síma 849-9434.

Sjá nánar á heimasíðu Leikfélags Sauðárkróks www.skagafjordur.net/LS

{mos_fb_discuss:2}