Gaflaraleikhúsið í samvinnu við Skýjasmiðjuna frumsýndi leikritið Hjartaspaða þann 12. janúar sl. við frábærar undirtektir bæði áhorfenda og gagnrýndenda og komust færri að en vildu. Því hefur fjórum aukasýningum verið bætt við nú í mars, sunnudagana 10. og 17. mars kl. 18 og 20. Leikstjóri sýningarinnar er Ágústa Skúladóttir. Drephlægileg uppátæki gamalmennanna á dvalarheimilinu Grafarbakka sanna að lífið er ekki búið eftir áttrætt.

Er ævintýrum ævi þinnar lokið í ellinni eða gætu þau mögulega verið rétt að byrja? Grímur og Hannes hafa verið félagar á dvalarheimilinu um nokkra hríð og dagleg rútína þeirra er fyrir löngu komin í  fastar skorður. Þegar Gréta flytur inn  umturnast líf þeirra og fyrr en varir hefjast óborganleg uppátæki til að lífga upp á tilveruna og drepa leiðindin. Öllum brögðum er beitt, löglegum sem ólöglegum.

Ágústa Skúladóttir hefur sett mark sitt á íslenskt leikhúslíf með uppsetningum sínum á barnasýningunum Klaufum og kóngsdætrum og Bólu Hjálmari, sem hlutu Grímuna og Dýrunum í Hálsaskógi, óperunni Töfraflautunni eftir Mozart sem var opnunarsýning Íslensku Óperunnar í Hörpu og hinnar óviðjafnalegu fjölskyldusýningu Ævintýri Múnkhásens sem er fyrsta verkið sem Gaflaraleikhúsið frumsýndi. Hún hefur í liði með sér ungu leikarana Aldísi Davíðsdóttur, Orra Huginn Ágústsson og Stefán Benedikt Vilhelmsson ásamt aðstoðarleikstjóranum Álfrúnu Gísladóttur og ljósahönnuðinum Sune Joenssen sem fékk Grímutilnefningu á síðasta ári fyrir bestu lýsinguna í Ævintýrum Múnkhásens.

Saman hafa  þau skapað ákaflega sjónræna sýningu þar sem grímuleikur og hreyfingar miðla sögunni en ekki töluð orð. Þetta er draumkenndur óður til elliáranna, fullur af töfrum og ólíkindahætti sem allir geta notið, óháð tungumáli, heyrnartækjum og göngugrindum.

Miðapantanir í síma 565 5900, midasala@gaflaraleikhusid.is og midi.is