Freyvangsleikhúsið
Höfundur og leiksstjóri: Jóhanna Ingólfsdóttir
Höfundur tónlistar: Eirikur Bóasson

Freyvangsleikhúsið sýnir um þessar mundir barnajólaleikritið Bangsimon og Gríslingur í jólasveinaleit. Leikritið er samið af heimakonunni Jóhönnu Ingólfsdóttur en hún tekur hinar þekktu persónur A.A.Milne og blandar þeim saman við íslenskar þjóðsagnaverur. Leikritið fjallar um Bangsimon og Grísling sem komnir eru til Íslands til þess að finna íslensku jólasveinana af því að þeir höfðu heyrt að þeir væru 13 talsins. Á leiðinni upp í fjöll rekast þeir á afturgöngu, álf, jólaköttinn og svo loks Stúf og reyna að fá aðstoð þeirra til að finna alla jólasveinana með frekar misjöfnum árangri.

Ég skellti mér um helgina að sjá þessa sýningu og var ég frekar spenntur þar sem það er orðið mjög langt síðan ég sá barnasýningu. Salurinn var smekkfullur en rúmlega 100 áhorfendur voru mættir til sjá sýninguna og eðlilega mikill meirihluti börn. Jón Friðrik Benónýsson leikur sögumanninn og startaði hann sýningunni með smá kynningu og undir lok kynningarinnar talar hann um að Bangsimon og Gríslingur ætli að finna jólasveinana 14 og þar með var hann búinn að ná salnum því börnin voru ekki lengi að leiðrétta hann og átti hann þeirra óskipta athygli það sem eftir var sýningar.

Sýningin er 2×30 mínútur og leið tíminn mjög hratt. Frumsamin tónlist, samin af Eiríki Bóassyni, söngur, dans og leikur virkaði vel saman á sviðinu. Alls eru 7 leikarar í sýningunni og stóðu þau sig öll mjög vel. Fyrstan skal nefna téðan sögumann Jón Friðrik sem náði börnunum með sér frá fyrstu mínutu til þeirrar síðustu og var yndislega afalegur þannig að ég sjálfur var farinn að finna barnið í sjálfum mér. Bangsimon og Gríslingur eru svo leikin af þeim Sveini Brimari Jónssyni og Alexöndru Guðnýju B. Haraldsdóttur og voru þau bæði sannfærandi sem hinn rólegi og sísvangi bangsi og hinn síhræddi grís. Afturgangan, álfurinn, jólakötturinn og Stúfur leikin af Halli Erni Guðjónssyni, Eyþóri Daða Eyþórssyni, Freysteini Sverrissyni og Kristbirni Steinarssyni komu allir inn með mikla orku þannig að engum áhorfanda datt í hug að taka augun af sviðinu. Ef eitthvað mætti setja út á var það að hinn afar rólegi Bangsimon náði ekki alveg sama orkustigi og hinar persónurnar en það kom alls ekki að sök því allt sem hann gerði og sagði skilaði sér vel til áhorfenda.

Leikmyndin er mjög einföld og inniheldur í raun 3 hluti. Vegg, tré og fjall en það þarf ekki meira. “Less is more” eins og sagt er svo oft virkar mjög vel í þessu tilliti. Leikið er framarlega á sviðinu sem færir okkur áhorfendur nánast inn í sýninguna og gerir þátttöku og upplifun barnana auðveldari.

Leikritið er vel skrifað og inniheldur hnyttnar og skemmtilegar samræður en einnig boðskap um það að maður eigi að hugsa um það jákvæða í sjálfum sér því þá mun eitthvað gott gerast í kringum mann. Tónlistin í verkinu er eins og fyrr segir frumsamin og virkilega falleg og hressandi. Skiluðu leikarar söngnum mjög vel frá sér. Textinn var skemmtilegur og grípandi og allur í takti við sýninguna sjálfa.  Dansinn var afar einfaldur og barnalegur, enda er þetta barnaleikrit, en sýningin og salurinn hefði alveg þolað meiri útfærslu á dönsunum.

Sýningin í heildina er orkumikil og skemmtileg. Hún er passlega löng fyrir yngstu kynslóðina en eins og fyrri segir voru í salnum rúmlega 100 manns og hélst athygli þeirra óskipt allan tímann og tóku börnin á fallegan hátt þátt í sýningunni með leiðsögn sögumannsins. Ég mæli heilshugar með því að foreldrar geri sér jólabíltúr í aðventunni og sjái þessa skemmtilegu sýningu hjá Freyvangsleikhúsinu.

Með kærri þökk,
Þráinn Sigvaldason
leikhúsáhugamaður