„Verið velkomin í leikhúsið og slökkvið vinsamlegast á farsímanum“. Þessi  hefðbundnu orð, sem hljóma nú í upphafi hverrar leiksýningar, eru lausnarorð. Þau skapa ráðrúm til að aftengja sig frá nútíma nauð. Þau skapa þögn og í þögninni gangast leikendur og áhorfendur undir það samkomulag sem  þeir gerðu sín í millum fyrir öldum og aldrei hefur verið skráð á nokkurt blað: Innilokuð í rými ætlum við að eiga stund saman, taka okkur stöðu andspænis hvert öðru, bregðast hvert við öðru.  Þannig ætlum við saman að skapa nýjan þykjustu heim og gefa honum merkingu.

Það eru hin miklu forréttindi leikhússins sem listforms að vera háð samfélagi. Einn getur maðurinn krotað mynd af dýri á hellisvegg. Einn getur maðurinn krotað ljóð í sand. En einn getur maðurinn ekki skapað leikhús. Hann þarf að gera það í samvinnu við aðra, fyrir framan aðra og fyrir tilstuðlan samfélags.

En samfélag okkar er í miklum kröggum. Það þarf að leita lausna á stórum vandamálum, lausna sem duga til framtíðar. Það þarf einnig að búa til drauma um framtíð því að án drauma förumst við. Margir eru óöruggir og hræddir gagnvart þessu viðfangsefni enda ýmislegt sem byrgir sýn. Hávaðinn er einnig mikill í örlitlum voldugum minnihlutahóp sem ver sérhagsmuni sína með kjafti og klóm. Menn eiga því líka erfitt með að heyra hver til annars. Og fáir opinberir vettvangar eru til þar sem fjöldi getur mæst og sameinast um hugmyndir nema þá helst verslunarmiðstöðvar og íþróttavellir. Í æ ríkari mæli einangrast menn inn á heimilum og hafa mest samskipti við aðra gegnum tölvuskjái og boðtæki ýmis konar.

En við eigum enn þennan opinbera vettvang, leikhúsið. Þangað koma vikulega þúsundir manna. Þar hafa menn gert samkomulag um að hlusta hver á annan, bregðast hver við öðrum, vera menn með mönnum. Það gæti orðið okkar griðastaður. Þar er hægt að skapa drauma. Þar gæti orðið til það samtal, samspil sem þetta samfélag svo sárlega þarfnast. Enda vitum við að þegar leikhúsinu tekst best til þá förum við þaðan jafnan hæfari til að hugleiða og skilja eigin gjörðir.

Það hefur mátt merkja viðleitni í þessa átt innan leikhússins frá hruni og tilraunir hafa verið gerðar til að nálgast áhorfendur eins og hugsandi tilfinningaverur. En betur má ef duga skal. Ég heiti á  samlanda mína á þessu fimmtíu ára afmæli alþjóðlega leikhússdagsins að streyma í leikhús og gera til þess kröfur. Sköpum okkur griðastað.

María Kristjánsdóttir,
leikhúsfræðingur og leikstjóri

{mos_fb_discuss:3}