Ég ætla að byrja þessa umfjöllun á því að gefa Memento Mori Hugleiks og Leikfélags Kópavogs fjórar stjörnur fyrir alveg hreint frábæra sýningu. Og Ágústa Skúladóttir er besti leikstjóri landsins. Enn einu sinni sannar hún það að hún klikkar ekki.
Þrá mannsins eftir ódauðleikanum og samskipti hans við dauðann hefur verið yrkisefni listamanna frá örófi alda og á alltaf jafnmikið erindi við okkur eins og í fyrndinni. Leikhópur, leikstjóri , hugmyndasmiðir og Hrefna Friðriksdóttir höfundur Memento Mori ákveða að skoða hóp fólks á óræðum stað sem á það sameiginlegt að vera ódauðlegt. Og þegar dauðinn raskar ró þeirra vilja þau svör. Þessi aðferð gerir það að verkum að hægt er að velta upp ýmsum heimspeki og trúarlegum spurningum um tilvist mannsins í bland við baksögu persónanna sjálfra. Hægt er að ferðast um allan heiminn á örskoti og það er allt jafn rökrétt og dauðinn sjálfur. Í meðförum Memento Mori hópsins er þetta ferðalag bæði sorglegt og sprenghlægilegt. Maður hlær og á næsta augnabliki blika tár í auga.

Hópur Leikhópurinn sem Hugleikur og Leikfélag Kópavogs hafa sett saman í þessa sýningu er tvímælalaust einn sá besti í íslensku leikhúsi í dag og þarna er stórkostlegt að sjá hvernig leikstjórinn nýtir sér styrkleika hvers einstaks leikara til hagsbóta fyrir sýninguna. Hver einasti leikari skapaði sannferðuga persónu sem maður sér ljóslifandi fyrir sér í kvöl hinnar eilífu tilveru. Það er til lítils að draga einhverja leikarar útúr úr svona jöfnum hóp en get þó ekki sleppt því að nefna Huld Óskarsdóttur sem svo sannarlega snerti móður/föðurtaugina í okkur öllum sem litla saklausa stúlkan.

Leikstjórn Ágústu Skúladóttur og vinna hennar með leikhópnum er framúrskarandi. Sýningin líður áfram áreynslulaust á milli atriða, brotin upp á hárréttum stöðum með tónlist og áhrifshljóðum og tæknivinna hópsins er hnökralaus. En þrátt fyrir hina útspekúleruðu og hárnákvæmu tæknivinnu er sýningin ekki vélræn. Leikhópurinn og leikstjórinn gefa sálina í hana og hún flæddi yfir okkur áhorfendur eins og alda.

Sandurinn Umgjörð sýningarinnar hæfir henni afar vel. Látlaus naumhyggjan í leikmyndinni, hugvitsamlegir og fallegir búningar ásamt vandaðri lýsingunni skapa andrúmsloft dúlúðar og tímaleysis á dvalarstað hinna ódauðlegu. Ægifögur tónlist og hljóðmynd eru síðan óaðskiljanlegur hluti heildarinnar.

Það kæmi mér á óvart ef þessi sýning líkt og sýning LK á Grimms fyrir nokkrum árum slægi ekki í gegn. Og það er náttúrlega synd og skömm að þessi sýning á ekki möguleika að koma til greina sem besta sýningin í Grímunni. Því að þessi sýning sannar enn og aftur að það skiptir ekki máli hvaðan leikhúsið kemur. Það er leiklistin sem gildir. Það er ekki oft sem ég hef komið úr leikhúsi jafn sáttur á sálinni og þegar ég gekk út í raka kvöldgjóluna í Kópavoginum. Og það er bara eitt að segja að lokum. Þetta er sýning sem allir verða að sjá!!!

Lárus Vilhjálmsson