Vegna mikillar eftirspurnar hefur verið bætt við aukasýningum á Mein Kampf og Alveg brilljant skilnaði í Borgarleikhúsinu.
 
Báðar sýningarnar hafa gengið fyrir fullu húsi frá því sýningar hófust en nú hafa verið sýndar yfir 120 sýningar af Brilljant skilnaði í Borgarleikhúsinu og Mein Kampf er löngu komið yfir áætlaðan sýningarfjölda. “Það eina neikvæða við þetta er að við erum í vandræðum með að finna sýningardaga fyrir auksýningarnar, því það er svo mikið um að vera hjá okkur að það skortir sýningarkvöld, kannski við förum að sýna öll kvöld vikunnar eins og gert er í London” sagði Guðjón Pedersen.
 
Aukasýningarnar verða sem hér segir:

Mein Kampf
mið 28.feb
sun 18.mars

Alveg brilljant skilnaður
fös 2.mars
þri 13.mars.

ALVEG BRILLJANT SKILNAÐUR
Eftir Geraldine Aron

Einleikurinn “Alveg BRILLJANT skilnaður” gerist í næsta nágrenni við okkur öll á þessum síðustu og verstu tímum. Leikurinn er á gamansömum nótum enda þótt honum megi á köflum lýsa sem harmskoplegum og greinir frá ofur hvundagslegri miðaldra höfuðborgarmær, Ástu að nafni, sem býr í Grafarvoginum. Ásta stígur á stokk og veitir áhorfendum einlægan og opinskáan aðgang að sínum innstu hugarfylgsnum skömmu eftir að elskulegur eiginmaður hennar til þrjátíu ára yfirgefur hana til að taka saman við yngri konu.

Leikkona: Edda Björgvinsdóttir. Höfundur: Geraldine Aron
Þýðandi og höf. íslenskrar leikgerðar: Gísli Rúnar Jónsson
Leikmynd og búningar: Rebekka A. Ingimundardóttir. Leikstjóri: Þórhildur Þorleifsdóttir

MEIN KAMPF
eftir George Tabori

Þýðing Gísli Rúnar Jónsson.  Leikstjóri Hafliði Arngrímsson

Hárbeittur og meinfyndinn gamanleikur um sambýli gyðingsins Slómó og Adolfs Hitlers, er hann kemur úr sveitinni til Vínarborgar í þeim erindagjörðum að nema málaralist við Listaakademíuna þar í borg. Höfnun inntökunefndar er alger. Áfallið reynist Hitler andleg ofraun og við tekur ótrúleg saga vináttu og ástar þar sem gyðingurinn gengur hinum unga, óharðnaða og heimska utanbæjarlepp í móðurstað og kveikir hjá honum hugmyndir um pólitískan frama. Þegar Slómó áttar sig loks á hrikalegri tortímingaráráttu Hitlers er það of seint því að þessi Hitler er ekki lengur einn.
Svört kómedía eftir George Tabori, eitt merkasta leikskáld síðustu aldar.

Þór Tulinius leikur gyðinginn Slomo Herzl og Bergur Þór Ingólfsson fer með hlutverk Hitlers.
Með önnur hlutverk fara , Guðmundur Ólafsson, Marta Nordal, Hanna María Karlsdóttir og Björn Ingi Hilmarsson.