ImageÞótt seint verði sagt um áhugaleikfélög landsins að þau séu of vel haldin fjárhagslega, er víst að þau „gleyma ekki sínum minnsta bróður“. Þannig hefur Hugleikur ákveðið að bæta við einni aukasýningu á Jólaævintýri sínu þar sem fólki sem að öllu jöfnu á þess ekki kost að sækja leiksýningar er boðið. Öðrum gefst þó tækifæri til að kaupa miða á þessa sýningu sem hlotið hefur afar góðar viðtökur á áhorfendum.

Jólaævintýri Hugleiks hefur nú verið sýnt við góðan orðstír og mikla aðsókn frá því í nóvember. Formleg lokasýning var 30. desember, en ekki vill Ebenezer skröggur liggja kjur alveg strax, heldur ætlar að skemmta áhorfendum einu sinni enn, og þá náttúrulega á þrettándanum. Og í anda verksins er sýningin hugsuð sérstaklega fyrir fólk sem ekki á þess alla jafnan kost að sækja leiksýningar. Í því skyni færðu hugleikarar Mæðrastyrksnefnd miða á sýninguna til að dreifa til skjólstæðinga sinna.

Engu að síður eru enn til miðar ef einhver hefur hug á að grípa þetta síðasta tækifæri til að sjá verkið. Sýningin verður eins og fyrr segir þann 6. janúar og hefst kl. 20:00 í Tjarnarbíói.

Miðapantanir á www.hugleikur.is.