Það var rúmenska leikskáldið Eugéne Ionesco sem sagði að leiksviðið væri staður þar sem manneskjan mætti sjálfri sér. Það sem er í húfi við þau kynni, mín orð ekki hans, er reynslan sem má draga af þeirri viðkynningu.

Við hittum okkur sjálf á sviðinu. Stundum í líki fljúgandi barnfóstru eða sjómanns sem syndir í átt að eyju í Norður-Atlantshafinu. Það er frásögnin af manneskjunni sem dregur okkur í leikhúsið. Baráttan sem hún stendur andspænis, afdrif hennar og örlög.

Síðustu vikur hefur heimsbyggðin beðið frétta af örlögum rúmlega 240 sálna sem voru um borð í flugi MH370 sem hvarf þann áttunda mars síðastliðinn. Líklega hefur flugvélin hrapað og allir um borð farist með henni. Ef tekst að finna svarta kassa flugvélarinnar verður hugsanlega hægt að varpa meira ljósi á örlög þeirra sem voru um borð. Svarti kassinn er tæki sem skráir niður upplýsingar um flugið og það sem er sagt um borð í flugstjórnarklefanum. Hann gegnir eingöngu því hlutverki um borð í vélinni. Þetta er ekki tæki sem nýtist að öðru leyti við að fljúga henni. Svarti kassinn skrásetur og flytur frásagnir.

Við verðum ekki í rónni fyrr en við vitum hver örlög þessa fólks um borð í flugi MH 370 urðu því hluttekningin er okkur eðlislæg þrátt fyrir að það kunni að stangast á við sinnuleysi tímanna sem við lifum. Leit að líkum farþega, braki og ekki síst svarta kassa flugs MH 370 stendur nú yfir á Indlandshafi. Líkurnar á því að nokkuð finnist eru litlar. En við leitum samt.

Leikhúsið er líka svartur kassi. Þar sem orð er gert af anda og andi af lífi. Það skrásetur og flytur frásagnir. Það leitar uppi manneskjuna í þeim ásetningi að verða vitni að gleði hennar, sorg og sigrum. Að fundi hennar við sjálfa sig. Það er hlutverk leikhússins. Hvorki meira né minna. Að halda áfram tilrauninni um manneskjuna.

Jón Atli Jónasson

 


Alþjóðlegi leiklistardagurinn 2014
Ávarp Brett Bailey sviðslistamanns í Suðurafríku

 

Hinn óbugandi andi sviðslistanna birtist í öllu mannlegu samfélagi.

Undir trjám í smábæjum, á hátæknilegum leiksviðum stórborganna, í skólum og úti undir berum himni, í musterum og í fátækrahverfum, í verslunar- og félagsmiðstöðvum, í miðbæjarkjöllurum. Fólk safnast saman í hverfulum heimi leiklistarinnar sem við sköpum til að lýsa af holdi og blóði, rödd og anda, sammannlegu og margslungnu eðli okkar, fjölbreytni og varnarleysi.

Við komum saman til að gráta og til að muna, til að hlæja og til að skoða, til að læra, til að staðfesta og til að ímynda okkur hvernig heimurinn  gæti verið; til að dást að færni okkar og sjá hið guðdómlega; til að grípa í sameiningu andann á lofti af hrifningu yfir hæfileikum okkar,  fegurð, samhyggð og skepnuskap. Við komum til að leita styrks og endurnæringar. Til að fagna fjölbreyttri menningu okkar og til að rjúfa landamærin sem aðskilja okkur.

Hinn óbugandi andi sviðslistanna birtist í öllu mannlegu samfélagi. Getinn af samfélagi, ber hann grímur og klæðist búningum margvíslegra siða. Hann notar tungumál okkar, hrynjandi og hreyfingar og skapar rými mitt á meðal vor.

Og við, listamennirnir, sem vinnum með þennan ævaforna anda sannfærumst um að hann heltekur hjörtu okkar, hugmyndir og líkama til að afhjúpa hversdagslegt og leyndardómsfullt umhverfi okkar og líf.

En nú þegar milljónir manna berjast fyrir lífi sínu, þjást af kúgandi stjórnarháttum og hrægammakapítalisma, eru á flótta undan átökum og eymd; nú þegar einkalífi okkar er raskað af leyniþjónustum og orð okkar ritskoðuð af uppáþrengjandi ríkisstjórnum. Tegundum er útrýmt í heimkynnum sínum, skógarnir afmáðir og úthöfum spillt: Hvað er það sem við viljum skilyrðislaust afhjúpa?

Í heimi valdaójafnvægis þar sem ýmiss konar drottnunarvald reynir að sannfæra okkur um að ein þjóð, einn kynþáttur, ein kynhneigð, ein trú, ein hugmyndafræði og ein menning séu æðri öllu – er þá raunverulega forsvaranlegt að fyrirskipa hreinleika listarinnar?  Að hún skuli vera laus við pólitísk og samfélagsleg umfjöllunarefni?

Erum við, sviðslistafólk, fullkomlega háð eimuðu valdi markaðarins eða tökum við völdin sem við höfum: Að opna frjálst rými í hjörtum og huga samfélagsins, safna í kringum okkur fólki og hvetja til hugsunar, til að töfra og upplýsa og skapa heim vonar og hjartahlýrrar samvinnu?

Brett Bailey er leikskáld, leikmyndahöfundur, leikstjóri og gjörningalistamaður í Suðurafríku. Hann er listrænn stjórnandi Third World Bunfight. Hann hefur starfað víða í Suðurafríku, í Zimbabwe, Uganda, Haiti, Kongó, Bretlandi og víða á meginlandi Evrópu.
Meðal merkustu verka hans eru Big dada, Ipi Zombi?, iMumbo Jumbo, medEia og Orfeus. Af gjörningum hans má nefna EXHIBITs A &B.

Leikrit hans hafa verið sviðsett  víða í Evrópu, Ástralíu og í Afríku og hafa unnið til fhjölda verðlauna. Meðal annars hlaut hann gullverðlaun fyrir leikmynd á Quadriennale í Prag árið 2007. Hann var formaður dómnefndar Quadriennale í Prag árið 2011 og í dómnefnd í Music Theater Now- keppninnar sem var á vegum alþjóðlegu leiklistarstofnunarinnar árið 2013.

Árið 2009 leikstýrði hann opnunarhátíð Heimsráðstefnu um listir og menningu í Jóhannesarborg. og árið 2006 – 2009 opnunarsýningu alþjóðlegu listahátíðarinnar í Harare. Frá 2008 til 2011 stjórnaði hann sviðslistum í almenningsrými í Suðurafríku, Infecting the City í Cape Town.

Höfundur ávarps: Brett Bailey
Þýðing: Hafliði Arngrímsson