Bangsímon eftir Petre Snickars
Leikfélag Selfoss
Leikstjóri: Guðfinna Gunnarsdóttir
Árni Hjartarson rýnir leiksýningu

Þann 31. okt. s.l. frumsýndi Leikfélag Selfoss leikritið Bangsímon eftir finnska leikskáldið og leikarann Petre Snickars sem byggt er á hinum frægu sögum Alans Alexanders Milne um Bangsímon og vini hans frá þriðja áratug 20. aldar. Undirritaður fór á vettvang með konu og barnabarn og sá aðra sýningu verksins, sunnudaginn 1. nóv. kl. 16.00. Þá var ys og þys í litla leikhúsinu við Sigtún á Selfossi. Afar og ömmur, foreldrar og börn og aðrir leikhúsgestir voru að koma sér fyrir. Börnin gátu annað hvort setið á pullum næst sviðinu eða í upphækkuðum sætum í salnum. Það er nefnilega fyrir öllu séð í þessari sýningu. Svo hófst leikurinn, það ríkti þögn og eftirvænting og börnin og sumir þeirra fullorðnu, allavega ég, fóru strax að lifa sig inn í frásögnina enda þekktum við flest aðstæður af eigin raun. Jakob litli er farinn í háttinn með tuskudýrin sín en pabbinn situr í sjónvarpsstólnum límdur við skjáinn og skipar barninu með reglulegu millibili að fara að sofa. En Jakob getur ekki sofnað og loks rífur pabbinn sig frá sjónvarpinu og fer að segja drengnum sínum sögur. Þar með eru Bangsímon og vinir hans, hin snjalla Kaninka, Asninn þunglyndi, hinn ofvirki Tígri og Grislingur litli, sem hræddur er við allt, komnir á kreik. Þá fór að lifna yfir börnunum og mér og salnum öllum.
Bangsimon1

Allt fór þó rólega og tíðindalítið af stað, en áður en varði datt Bangsímon á rassinn. Þá hlógu bæði börn og fullorðnir hjartanlega og atburðarásin var komin á skrið. Það var hlegið og flissað og kallað fram í, en stundum leist okkur samt ekki á blikuna, t.d. þegar Tígri lét sem verst eða þegar talað var um hinn dularfulla Skolladynk sem þó aldrei sést á sviðinu en leynist einhvers staðar í rökkrinu. Við tókum líka andköf þegar Bangsímon og Gríslingur duttu niður í holu og komust ekki upp. Ég ætla ekki að segja ykkur frá hvernig því lauk. Hitt get ég sagt að sýningin sjálf endaði á því að börnunum bauðst að hitta leikpersónurnar og láta taka myndir af sér með sjálfum Bangsímon, frægasta bangsa í heimi, og vinum hans öllum.

Bangsímon

Þetta var skemmtileg sýning og fjörug, sagan er að vísu hvorki flókin né stórbrotin, en það var vel með hana farið. Leikstjórn Guðfinnu Gunnarsdóttur er hnökralaus og fagmannleg. Það er jafnræði í leikhópnum, enginn stelur senunni og engin týnist í skugga hinna. Mér sýndist samt sem Tígri hefði mest áhrif á börnin. Sviðsmyndin var einföld og lítið um sviðsmuni fyrir utan hinar ómissandi hunangskrukkur sem aðalpersónan er svo hrifin af. Meira var lagt í búningana sem voru bæði fallegir og einkennandi fyrir persónurnar. Förðunin var líka smekklega unnin. Tónlistin var góð í grunninn en ég hefði viljað meiri kraft í hana. Lýsingin var lýtalaus.

Það eru til mörg leikrit og leikgerðir sem byggðar eru á sögum um Bangsímon og að minnsta kosti tvær hafa verið þýddar á íslensku. Þetta eru hin fræga þýðing Huldu Valtýsdóttur á leikgerð Erics Olsons sem sýnd var í Þjóðleikhúsinu á sínum tíma og síðan sú sem hér er fjallað um. Það er vel til fundið hjá Leikfélagi Selfoss að setja upp Bangsímon nú þegar 20 ár eru síðan Sigríður Karlsdóttir þýddi leikgerðina sérstaklega fyrir félagið. Einnig er gaman að átta sig á því að það er dóttir hennar sem leikstýrir verkinu fyrir utan það að vera allt í öllu í þessu leikfélagi sem og í Bandalagi íslenskra leikfélaga. Það er drift og samfella í leiklistinni á Selfossi.
Húrra fyrir því.

Árni Hjartarson.