Dómnefnd Þjóðleikhússins hefur nú valið athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins 2005-2006 og varð sýning Leikfélags Selfoss, Þuríður og Kambsránið, fyrir valinu. Þuríður og Kambsránið verður sýnd í Kassanum föstudagskvöldið 2. júní kl. 20:00.
Tíu leikfélög sóttu um að koma til greina við valið með alls tólf sýningar. Dómnefnd hafði mikla ánægju af að sjá allar þessar sýningar og verða vitni að því kraftmikla og mikilvæga starfi sem áhugaleikfélögin standa fyrir um land allt.
Handrit Þuríðar og Kambsránsins er skrifað af Sigurgeiri Hilmari Friðþjófssyni og leikstýrt af Jóni Stefáni Kristjánssyni.
Umsögn dómnefndar um sýninguna er svohljóðandi:
Athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2005-2006 er sýning Leikfélags Selfoss á Þuríði og Kambsráninu eftir Sigurgeir Hilmar Friðþjófsson. Leikritið er byggt á sögulegu efni úr byggðalagi Árnesinga, ráninu að Kambi í Flóa 9. febrúar 1827. Höfundurinn studdist í skrifum sínum við verk sem stundum hefur verið kallað Yngsta Íslendingasagan en það er Sagan af Þuríði formanni og Kambránsönnum eftir Brynjólf Jónsson fræðimann frá Minna Núpi. Í þessari sögu er sagt frá einni fyrstu alvöru lögreglurannsókn Íslendinga og formaðurinn Þuríður, sem reyndar er einn aðalheimildamaður Brynjúlfs, hefur verið talinn fyrsti íslenski leynilögreglumaðurinn. Þuríður var eina konan sem var formaður á sjó á þessum tíma og reri með menn sína til fiskjar frá Stokkseyri. Þar stendur verbúð hennar, Þuríðarbúð til minningar um sjósókn hennar.
Öll sviðsetning verksins er mikið leikhús, þar sem sviðsrými, leikmynd og ljós eru nýtt á hugkvæman hátt, bæði til að fara á milli staða og atburða í verkinu. Sviðslausnir eru frumlegar og skapa sterk sjónræn áhrif meðal annars í atriðum, þar sem sýnd eru brot úr fortíð persónanna, draumar þeirra og martraðir. Bakveggur, sviðsgólf og framsvið leikhússins voru nýtt til hins ýtrasta í einstökum atriðum og þar átti lýsingin stóran þátt í að skapa tilfinningu fyrir spennu og óhugnaði.
Í heildina hefur leikstjóranum Jóni Stefáni Kristjánssyni og öðrum aðstandendum sýningarinnar tekist að skapa athyglisverða og eftirminnilega sýningu á sögulegu efni þar sem stór hópur leikara og fólks að tjaldabaki hafa lagt hönd á plóg. Leikarahópurinn er stór og leysir hlutverk sín í aðalatriðum vel af hendi. Af öllum öðrum ólöstuðum má þó helst nefna Hildu Pálmadóttur sem gustaði af í hlutverki Þuríði formanns og Hrefnu Clausen sem lék Englu Imbu af sérstakri einlægni.
Auk verðlaunasýningarinnar hlutu nokkrar sýningar sérstaka viðurkenningu dómnefndar:
• Halaleikhópurinn skilaði stórskemmtilegri sýningu á Pókók eftir Jökul Jakobsson í eigin húsakynnum, en leikhópurinn hefur nú starfað í fjórtán ár á höfuðborgarsvæðinu og hefur fyrir löngu sannað gildi sitt sem eitt af athyglisverðari leikfélögum borgarinnar. Í ár var sérstaklega gaman að sjá samstarf fatlaðra félaga leikhópsins við leikara sem hafa m.a. starfað með Leikfélagi Mosfellssveitar og Leikfélaginu Hugleik.
• Leikfélag Kópavogs sýndi krassandi splatterfarsa um erfðatækni og lýtalækningar, ALF – andspyrnuhreyfingu ljóta fólksins, og létu allt vaða í brjáluðu leikfjöri. Ekki laust við að áhrifa gætt bæði frá Hugleiki Dagssyni og Heilsubælinu í Gervahverfi, jafn ólíkt og það kann að hljóma. Það var með ólíkindum hvernig hópnum tókst að koma öllum þessum ósköpum fyrir í litlu sviðsrými Kópavogsleikhússins.
• Skagaleikflokkurinn sýndi okkur nýtt og afar metnaðarfullt fjölskyldudrama eftir Kristján Krisjánsson í splunkunýju leikrými á Akranesi. Athyglisverð úrvinnsla í handriti gaf leikhópi og leikstjóra tækifæri til að skapa eftirminnilega sögu á sviðinu. Þar átti Guðbjörg Árnadóttir í hlutverki móðurinnar stórleik.
• Í Systrum eftir Þórunni Guðmundsdóttur, sem er líka nýtt og metnaðarfullt leikrit um sögu þriggja systra sem eru samankomnar á æskuheimilinu við dánarbeð föður, var leikur leikkvennanna sem léku systurnar ekki aðeins athyglisverður, heldur sérlega agaður og öruggur ekki síst leikur Huldu B. Hákonardóttur í hlutverki elstu systurinnar.
• Stúdentaleikhúsið sýndi okkur Anímanína sem var hópleikhús í sinni tærustu mynd. Allir leikarar sýningarinnar 33 talsins unnu á athyglisverðan hátt með óttann og múgsefjunina sem var aðalþema sýningarinnar.
• Á sama hátt má segja að sýning Hugleiks á Jólaævintýri, sem var stór og mannmörg, hafi verið athyglisverð fyrir tónlistarflutning leikaranna, en af nítján þátttakendum sýningarinnar spiluðu ellefu á ýmis hljóðfæri allt frá gítar til asnakjálka.
Tilkynnt var um valið á áhugasýningu ársins á þingi Bandalags íslenskra leikfélaga sem haldið var á Seltjarnarnesi nú um helgina. Dómnefnd Þjóðleikhússins í ár var skipuð Tinnu Gunnlaugsdóttur þjóðleikhússtjóra, Hlín Agnarsdóttur listrænum ráðgjafa Þjóðleikhússins og Þórhalli Sigurðssyni, leikara og leikstjóra sem nú starfar við Fræðsludeild Þjóðleikhússins. Varamaður í nefndinni var Salvör Aradóttir leikhúsfræðingur sem hljóp í skarðið fyrir einstaka dómnefndarmenn.
Sýningin á Þuríði og Kambsráninu verður sem fyrr segir í Kassanum 2. júní nk. kl. 20:00.