1. Fundarsetning. Kosning tveggja fundarstjóra og fundarritara sem taka þegar til starfa. Lögmæti fundarins kannað.
Fundarstjórar: Þórhallur Pálsson og Regína Sigurðardóttir.
Fundarritarar: Sigríður Lára Sigurjónsdóttir og Ármann Guðmundsson.
Til fundarins var löglega boðað.
2. Kjörnefnd afgreiðir kjörbréf og afhendir atkvæðaspjöld, skýrir stöðu mála varðandi stjórnarkjör og auglýsir eftir tillögum.
Regína Sigurðardóttir, formaður kjörnefndar, kynnti starfandi kjörnefnd. Auk hennar voru í nefndinni Örn Alexandersson. Ingólfur Þórsson starfar sem þriðji maður kjörnefndar á þessum fundi, þar sem hvorki þriðji kjörnefndarmaður né varamaður mætir til fundarins. Guðrún Halla Jónsdóttir, formaður, og Þórvör Embla Guðmundsdóttir, ritari stjórnar, eru í kjöri til stjórnar á þessum fundi. Embla gefur kost á sér áfram, en ekki Guðrún Halla. Úr varastjórn eiga að ganga: Guðfinna Gunnarsdóttir, Hrund Ólafsdóttir og Ólöf Þórðardóttir og gefa þær allar kost á sér áfram. Eitt framboð hefur borist til formanns. Formannsefni óskaði nafnleyndar að sinni.
3. Menningarstefna Bandalagsins lesin og rædd
Þorgeir Tryggvason las. Engar umræður urðu.
4. Inntaka nýrra félaga og félög tekin af félagaskrá
Leikfélagið Peðið í Reykjavík hefur sótt um inngöngu. Samþykkt.
Leikfélagið Búkolla sagði sig út samtökunum. Umf. Gnúpverja og Leikklúbbur Laxdæla tekin út vegna árgjaldaskulda.
5. Fundargerð síðasta aðalfundar afgreidd
Samþykkt samhljóða.
6. Skýrsla stjórnar
Formaður, Guðrún Halla Jónsdóttir, flutti.
stjórnar Bandalags íslenskra leikfélaga
fyrir starfsárið 2006-2007Lögð fram á aðalfundi á Hallormsstað 5. maí 2007.
Stjórn Bandalagsins er þannig skipuð:
Guðrún Halla Jónsdóttir, Akureyri, formaður
Lárus Húnfjörð Vilhjálmsson, Hafnarfirði, varaformaður
Þórvör Embla Guðmundsdóttir, Reykholti, ritari
Ingólfur Þórsson, Akureyri, meðstjórnandi
Þorgeir Tryggvason, Reykjavík, meðstjórnandi
Í varastjórn eru:
Margrét Tryggvadóttir, Hvolsvelli
Ármann Guðmundsson, Reykjavík
Ólöf Þórðardóttir, Mosfellsbæ
Hrund Ólafsdóttir, Kópavogi
Guðfinna Gunnarsdóttir, Selfossi
Framkvæmdastjóri Bandalagsins er Vilborg Árný Valgarðsdóttir og ritari skrifstofu er Sigríður Lára Sigurjónsdóttir.
Stjórnarfundir:
Stjórnin hefur komið saman til 6 reglulegra stjórnarfunda frá síðasta aðalfundi. Þeir hafa verið haldnir á Seltjarnarnesi, Selfossi og í þjónustumiðstöðinni í Reykjavík.
Þar hefur m. a. verið fjallað um úthlutun styrkja, málefni Leiklistarskóla Bandalagsins, fjármál Bandalagsins, rekstur Leiklistarvefjarins, NAR-, NEATA- og IATA-samstarfið og ritun sögu Bandalagsins.
Fundargerðir stjórnarfunda má finna í ársriti Bandalagsin og á leiklist.is undir Bandalagið/Fundir. Fundirnir eru yfirleitt líflegir, enda þar rætt um allt sem viðkemur starfseminni.
Leikfélögin:
Aðildarfélögin voru eftir síðasta aðalfund 64 talsins. Starfandi leikfélög á leikárinu hafa verið 41 eftir okkar bestu vitund og hafa þau sett upp samtals 85 verkefni, þar af eru 23 íslenskt og 15 erlend leikrit í fullri lengd, 8 barnaleikrit auk 39 styttri verka og einþáttunga. Líklega er þessi tala þó ekki endanleg og verður ekki fyrr en unnið hefur verið úr styrkumsóknum leikfélaganna, sem berast eiga þjónustumiðstöðinni fyrir 10. júní n.k. Umsóknareyðublöð eru komin á vefinn og verða send formönnum og gjaldkerum í pósti á mánudaginn. Styrkur fyrir verk í fullri lengd á síðasta leikári var kr. 308.341 og álag frá 20% til 30% af þeirri upphæð. Vegna fækkunar verkefna hækkaði styrkurinn úr kr. 297.402 frá árinu áður, en heildarupphæð til úthlutunar hækkaði ekki milli ára.
Aðalfundur 2006 samþykkti eftirfarandi starfsáætlun fyrir leikárið 2006-2007:
Almenn starfsemi:
1. Rekstur þjónustumiðstöðvar í samræmi við lög BÍL.
Í þjónustumiðstöðinni starfar framkvæmdastjóri í fullu starfi ásamt ritara í hálfu starfi, eins og verið hefur síðustu 14 árin. Verkefnin hafa verið þau sömu og fyrr, þ.e. þjónusta við aðlidarfélögin, félagasamtök, atvinnuleikhúsin og einstaklinga ásamt samskiptum við opinbera aðila á innlendum og erlendum vettvangi.
Sala á leikhúsfarða og tengdum vörum er aðaltekjulindin eins og fram kemur í ársreikningi sem lagður verður fram hér á eftir.
2. Rekstur fasteigna skv. viðhaldsáætlun.
Viðhaldi utanhúss hefur verið frestað í nokkur ár og sömuleiðis endurnýjun þaks á handritasal, en þar höfum við átt í linnulitlum lekavandamálum.
3. Útgáfa Ársrits fyrir leikárið 2005-2006.
Ársrit fyrir leikárið 2005-2006 kom út skv. áætlun í september á liðnu ári. Það var með svipuðu sniði og fyrri ársrit og því var dreift í einu eintaki til hvers aðildarfélags, svo og til þeirra opinberu aðila sem málið varðar. Ársritið er á vef Bandalagsins, leiklist.is, og auðvelt fyrir hvern sem vill að prenta það út þaðan. Ritstjórn var á höndum aðalstjórnar Bandalagsins en efnisöflun og uppsetning var gerð af starfsmönnum. Fengin var utanaðkomandi aðstoð við prófarkalestur og var ritið ljósritað og bundið á ljósritunarstofu úti í bæ.
4. Starfsemi Leiklistarskóla BÍL skv. fyrirliggjandi námskeiðaáætlun.
Skólameistarar munu gera grein fyrir starfsemi skólans hér á eftir undir liðnum skýrslur nefnda.
5. Viðhald vefsíðunnar leiklist.is skv. tillögum vefnefndar.
Lénsherra vefsíðunnar mun gera grein fyrir þessum lið undir skýrslur nefnda.
6. Leitað eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum til starfsemi áhugaleikfélaganna, þjónustumiðstöðvar Bandalagsins og Leiklistarskóla þess.
Formaður, ritari og framkvæmdastjóri fóru á fund fjárlaganefndar og útskýrðu fyrir nefndarmönnum hver staða Bandalagsins og aðildarfélaga þess væri og óskuðu eftir hækkun. Framlögin til félaganna voru hækkuð um 4.6 milljónir en styrkurinn til skrifstofunnar lækkaði um 100.000.-.
7. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.
Það samstarf er í fullum gangi og verður valið á áhugasýningu ársins kynnt á þessu þingi eins og vani er.
8. Halda áfram samstarfi við Borgarleikhúsið með stuttverkahátíðina Margt smátt
Hátíðin var ekki haldin á leikárinu. Nefnd um hátíðina mun skila skýrslu um ástæður þess og störf sín hér á eftir.
Sérverkefni starfsársins:
1. Stefna að útgáfu Sögu Bandalagsins 1950-2000 á leikárinu
Áformað var að bókin kæmi út í vor. Þorgeir Tryggvason ritnefndarmaður flytur skýrslu um gang verksins hér á eftir.
2. Halda haustþing um málefni Leiklistarskólans í tilefni 10 ára afmælis hans
Þingið var haldið á Selfossi 30. september s.l. Þingið gekk mjög vel og var vel tekið á móti okkur af heimamönnum eins og alltaf þegar við fundum.
3. Athuga möguleika Bandalagsins á því að gera leikritasafnið að formlegu safni skv. safnalögum
Stjórnin skipaði nefnd til framgangs þessu máli og mun hún skila skýrslu um störf sín hér á eftir.
4. Að kannaður verði rekstrargrundvöllur búningasafns á grunni hugmynda Þjóðleikhússins
Stjórnin skipaði sömuleiðis nefnd til framgangs þessu máli og mun hún skila skýrslu um störf sín hér á eftir.
5. Að skipuð verði nefnd sem kanni möguleika á að Bandalagið kaupi eða taki að sér rekstur Húsabakka eða sambærilegs staðar
Nefnd var einnig skipuð um þetta mál og mun hún skila skýrslu um störf sín hér á eftir.
Erlent samstarf:
Hugleikur og Leikfélag Kópavogs fóru sem fulltrúar okkar á Norður-evrópsku leiklistar-hátíðina í Færeyjum í ágúst síðastliðnum, með sýninguna Memento mori eftir Hrefnu Friðriksdóttur í leikstjórn Ágústu Skúladóttur. Sýningunni var afar vel tekið og var gaman að vera íslendingur í salnum þegar húrrahrópin gullu við í lokin! Sýningin mun einnig verða fulltrúi Íslands á hinni aðþjóðlegu leiklistarhátíð IATA í Suður-Kóreu í ágúst nk.
Formaður og framkvæmdastjóri Bandalagsins sátu NEATA- og NAR-fundi fyrir okkar hönd í Færeyjum á meðan á hátíðinni stóð.
Sumarskóli NUTU var í Esbo í Finnlandi síðasta sumar. Þangað fóru 7 nemendur auk Árna Grétars, sem er fulltrúi Íslands í stjórn NUTU. Einn íslenskur kennari kenndi við skólann, Sigrún Sól Ólafsdóttir.
Formaður og framkvæmdastjóri þáðu boð Litháíska bandalagsins um að vera gestir leiklistarhátíðar sem haldin var í Shiauliai fyrst í desember 2006.
Formaður BÍL situr í stjórnum NAR, Nordisk Amatörteaterråd og NEATA, North European Amateur Theater Alliance. Helsta verkefni stjórnar NAR er að úthluta styrkjum til áhugaleikhópa sem sækja vilja leiklistarhátíðir eða heimsækja áhugaleikfélög á öðrum Norðurlöndum. Auk þess stendur NAR fyrir og styrkir ýmis verkefni, svo sem leiklistarhátíðir og námskeið. Á starfsárinu sótti formaður fundi í Helsinki og Riga, sá fyrri var NAR-fundur en í Riga voru hvortveggja NAR- og NEATA-fundir auk þess sem skoðaðar voru aðstæður fyrir NEATA-hátíðina sem haldin verður í Riga sumarið 2008.
Lokaorð:
Ef horft er til þess hve margt hefur verið gert á þessu starfsári, má kannski segja að við getum bara verið nokkuð sátt með hvernig starfið gengur en ég er ekki þeirrar skoðunar. Bandalag íslenskra leikfélaga er stofnað fyrir tæpum 60 árum sem málsvari leikfélaganna, vettvangur hagsmunabaráttu en eins og oft er sagt, keðjan er ekki sterkari en veikasti hlekkurinn og okkar akkilesarhæll er áhugaleysi forsvarsmanna leikfélaganna á starfi BÍL og þeirri hagsmunabaráttu sem þar fer fram.
Að tæplega 1/4 leikfélaga skuli senda fulltrúa til aðalfunda ár eftir ár er hneisa og varla við því að búast að þeir sem landinu stjórna finni þrýsting frá okkur, meðan okkur sjálfum virðist standa slétt á sama um hvað hér fer fram.
Það er afar brýnt að félögin sendi fulltrúa sína á aðalfundi, haustfundi og séu í góðu sambandi við stjórn og þjónustumiðstöð, þannig og aðeins þannig sýnum við þann slagkraft sem þarf til að gera leikfélögin sýnileg, sterk og fagleg.
Ég hef starfað innan hreyfingarinnar markvisst í sautján ár, vitað af henni í 22 ár og verið í stjórn síðan 1992. Ég byrjaði í varastjórn og var þar í eitt ár, var kosin í aðalstjórn í Vestmannaeyjum 1993 og hef síðan verið meðstjórnandi, ritari, varaformaður og loks formaður síðustu tvö ár og hef nú ákveðið að gefa ekki kost á mér til áframhaldandi starfa, enda búin að prófa alla stóla í stjórn og held að slík þaulseta sé einsdæmi!
Ég á margar góðar minningar frá þessum tíma, mjög margt hefur áunnist sem ég er afar stolt af að hafa átt þátt í að gera að veruleika. Má þar meðal annars nefna kaupin á húsnæðinu okkar að Laugarvegi 96, skólinn okkar, Leiklistarvefurinn, aukið samstarf við hin Norðurlöndin og stofnun NEATA, athygliverðasta áhugaleiksýning ársins í Þjóðleikhúsinu, en það samstarf komst á með boði fyrrverandi Þjóðleikhússtjóra á þinginu í Eyjum 1993, stuttverkahátíðir í samstarfi við Borgarleikhúsið og dásamleg kynni mín af ótrúlegum fjölda hæfileikabúnta sem fyrirfinnast í miklu magni í okkar röðum. Auðvitað hefur þessi tími ekkert bara verið dans á rósum en allt sem miður hefur farið bliknar í samanburði við góðu stundirnar og sigrana sem unnist hafa.
Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim sem hafa setið með mér í stjórnum síðustu 15 ár kærlega fyrir gifturíkt og oftast ánægjulegt samstarf, riturum Bandalagsins, nefndarmönnum öllum og ykkur sem ég hef kynnst og unnið með á aðalfundum, haustfundum, hátíðum og annars staðar þakka ég líka skemmtilega samveru og samvinnu og mun án vafa flytja þessa þakkargjörð oftar á þessum síðustu metrum. En síðast en ekki síst vil ég þakka Vilborgu vinkonu minni og framkvæmdastjóra Bandalagsins síðustu 14 ár, frábært samstarf sem aldrei hefur borið skugga á.
Akureyri 5. maí 2007,
Guðrún Halla Jónsdóttir,
formaður.
Fyrirspurn um ástæður úrsagnar leikfélaga. Öll hefðu fallið út af félagaskrá vegna árgjaldaskulda nema Búkolla, sem tók ákvörðun um að segja sig úr Bandalaginu þar til starfsemi hæfist að nýju.
Þorgeir Tryggvason bætti því við að Hugleikur fór einnig á tvær leiklistarhátíðir í Rússlandi, eftir síðasta aðalfund. Það var að líkindum síðasta ferð félagsins með sýninguna Undir hamrinum eftir Hildi Þórðardóttur í leikstjórn Ágústu Skúladóttur sem hafði gert það gott á erlendum hátíðum árin á undan. Var þetta mikil ferð og eftirminnileg og líklega í fyrsta sinn sem Íslendingar leika austan Volgu.
Nokkrar umræður spunnust um slaka mætingu fulltrúa frá leikfélögum á aðalfundi. Fram kom að Hulda Hákonardóttir hefði tekið að sér að hringja í formenn allra félaga fyrir þremur árum og spurt um ástæður þess að félög sendi ekki fulltrúa á aðalfund. Út úr þeim samtölum kom engin ein skýring á því að fundarmönnum á aðalfundum hefur farið svo fækkandi.
Þorgeir taldi einu ástæðuna sem hægt væri að gera eitthvað með vera þá að menn væru sáttir við að aðrir stjórnuðu Bandalaginu. Það þyrfti að koma stjórnum félaganna í skilning um að starfsemi Bandalagsins sé á ábyrgð þeirra allra.
Ýmsar tillögur komu til úrbóta. Vísað var á fósturfélagasamband stjórnarmanna við ákveðin félög, stungið upp á að stofnuð yrði nefnd um málið og sýnileiki starfseminnar efldur. Sem og að skemmtilegheitum Bandalagsþinga yrði haldið betur á lofti innan félaganna.
7. Framkvæmdastjóri leggur fram endurskoðaða reikninga síðasta árs og skýrir þá
Nokkuð var rætt um um vaxtagjöld. Fram kom að um þrjár milljónir vantaði í reksturinn til þess að hann væri alltaf í plús og ekki þyrfti að taka nein yfirdráttarlán á árinu. Árgjöld hækkuð í fyrra um 10.000.-. Leikfélögin hafa ekki gert athugasemdir við það.
8. Umræður um skýrslu stjórnar og afgreiðsla reikninga
Umræður um skýrslu formanns höfðu þegar farið fram. Reikningar samþykktir samhljóða.
Regína Sigurðardóttir, formaður kjörnefndar skýrði frá stöðu mála í formanns- og stjórnarkjöri.
Framboð hafði borist til formanns Bandalagsins. Frambjóðandi var Þorgeir Tryggvason.
Þórvör Embla Guðmundsdóttir hafði boðið sig fram til áframhaldandi setu í stjórn.
Guðfinna Gunnarsdóttir, Hrund Ólafsdóttir og Ólöf Þórðardóttir buðu sig allar fram í stjórn, en í varastjórn, næðu þær ekki kjöri.
Hjalti Stefán Kristjánsson hafði boðið sig fram í varastjórn.
Enn var opið fyrir framboð.
9. Skýrslur nefnda og umræður um þær.
Undirbúningsnefnd leiklistarhátíðar NEATA á Íslandi 2010
Nefndin skiptist í suðurdeild og norðurdeild.
Þorgeir Tryggvason sagði frá starfi suðurdeildar.
Í henni eru Þorgeir Tryggvason og Lárus Vilhjálmsson.
Suðurdeild hefur fundað einu sinni og rætt umsóknir um styrki og kynningarmál. Nefndin telur að leita þurfi allra leiða til að fá sem stærstan styrktaraðila að hátíðinni. Eins þótti þeim rétt að athuga hvernig bandalög landanna sem hafa áður hafa haldið slíkar hátíðir hafa snúið sér í fjármögnun. En undirbúningsvinna þarf að hefjast núna.
Guðrún Halla sagði frá starfi norðurdeildar. Í henni sitja Guðrún Halla Jónsdóttir og Ingólfur Þórsson. Halla fór til fundar við bæjarstjóra og menningarfulltrúa á Akureyri og þar tóku menn vel undir að halda hátíðina í bænum. Halla ræddi einnig um að leita ætti eftir styrk til menningarsjóðs Evópusambandsins fyrir hátíðina í Riga 2008. Rætt var í stjórn NAR að reynt yrði að sækja um 5 ára styrk til verkefnisins, sem færi þá líka í kostnað vegna undirbúnings hátíðarinnar 2010. Sá styrkur getur numið allt að 10 milljónum króna. Gera þarf grein fyrir að einhver hluti kostnaðar verði lagður fram héðan, á móti. Umsóknir þarf að fylla mjög vel og nákvæmlega út og svara öllum spurningum. Og útvega þarf alls kyns gögn. En styrkurinn er ríflegur og borgar sig að sækja um hann. Bandalögin á Norðurlöndunum þurfa að taka þátt í þessari umsókn.
Spurt var hvort menningarhús á Akureyri yrði risið árið 2010.
Halla: Það á að verða tilbúið til notkunar 2010. Einnig búið að festa hátíðinni pláss í Húsinu.
Skólanefnd
Hrefna Friðriksdóttir flutti skýrsluna.
Skýrsla skólanefndar á aðalfundi BÍL 4.-6. maí 2007
Leiklistarskólinn var settur í 10. sinn í júní 2006 að Húsabakka í Svarfaðardal. Þessa skólaárs verður örugglega helst minnst fyrir að vera það síðasta þar sem hinar einu sönnu skólastýrur frá upphafi skólastarfsins, Gunnhildur Sigurðardóttir og Sigríður Karlsdóttir, héldu sínum mildu, styrku höndum um stjórnartaumana. Þær hafa unnið frábært og einfaldlega ómetanlegt starf í þágu skólans og eiga allar heimsins þakkir skildar.
Húrra fyrir Gunnhildi og Sirrý!
Þetta sumar í Svarfaðardalnum varð einnig ódauðlegt þar sem Gísli Einarsson og hans vinnumenn í sjónvarpsþættinum Út og suður heimsóttu skólann. Afraksturinn sást í sjónvarpi allra landsmanna síðar um sumarið og er vonandi til á hverju góðu menningarheimili.
Á síðasta starfsári skólans voru haldin alls fimm hefðbundin námskeið.
Þrjú námskeið voru í boði í Svarfaðardalunum. Leikstjórn II, kennari var Sigrún Valbergsdóttir, Hvernig segirðu sögu?, kennari Ágústa Skúladóttir og sérnámskeið fyrir leikara, kennari Steinunn Knútsdóttir. Alls voru 33 nemendur á þessum námskeiðum.
Þá var Gréta Boða fengin til að halda tvö helgarnámskeið í förðun í október, hið fyrra byrjenda- og hið síðara framhaldsnámskeið. Samtals sótti 31 nemandi þau námskeið. Annað förðunarnámskeiðanna var haldið í húsnæði Halaleikhópsins og þökkum við það góða samstarf.
Haldið var námskeið í stjórnun leikfélaga í tengslum við haustfund Bandalagsins á Selfossi í lok september 2006 fyrir þá sem sóttu fundinn, alls um 50 manns. Svo var haldið framhaldsnámskeið í stjórnun leikfélaga í nóvember í húsnæði Leikfélags Hafnarfjarðar. Þökkum við kærlega fyrir þau afnot en námskeiðið eða fyrirlestrana sóttu 25 manns.
Liðinn áratugur markar auðvitað ákveðin tímamót í sögu skólans og var ákveðið að gera ýmislegt til að fagna. Haldin var vegleg lokaveisla eftir námskeiðin í Svarfaðardalnum og öllum fyrrverandi nemendum og kennurum boðið að njóta örleikritahátíðar og lokahófs.
Stjórn Bandalagsins ákvað að leggja fyrir spurningakönnun um áhrif skólans á starfsemi leikfélaga og ákveðið var að halda málþing um skólann í tengslum við haustfund á Selfossi þann 30. september 2006. Þar fjallaði Gunnhildur Sigurðardóttir um aðdraganda og starfsemi skólans, Margrét Tryggvadóttir um húsnæðismálin og undirrituð gerði grein fyrir niðurstöðum könnunarinnar á áhrifum skólans. Svo kom Sigríður Lára Sigurjónsdóttir og lýsti skólanum frá sjónarhóli síns leikfélags, Hugleiks, Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson lagði til sjónarhorn nemanda og Ágústa Skúladóttir sjónarhól kennara við skólann.
Á málþinginu kom m.a. fram að alls hafa 25 kennarar kennt við skólann frá upphafi skólann hafa sótt 205 nemendur frá 29 leikfélögum alls 417 sinnum.
Spurningakönnunin um áhrif skólans olli nokkrum vonbrigðum en einungis bárust svör frá 11 leikfélögum. Niðurstöður voru þó nokkuð samhljóma um að skólinn hefði skilað betri sýningum, aukið fjölbreytni starfsins og dregið úr ráðningum utanaðkomandi aðila og þar með kostnaði.
Málþingið í heild sinni var mjög lærdómsríkt og ég hvet alla til að kynna sér frjóar umræður sem þar fóru fram með því að lesa fundargerðina á leiklist.is.
Í tengslum við málþingið var formlega skipt um skólastýrur leiklistarskólans og ég tók við starfinu ásamt Dýrleifi Jónsdóttur. Þá urðu ákveðnar breytingar á skólanefnd, ég tók formlega sæti sem aðalnefndarmaður í stað Huldar Óskarsdóttur, ákveðið var að hafa engan varamann í nefndinni og þökkum við Huld fyrir hennar góða starf. Aðrar breytingar voru ekki gerðar.
Þá er komið að starfi skólans á komandi skólaári en hann verður með nokkuð hefðbundnu sniði. Þann 9. júní hefjast að Húsabakka í Svarfaðardal eftirfarandi námskeið:
Leiklist I – byrjendanámskeið fyrir leikara, kennari Ágústa Skúladóttir. 18 nemendur eru skráðir og 8 eru á biðlista.
Sérnámskeið fyrir leikara, kennari Stephen Harper frá Bretlandi. 18 nemendur skráðir og 3 á biðlista. Ein af hugmyndum sem fram komu á málþinginu um skólann var að fá erlenda kennara og fáum við ferðastyrk frá NAR vegna þessa, DKK 1.500
Sérnámskeið fyrir leikstjóra, kennari er Egill Heiðar Anton Pálsson. 6 nemendur skráðir og möguleiki að bæta við. Hvetjum við alla til að skoða vandlega hvort ekki eru einhverjir leikfélagar sem ættu að nýta sér þetta flotta námskeið. Egill Heiðar kennir í leiklistardeild Listaháskóla Íslands og hann hefur vakið athygli fyrir sterka sýn og frumlegar sýningar hér á landi og erlendis.
Þá verða haldin bæði byrjenda og framhaldsnámskeið í förðun í október. Frekari upplýsingar um námskeiðin má finna á leiklist.is.
Á síðasta aðalfundi voru ræddar nokkrar áhyggjur af dræmum áhuga á námskeiðum skólans og velt upp spurningum eins og þeim hvort markaðurinn væri mettur í bili og hvort rangar áherslur væru í námskeiðsframboði. Aðsóknin í ár virðist alls ekki benda til þess, sérstaklega virðist bæði þörf og áhugi á námskeiðum fyrir leikara, þar er búið að bæta við nemendum frá því sem áætlað var í upphafi og samt eru biðlistar.
Húsnæðismál skólans eru enn sem fyrr ofarlega á baugi og á þessum fundi verður flutt sérstök skýrsla húsnæðisnefndar leiklistarskólans. Þess má geta að skólanefnd hitti umsjónarkonu Eiða í vetur til að ræða möguleika á skólastarfi þar. Mat skólanefndar var að starfsemi hótelsins myndi væntanlega setja skólastarfi all verulegar skorður auk þess sem óvíst virtist um gott aðgengi fyrir fatlaða að öllu því húsnæði sem við þyrftum á að halda. Ákveðið hefur verið að stjórnarmenn og skólastýrur skoði húsnæðið að Eiðum betur í tengslum við þennan aðalfund.
Í skólanefnd eru:
Hrefna Friðriksdóttir
Dýrleif Jónsdóttir
Herdís Þorgeirsdóttir
Gunnhildur Sigurðardóttir,
Sigríður Karlsdóttir.
Vefnefnd
Hörður Sigurðarson flutti skýrslu vefnefndar.
Spurt var hvort eithvern tíma hafi eitthvað orðið úr þeirri upphaflegu hugmynd að hýsa vefi fyrir aðildarfélög.
Svar: Það stóð til boða, en enginn sóttist eftir því.
Spurt var hvað Exton-auglýsingin hefði kostað.
Svar: 100.000 krónur á ári. Kostnaður við vefinn hefur verið um 200.000 kall. Þegar auglýsingar eru seldar á vefinn er ráðrúm fyrir sveigjanleika með stærð, staðsetningu, birtingarlengd og útlit. Verðið ræðst að þessum þáttum. En það munar um allt.
Spurt var hvort vefnefnd myndi hafa frumkvæði að uppsetningu á sigurverkinu úr stuttverkakeppninni í haust.
Svar: Leiklestrar á verkum í þremur efstu sætunum voru á afhendingu. Það væri gaman að gera eitthvað meira með þetta, en það hafði ekkert verið rætt.
Undirbúningsnefnd stuttverkahátíðarinnar Margt smátt
Ármann Guðmundsson flutti skýrsluna.
Nefndina skipuðu Ármann Guðmundsson, Hrund Ólafsdóttir og Ólöf Þórðardóttir. Lagt var af stað með að gera hátíðina að meiri hátíð en hefur verið undanfarnar hátíðir. Fyrir lá frá síðasta aðalfundi ákvörðun um að halda skyldi hátíðina í kringum páska en þegar til kom reyndist sá tími ekki hentugur og því var reynt að finna annan tíma og þá seinni partinn í maí. Vegna öflugs starfs og margra sýninga í Borgarleikhúsinu reyndist ekki mögulegt fyrir forsvarsfólk leikhússins að finna heppilegan tíma í vor. Því hefur nefndin lagt til að hátíðinni verði frestað til hausts. Nánar tiltekið til mánaðarmótanna september/október.
Söguritunarnefnd
Þorgeir Tryggvason flutti skýrsluna.
Vinnu við ritun og samsetningu sögunnar nánast lokið. Það sem nú liggur fyrir er að safna aðilum á Tabúla gratorium. Möguleiki er að leikfélög geti tekið að sér að safna slíkum fyrir prósentur. Selja þarf um 200 eintök af bókinni til að hún standi undir prentkostnaði. Spurning hvenær hentar best að ráðast í lokasprettinn að vinnunni fyrir útgáfu, með tilliti til útgáfutíma.
Nefnd um handritasafn
Ármann Guðmundsson flutti skýrslu.
Nefndina skipuðu Ármann Guðmundsson og Hrefna Friðriksdóttir. Markmið nefndarinnar er að leita leiða til að finna fjármagn til að gera handritasafn Bandalagsins að lögformlegu safni sem sótt geti styrki til rekstrarins til opinberra aðila. Fyrir liggur að þetta safn er algerlega einstakt safn og í því fólgin gríðarleg menningarverðmæti. Því verður að gera ráðstafanir til að tryggja varðveislu þess en eins og staðan er það einungis til í ljósritum á skrifstofu Bandalagsins.
Leitað var eftir áliti frá Safnaráði hvort möguleiki væri að Handritasafn Bandalagsins heyrði undir það og gæti þar með sótt um styrki til þess, skv. ákvæðum safnalaga. Svo reyndist ekki vera þar sem það flokkast sem skjalasafn en ekki munasafn. Hins vegar væri möguleiki að sækja þangað styrki ef það yrði gert í samvinnu við Leikminjasafnið sem við erum aðili að en Leikminjasafnið uppfyllir skilyrði safnalaga og hefur fengið styrki. Einnig er möguleiki að sækja um verkefnastyrk beint til Menntamálaráðuneytisins og þarf að skoða betur hvaða möguleikar henta okkar best.
Eitt af því sem þarf að skoða er hvort við eigum að fá til samstarfs við okkur í þetta verkefni, aðila eins stóru leikhúsin, Leikskáldafélagið, Landsbókasafnið, Listaháskólann, Leikminjasafnið þar sem þessir aðilar eiga talsverðra hagsmuna að gæta að framtíð handritasafnsins sé tryggð. Nefndin fer fram á að fá að starfa áfram að þessu máli.
Umræður:
Rætt var um framhaldið. Ýmsir möguleikar á að bæta varðveislu safnsins voru ræddir. Bæði að taka afrit af því á pappír og geyma annars staðar og að koma því á rafrænt form. Kanna þarf hver kostnaður yrði af slíku og hvort einhvers staðar væri hægt að leita eftir styrkjum til þess verkefnis. Stungið var upp á að sækja um til Evrópusambandsins.
Stungið var upp á að nefndin starfaði áfram að þeim verkefnum.
Nefnd um rekstur á Búningasafni Þjóðleikhússins
Embla Guðmundsdóttir skýrði frá störfum nefndarinnar.
Enn hefur ekki verið haldinn fundur með Þjóðleikhúsinu um málið. Talað var við háskólann á Bifröst um möguleika á að einhver nemandi gerði þetta að verkefni sínu. Kanna þarf hvort rekstrargrundvöllur er fyrir hendi og funda með Þjóðleikhúsinu.
Nefnd um kaup eða rekstur á húsnæði fyrir leiklistarskóla Bandalagsins
Margrét Tryggvadóttir sagði frá störfum nefndarinnar.
Barnaskólinn að Húsabakka er ekki til sölu eða rekstrarleigu, enda aðgengismál í ólestri þar. Haft var samband við Eiðamenn, stjórn og skólanefnd skoðar húsakost þar að fundi loknum á sunnudegi. Einnig var athugað með Hrafnagilsskóla, en allt er í óvissu með framtíð þess skóla. Annars hafa heimavistarskólar almennt mjög slæmt aðgengi. Búið er að segja upp hótelinu hér á Hallormsstað svo jafnvel kæmi til álita að hafa skólann í húsnæði aðalfundar. Æskilegt er að skólinn sé utan þéttbýliskjarna en þó í nágrenni slíks. Þó að starfsemi skólans að Húsabakka sé orðin tilfinningamál fyrir margt skólafólk er aðalatriðið að námskeið sé hægt að halda með aðgengi fyrir alla. Spurning hvort þeir sem ekki hafa verið í skólanum hafi skoðun á því hvar hann ætti að vera.
Umræður:
Fundarmenn virtust ásáttir um að þó vel hefði farið um starfsemi skólans á Húsabakka þá yrði hann að sjálfsögðu fluttur ef aðgengilegt húsnæði fengist á góðu verði.
Rætt var um húsnæðismál skólans og rætt um ýmsa mögulega staði, svo sem Hrafnagilsskóla og Hafralækjarskóla. Fram kom að Hrafnagilsskóli væri að mörgu leyti afar heppilegur kostur, en að ekki væri vitað hvað yrði um það húsnæði í framtíðinni. Hótelið sem væri að fara ætti alla innanstokksmuni svo ekki væri víst að í framtíðinni yrði þar gistirými. Fram kom að líklega væri best að senda skriflega fyrirspurn til að vita hvar þau mál stæðu.
Ása Hildur gerðir athugasemd við að á Hallormsstað hefði ekki verið aðgengi fyrir fatlaða, eins og sagt hefði verið, og spurði hve vissir menn væru um aðgengi á öðrum stöðum sem rætt hefði verið um. Hún tók þó fram að tiltölulega lítið þyrfti að gera til þess að gera Hallormsstaðarskóla aðgengilegan.
Guðrún Halla getur metið aðgengi, en skoðaði ekki Hallormsstaðaskóla sjálf.
Spurt var hvert starfssvið nefndarinnar hefði verið.
Þorgeir svaraði og sagði að e.t.v. hefði farvegurinn að skipa nefnd ekki verið mjög gáfulegur á þessu stigi málsins. Nefndin hefði endað í húsnæðisleit með skólanefnd og verið væri að skoða nokkra spennandi kosti.
Embla Guðmundsdóttir stakk upp á að sveitarfélögum yrðu send formleg erindi þar sem grennslast væri fyrir um hvort þar væri að finna húsnæði sem hentaði skólanum. Það vita menn hvað er í boði á hverjum stað, og þeim ber skylda til að taka formleg erindi fyrir og svara þeim. Þetta myndi spara Bandalaginu mikla vinnu við húsnæðisleit.
María Guðmundsdóttir frá Leikfélagi Mosfellssveitar lýsti ánægju sinni með að verið væri farið að huga að aðgengismálum. Hún skoraði á stjórn að vinna hratt og sjá til þess að allir gætu sótt skólann næsta ár, óháð fötlun.
10. Drög að starfsáætlun næsta árs kynnt og skipað í starfshópa.
Tillaga stjórnar að starfsáætlun lesin:
stjórnar og aðildarfélaga Bandalags íslenskra leikfélaga
leikárið 2007-2008:
Almenn starfsemi:
1. Rekstur þjónustumiðstöðvar í samræmi við lög BÍL
2. Rekstur fasteigna skv. viðhaldsáætlun
3. Útgáfa Ársrits fyrir leikárið 2006-2007
4. Starfsemi Leiklistarskóla BÍL skv. námskeiðaáætlun
5. Rekstur vefsíðunnar leiklist.is skv. tillögum vefnefndar
6. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum til starfsemi áhugaleikfélaganna, þjónustumiðstöðvar Bandalagsins og Leiklistarskóla þess.
7. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugasýningu ársins
Sérverkefni starfsársins:
1. Halda einþáttungahátíð í tengslum við aðalfund 2008
2. Hefja undirbúning NEATA- hátíðar 2010
Fundarmönnum skipt í hópa.
Hádegishlé.
11. Kjörnefnd tilkynnir niðurstöður sínar og mælir með a.m.k. 1 aðila í hvert sæti sem kjósa skal í.
Tillaga kjörnefndar á aðalfundi Bandalags íslenskra leikfélaga 5. 6. maí 2007 mælir með eftirtöldum aðilum til framboðs í stjórn BÍL:
Til formanns til tveggja ára:
Þorgeir Tryggvason.
Í aðalstjórn:
Þórvör Embla Guðmundsdóttir
Í aðal- eða varastjórn:
Guðfinna Gunnarsdóttir
Ólöf Þórðardóttir
Hrund Ólafsdóttir
Í varastjórn:
Hjalti Stefán Kristjánsson
Kjósa skal einn fulltrúa í aðalstjórn til tveggja ára og einn til eins árs.
Kjósa skal þrjá fulltrúa í varastjórn til tveggja ára.
Undirskrift:
Hallormsstað 5. maí, 2007
Regína Sigurðardóttir
Örn Alexandersson
Ingólfur Þórsson
Frambjóðendur kynntu sig stuttlega og störf sín innan hreyfingarinnar.
Umræðuhópar tóku til starfa.
Dagskrá framhaldið kl. 15.00
12. Lagabreytingar
Engar lagabreytingatillögur lágu fyrir fundinum.
13. Tillögur lagðar fyrir fundinn
Vilborg Valgarðstóttir, framkvæmdastjóri Bandalagsins lagði fram eftirfarandi tillögur.
1. Stjórn Bandalagsins verið valið að setja af stað nefnd sem endurskoða skal lög Bandalagsins fyrir næsta aðalfund.
2. Aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga samþykkir að 1.500.000.- af verkefnastyrk ríkisins verði veitt í rekstur þjónustumiðatöðvarinnar.
Guðrún Halla Jónsdóttir lagði fram eftirfarandi tillögu:
Að stjórn og framkvæmdastjóra Bandalagsins verði falið að selja húsnæði Bandalagsins að Laugavegi 96 og kaupa annað hentugra sem fyrst.
Umræður:
Vilborg sagði frá því að þær Guðrún Halla hefðu að undanförnu verið að skoða lög Bandalagsins og þróa tillögur að ýmsum breytingum. Hún mælti með að þeirri vinnu yrði haldið áfram og lagabreytingar yrðu lagðar fyrir næsta aðalfund. Eina og hálfa milljónin hefur alltaf verið tekin af verkefnastyrkjum, en aðeins í fyrra var leitað eftir samþykki aðalfundar.
Spurt hvort það dygði til að skrifstofan yrði ekki í mínus um áramót.
Svo var ekki.
Menn veltu fyrir sér hvort snjallt væri að taka meira af verkefnastyrkjum til skrifstofunnar til að rétta fjárlagahallann.
Ljóst var, af fundi með ráðuneytisfólki, að ekki stóð til að hækka framlögin til skrifstofunnar frekar en tillögur stjórnar að úthlutun verkefnastyrks væru jafnan afgreiddar eins og þær væru lagðar fram.
Guðrún Halla taldi brýnt að fara í húsnæðismál vegna handritasafns, aðgengis, viðhalds, og rétt að reyna að gera þetta á meðan verð á 101 svæðinu héldist svona hátt. Ef peningar fengjust á milli gæti nýst til að leiðrétta fjárlagahallann á þjónustumiðstöðinni, að einhverju leyti.
Hörður Sigurðarson lagði til að allar tillögur yrðu samþykktar. Hann beindi tilmælum til stjórnar og þeirra sem færu lagabreytingavinnu að missa ekki sjónar á ástæðum endurskoðunar laganna. Hann sagðist treysta Vilborgu til að meta fjárþörf skrifstofunnar og sagðist ekki sjá ástæðu til að ræða þá tillögu frekar. Tímabært væri að skipta um húsnæði
Tillögur bornar undir atkvæði og allar samþykktar samhljóða.
14. Starfsáætlun afgreidd
Niðurstöður umræðuhópa
Hópur 1.
Hópstjóri: Hjalti Stefán Kristjánsson
Hópur 1.
Hópstjóri: Hjalti Stefán Kristjánsson
Almenn starfsemi:
1. Við lýsum yfir almennri ánægju með starfsemi þjónustumiðstöðvarinnar
2. Ekki vitað hvort skemmdir hafa orðið á húsnæðinu vegna framkvæmda í nágrenninu, athuga það og bótaskyldu í framhaldinu. Nauðsynlegt er að gott aðgengi sé að nýju húsnæði. Gefum stjórn grænt ljós á fasteignabrask og flutninga úr 101
3. Fögnum því að það sé komið á góðan rekspöl
4. Vantar að fá búninga- og gervanámskeið aftur. Kominn tími á Leikritun I. Þeir gangi fyrir sem ekki hafa sótt það námskeið áður.
5. Síðan er tengsl almennra félaga við Bandalagið, gott að geta farið á vefinn, þarf að efla gagnrýnina inni á henni. Reyna að efla tengingu félaganna og notkun á síðunni, t.d. með formannalistanum. Senda ætti link á nýja alþingismenn til að kynna vefinn en gæta þess að hafa það í sambandi við upplýsingar.
6. Nýta sér kosningaskrifstofur allra flokkanna og koma með fyrirspurnir á frambjóðendur fram að kosningum. Mjög skrýtið að framlag til skrifstofu hafi lækkað en gleðilegt að framlagið hafi verið hækkað að öðru leyti. Athuga hvort einhvers staðar leynast opinberir sjóðir sem hægt er að leita í eftir fjármagni, sjálfsagt finnast þeir einhvers staðar.
7. Þjóðleikhúsið var ekki tilbúið þegar byrjað var að senda inn umsóknir, það þarf að vera Þjóðleikhúsinu ljóst að leikárið byrjar einnig hjá áhugaleikfélögum að hausti. Búið er að taka fyrir það að komið sé á sýningar, nú sitja allir við sama borð og eingöngu er dæmt er eftir upptökum. Erum hlynnt þessari breytingu en negla þarf niður að að þetta sé örugglega eins fyrir alla. Kynna þarf fyrir öllum hvernig reglurnar/forsendurnar eru þannig að ekki séu sumir að bjóða nefndarmönnum á sýningar.
Sérverkefni starfsársins
1. Kominn tími á það! Halda einþáttungahátíð og Margt smátt aðskildu. Einþáttungahátíð er frekar fyrir okkur sjálf. Hafa hana annað hvort ár.
2. Undirbúningur búinn að standa í eitt ár. Staðsetning hátíðarinnar ætti ekki að skipta máli varðandi áhorfendafjölda. Þetta hefur sameiningargildi fyrir þátttakendur. Þrjú ár eru fljót að líða svo það þarf að vinna vel.
3. Ætti frekar að vera á haustin til að byrja leikárið. Gæti verið gott að hafa það á hverju ári til að vekja athygli. Tekur tíma að fá félög til að koma á þetta, er bara þriggja skipta saga.
4. Hringja út í félög til að ýta á þátttöku. Ekki nóg að treysta á að stjórnin geri vel eða nenna ekki að koma. Styrkir koma í gegnum Bandalagið og þarf því að sinna því starfi. Nota einþáttungahátíð sem gulrót, þá tvöfaldast fjöldinn ca. Allir verði geysilega skemmtilegir á næsta fundi svo allir vilji koma næsta ár!! Hækka aðildargjöldin sem nemur aðalfundargjaldi fyrir einn (40.000-50.000).
Hópur 2
Hópstjóri: Sigurlaug Gunnarsdóttir
1. Erum ánægð með þjónustu. Mikiðvægt að skoða hlutverk og framtíð handritasafns. Hvert er markmið safnsins? Varðveisla, sala eða útleiga? Höfundarrréttur þarf að vera á hreinu. Mælum með því að gerð upplýsingahandbókar fyrir stjórnir leikfélaga verði lokið á næsta starfsári. Við leggjum einnig til að hún verði gefin út rafrænt svo hver geti prentað út fyrir sig, eða óskað eftir útprentuðu eintaki.
2. Erum mjög hlynnt því að þjónustumiðstöð verði flutt á betri, stærri, ódýrari stað. Aðgengi, fundir/námskeið handritasafn, jafnvel búningasafn? Hugsanlega grunnumsýsla í þjónustumiðstöð en varðveisla annars staðar.
3. Ókei.
4. Fínt. Góð blanda skóli/stutt námskeið. Góð hugmynd hjá Emblu að leita upplýsinga um hugsanlegar staðsetngar hjá sveitarfélögum. Skólanefnd fær hrós fyrir góð og vel unnin störf.
5. Samþykkjum tillögur vefnefndar. Okkar hlutverk er að vekja athygli innan félaganna. Gæti verið sniðugt að hafa upplýsingar um allt sem að vefnum snýr í handbók.
6. Möst.
7. Í hvaða mynd er samstarfið? Hvernig vinnur nefnd Þjóðleikhússins og hvert er samstarfið að þróast? Eru allir ánægðir, er ástæða til að breyta?
Sérverkefni
Halda Margt smátt og einþáttungahátíð í tengslum við aðalfund 2008.
NEATA Já, gera stórt.
Halda áfram að reyna að finna flöt á framkvæmd búninga- og leikmunasafns/leigu.
Hópur 3
Hópstjóri: Örn Alexandersson
1. Rekstur þjónustumiðstöðvar ok
2. Rekstur fasteigna skv. viðhaldsáæltun Skoða nýtt húsnæði á höfðuborgar-svæðinu með aðgengi í huga og veita stjórn umboð að kanna þessi mál.
3. Útgáfa ársrits 2006 -2007 ok.
4. Starfsemi Leiklistaskólan BÍL skv. námskeiðsáætlun, leggjum til við skólanefnd að kanna þörf á að hafa leikmynda-, búninga- og ljósanámskeið í samstarfi við félögin víða um land. Húsnæðismál – að sent verði bréf til sveitastjórna víða um land þar sem þarfir okkar eru tíundaðar m.a. aðgengi og leitað eftir samstarfi og aðstöðu fyrir skólann.
5. Rekstur vefs leiklist.is skv. tillögum vefnefndar. ok.
6. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum til starfsemi áhugaleikfélganna, þjónustumiðstöðvar Bandalagsins og leiklistarskóla þess. Kanna einnig möguleika á styrkjum frá einkaaðilum.
7. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugasýningu ársins. Umræður um kostnað nefndarinnar ræddar og skiptar skoðanir varðandi það efni.
Sérverkefni starfsársins:
1. Halda einþáttungahátíð í tengslum við aðalfund 2008 – ok
2. Hefja undirbúning NEATA-hátíðar 2010 Byrja fyrr en seinna að undirbúa. Hugmynd að skoða pakkaferð til Riga á hátíðina 2008 fyrir BÍL-félaga til að sjá sýningar og fá reynslu af slíkum hátíðum.
3. Handritasafn Að formleg langtímanefnd vinni að tillögum til að bæta starfsemi handritasafns, fjármögnun, að koma henni á rafrænt form, viðhaldi safnins o.fl.
4. Margt smátt Gera það vel og meiri hátíð.
5. Búningasafn Þarf að vera skýrara hvað þessi nefnd á að gera.
Umræður:
Þorgeir kallaði eftir nákvæmu orðalagi á tillögur þeirra hópa sem vildu formlega tillögur að fleiri sérverkefnum við starfsáætlun.
Vilborg sagði frá því að ársritið yrði seint á ferð þetta árið, þar sem hún yrði í fríi í september. Hún reiknaði þó ekki með mikilli seinkun á vinnunni,
Örn Alexandersson bætti við tillögurnar frá sínum hópi:
– Að sett verði saman pakkaferð á NEATA-hátíðina í Riga 2008, til undirbúnings fyrir sambærilega hátíð á Íslandi 2010.
Embla sagði frá því að hún vissi til að Slysavarnarfélagið á svæðinu hjá henni væri nýbúið að sækja um styrk til stórra fyrirtækja, en hefði ekki átt erindi sem erfiði.
Örn svaraði því að styrkur okkar samtaka væri að fyrirtæki væru mörg komin með menningarsjóði og auglýstu eftir umsóknum um styrki. Þrír stórir sjóðir hafi bæst við síðan verið var að leita að styrkjum fyrir Leikum núna, árið 2005.
Örn: Tillögur sem hópstjórar unnu í kaffihléi. Fjórar breytingatillögur við starfsáætlun. Og nokkrar ábendingar til stjórnar. Tillagan var svohljóðandi:
Viðbót við lið 4. í almennri starfsemi:
Að stjórn sendi bréf til sveitastjórna víða um land þar sem þarfir okkar eru tíundaðar m.a. aðgengi og leitað eftir samstarfi og aðstöðu fyrir leiklistaskóla BÍL.
Viðbót við lið 6 í almennri starfsemi:
Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og til einkaaðila til starfsemi áhugaleikfélaganna, þjónustumiðstöðvar Bandalagsins og Leiklistarskóla þess.
Sérverkefni:
Stjórn skipi formlega langtímanefnd sem haldi utan um starfsemi handritasafns í samvinnu við starfsmenn Þjónustumiðstöðvar s.s. viðhald, flokkun, tilgang, markmið, fjármögnun og geymslutilhögun.
Margt smátt verði haldin í haust í svipuðu formi og verið hefur.
Ábendingar til stjórnar og nefnda:
Að stjórn kanni grunndvöll á standa að pakkaferð til Riga 2008.
Námskeiðsáætlun, leggjum til við skólanefnd að kanna þörf á að hafa leikmynda-, búninga- og ljósanámskeið í samstarfi við félögin víða um land.
Að ljúka upplýsingahandbók fyrir stjórnir leikfélga á næsta starfsári.
Að starf búninganefndar haldi áfram og að stjórn móti hlutverk nefndarinnar.
Að sótt verði um styrki hjá einkaaðilum vegna sögu Bandalagsins, handritasafns, leiklistahátíða og stuttverkahátíða.
Þorgeir lagði til að viðbót við lið fjögur í almennri starfsemi yrði sleppt. Þótti að nóg væri að tillagan kæmi fram í fundargerð.
Samþykkt var að fella hana út úr tillögunni.
Hörður: Umfjallanir um leiksýningar. Stór skellur að mogginn birti þær ekki lengur en þær vöktu athygli á starfsemi félaganna. Fólk tók eftir þessu og þar með jókst sýnileiki starfseminnar. Mikilvægt fyrir listrænt starf að fá faglega umfjöllun um starfsemina.
Hörður bar upp formlega tillögu að sérverkefni sem hljóðaði svo:
Að stjórn leiti leiða til að tryggja faglega umfjöllun um leiksýningar áhugaleik-félaganna á Leiklistarvefnum.
Liðurinn var samþykktur inn í tillögu að starfsáætlun.
Nokkrar umræður spunnust um kostnað við Margt smátt, eins og rætt hefur verið um að hún verði haldin. Töldu menn þó að vinnan við hana yrði að mestu unnin í sjálfboðavinnu.
Starfsáætlun borin undir atvæði.
(Breytingatillögur við upphaflega tillögu skáletraðar.)
Almenn starfsemi.
1. Rekstur þjónustumiðstöðvar í samræmi við lög BÍL
2. Rekstur fasteigna skv. viðhaldsáætlun
3. Útgáfa Ársrits fyrir leikárið 2006-2007
4. Starfsemi Leiklistarskóla BÍL skv. námskeiðaáætlun
5. Rekstur vefsíðunnar leiklist.is skv. tillögum vefnefndar
6. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og til einkaaðila til starfsemi áhugaleikfélaganna, þjónustumiðstöðvar Bandalagsins og Leiklistarskóla þess.
7. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugasýningu ársins
Samþykkt.
Tillaga að sérverkefnum starfsársins:
1. Halda einþáttungahátíð í tengslum við aðalfund 2008
2. Hefja undirbúning NEATA-hátíðar 2010
3. Að stjórn skipi formlega langtímanefnd sem haldi utan um starfsemi handritasafns í samvinnu við starfsmenn Þjónustumiðstöðvar.
4. Að Margt smátt verði haldin í haust í svipuðu formi og verið hefur.
5. Að stjórn leiti leiða til að tryggja faglega umfjöllun um leiksýningar áhugaleikfélaganna á Leiklistarvefnum.
Samþykkt
Ábendingar – bókun.
– Að stjórn kanni grunndvöll á standa að pakkaferð til Riga 2008.
– Að skólanefnd kanni þörf á að hafa leikmynda-, búninga- og ljósanámskeið í samstarfi við félögin víða um land.
– Að ljúka upplýsingahandbók fyrir stjórnir leikfélga á næsta starfsári.
– Að starf búninganefndar haldi áfram og að stjórn móti hlutverk nefndarinnar.
– Að sótt verði um styrki hjá einkaaðilum vegna sögu Bandalagsins, handritasafns, leiklistahátíða og stuttverkahátíða.
Bókun samþykkt.
15. Stjórnarkjör
Þorgeir Tryggvason var einn í framboði til formanns, og var því sjálfkjörinn.
Embla Guðmundsdóttir var kosin sem í stjórn til tveggja ára.
Hrund Ólafsdóttir var kosin í stjórn til eins árs.
Guðfinna Gunnarsdóttir, Ólöf Þórðardóttir og Hjalti Kristjánsson voru sjálfkjörin í varastjórn þar sem ekki voru fleiri í framboði.
16. a) Kosning 3ja manna kjörnefndar og eins varamanns til eins árs
Sama kjörnefnd situr áfram. Hana skipa Regína Sigurðardóttir, Hjördís Pálmadóttir, Örn Alexandersson og Gunnsteinn Sigurðsson til vara.
b) Kosning tveggja félagslegra endurskoðenda og eins til vara til eins árs
Sömu skoðunarmenn sitja áfram. Þeir eru Hrefna Friðriksdóttir og Anna Jórunn Stefánsdóttir, Júlía Hannam til vara.
17. Ákveðið árgjald til Bandalagsins
Stjórn Bandalagsins lagði fram eftirfarandi tillögu:
Stjórn Bandalagsins leggur til að árgjöld verði óbreytt frá fyrra ári, eða kr. 40.000,-
Félag sem setur upp tvær styrkhæfar leiksýningar greiði eitt og hálft árgjald, félag sem setur upp þrjár sýningar eða fleiri greiði tvöfalt árgjald og félag sem ekki setur upp neina sýningu greiði hálft árgjald.
Nokkrar umræður urðu um hvort hækka ætti árgjald sem næmi þátttökugjaldi fyrir einn fulltrúa á aðalfund, utan margfeldisáhrifa, þannig að félög greiddu fyrirfram fyrir einn fulltrúa á aðalfundi. Þetta var hugsað til að hvetja félög til að senda fulltrúa. Skiptar skoðanir voru um hvort aðferðin væri heppileg og hvort ástæða væri til að grípa til aðgerða vegna aðsóknarleysis á aðalfundi.
Niðurstaðan varð að mönnum þótti meiri tíma þurfa til nánari útfærslu á þeirri hugmynd, áður en hún yrði sett inn í formlega tillögu, ef af yrði.
Tillaga um að árgjald til Bandalagsins verðióbreytt árið 2007-2008 borin upp.
Samþykkt samhljóða.
Fundarhlé
Fundi haldið áfram kl. 10.00, 6.5. 2007
18. Önnur mál
Ólöf Þórðardóttir þakkaði Guðrúnu Höllu fyrir samstarfið.
Hrund þakkaði Höllu fyrir samstarfið og sagðist telja æskilegt að Halla yrði Bandalaginu áfram innan handar við umsóknir um framlag úr menningarsjóði Evrópusambandsins.
Halldór óskaði eftir því að fundarstjóri yrði fenginn til að halda námskeið í fundarstjórn. Hann óskaði Þorgeiri til hamingju með embættið. Hann ítrekaði einnig vilja sinn til að að sett yrði saman hópferð á leiklistarhátíðina í Lettlandi. Sagðist koma með 10 manns frá Freyvangsleikhúsinu.
Vilborg sagði frá því að NUTU-skólinn yrði haldinn að Hönefoss í Noregi dagana 7. til 21. júlí. Skólinn er ætlaður fólki á aldrinum 16-25 ára. Umsóknareyðublöð og allar nánari upplýsingar berast fljótlega. Námskeiðsgjald er 20.000 krónur fyrir utan ferðakostnað.
Þorgeir hvatti menn til að íhuga hvort ungmenni væru innan félaganna tsem áhuga hefðu á að fara á skólann. Við ættum að nýta okkur tækifærin sem gefast í alþjóðasamstarfinu. Hugleikur hefur farið á alþjóðleiga leiklistarhátíðir og hann ber því vel söguna. Þorgeiri þótti frábært ef margir færu á hátíðina í Lettlandi. Hann hvatti menn einnig til að íhuga hvort þeir ættu sýningu sem væri við hæfi að senda. Sýningar þurfa að vera klukkutími og góðar og gott væri að þær væru sjónrænar, þó það væri alls ekki skilyrði.
Þráinn Sigvaldason, formaður Leikfélags Fljótsdalshéraðs, þakkaði fundarmönnum fyrir komuna. Þótti fundurinn góður, þó fámennur væri.
Örn ræddi einþáttungaformið. Hann sagðist ekki vera viss um að fólk áttaði sig á því hvað væri svona sniðugt við formið. Hann taldi að ef til vill þyrfti að kynna kosti einþáttunga fyrir félögunum.
Guðrún Halla tók fram að mögulegt væri að hafa annað en einþáttunga á Mörgu smáu. Til dæmis götuleikhús. Einnig þótti henni ekkert verra að farið væri með sömu þætti á margar hátíðir. Og stundum væri jafnvel hægt að láta setja sama þáttinn oft á svið, og jafnvel sýna margar útgáfur á sömu hátíð. Hún vonaðist til að fleiri færu á leiklistarhátíðir erlendis. Ekki síst til undirbúnings fyrir hátíðina hér, en hún þyrfti einnig að vera á ábyrgð félaganna.
Gísli taldi einþáttungaformið gott til að þjálfa leikara, höfunda og leikstjóra.
Guðfinna óskaði Þorgeiri til hamingju með embættið og þakkaði Höllu fyrir gott samstarf. Hún lagði til að settur yrði saman einhver listi yfir stuttverk, sem væri aðgengilegur á netinu. Hún sagði einnig frá stuttverkadagskránni Hugarflugi, sem Leikfélag Selfoss hélt í fyrsta sinn síðasta vetur, og er komin til að vera.
Þorgeir sagði að vildu menn sækja í reynslubanka Hugleiks í einþáttungamálum, væri hann alveg til í að vera mönnum innan handar í einhvers konar rágjafarþjónustu. Hægt væri að hafa samstarf með öðru leikfélagi. Hugmynd að því að þáttur væri settur upp á hátíðinni. Hæfist á leiklestri í upphafi hátíðar og endaði á fullbúinni sýningu í lokin. Svipuð vinnubrögð og á lokadegi leiklistarskóla Bandalagsins.
Hrund sagði frá vinasambandi sem var á milli Freyvangsleikhússins og leikdeildar Umf. Reykdæla. Hún sagði að lítið mál að heimsækja önnur félög. Það eina sem þyrfti væri rúta. Hún þakkaði Sigurlaugu fyrir sína reynslusögu af Mörgu smáu. Sagði hana sýna að fólk gæti vel notið þess að koma á hátíð án þess að vera með sýningu. Hún sagði það hins vegar geðveika tilfinningu að leika á Nýja sviðinu í Borgarleikhúsinu og einnig gaman að fá þá aðstoð og þjónustu sem Borgarleikhúsið byði upp á. Það væri allt öðruvísi en að sýna í heimabyggð.
Guðrún Halla lagði til að aðalfundurinn sendi frá sér eftirfarandi ályktun:
Aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga, haldinn á Hallormsstað 5. til 6. maí 2007 skorar á frambjóðendur til Alþingis að hlúa að blómlegu starfi áhugaleikfélaganna í landinu með því að kynna sér starf þeirra og auka þann fjárstyrk sem áhugaleikhúshreyfingin nýtur frá ríkisvaldinu. Áhugaleikhúsið er vagga leiklistar í landinu og hornsteinn menninar í hverju byggðarlagi. Hjálpið okkur að halda landinu í byggð!
Ályktun samþykkt samhljóða.
19. Næsti aðalfundur, hugmyndir reifaðar um stað og stund
Guðrún Halla minnti á að haldin yrði einþáttungahátíð í tengslum við aðalfund 2008 og til þess þyrfti að vera aðstaða.
Halldór Sigurgeirsson sagði frá því að Freyvangsleikhúsið væri að skoða málið, en ekki er vitað hvernig gistimálum verði háttað á svæðinu að ári.
Embla Guðmundsdóttir sagði frá því að Umf. Reykdæla yrði 100 ára á næsta ári og vildi að því tilefni bjóða til þings í Reykholti.
Fráfarandi formaður og nýr formaður skiptu með sér fundarslitum:
Þorgeir Tryggvason, nýkjörinn formaður Bandalagsins, þakkaði Guðrúnu Höllu allt hennar góða starf í stjórn Bandalagsins.
Guðrún Halla Jónsdóttir, fráfarandi formaður, þakkaði samstjórnarmönnum og samstarfsfólki á skrifstofu og annars staðar fyrir samstarfið. Hún tók þó fram að hún hefði hugsað sér að taka áftam þátt í því mikla starfi sem framundan væri. Hún kvaddi einnig skólastýrurnar, Gunnhildi Sigurðardóttur og Sigríði Karlsdóttur sem starfað hafa á Leiklistarskóla Bandalagsins frá upphafi, og bauð nýjar skólastýrur, Hrefnu Friðriksdóttur og Dýrleifi Jónsdóttur velkomnar til starfa.
Fundi slitið.