Halaleikhópurinn frumsýnir leikritið Ástandið eftir Brynhildi Olgeirsdóttur og Sigrúnu Valbergsdóttur, föstudaginn 8. febrúar.

Leikritið byggir á útvarpsþáttum Brynhildar um upplifun hennar af hernámsárunum. Sigrún Valbergsdóttir er leikstjóri og meðhöfundur Brynhildur. Verkið fjallar um fjórar vinkonur sem hittast á kaffihúsi 50 árum eftir hernámið og rifja upp sögur sínar frá þeim árum.  Þær eiga sér sameiginlegar minningar því að allar hafa þær orðið ástfangnar af hermönnum sem hér dvöldu á hernámsárunum. Sögur sem þær hafa sumar ekki getað sagt frá fyrr um hvernig líf þeirra var þá og nú. Ýmsar aðrar persónur koma einnig við sögu sem settu svip sinn á borgarbraginn á stríðsárunum, svo sem hermenn, sjoppueigendur, ástandsnefndarmenn, betri borgarar og bílstjórar. Leikur, dans, söngur og tónlist koma þar við sögu en bæði gleði og sorg fylgja þessum sögum.

Fjórtán leikarar taka þátt í sýningunni með hljómsveitinni og jafn margir vinna að henni bak við tjöldin. Nánari upplýsingar má fá á vef félagsins.

Halaleikhópurinn var stofnaður 27. september 1992 og hefur starfað óslitið síðan. Hópurinn er leikfélag fatlaðra og ófatlaðra.

Um leikstjórann og höfundana

Sigrún Valbergsdóttir útskrifaðist úr Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1970. Hún hefur starfað við leiklist allan sinn feril bæði hérlendis og erlendis, við virta skóla, atvinnuleikhús, sem áhugaleikhús. Sigrún hefur leikstýrt yfir 50 leiksýningum. Hún hefur unnið við dagskrárgerð hjá útvarpi og sjónvarpi, auk þess að þýða og skrifa leikrit fyrir útvarp og svið.
Brynhildur Olgeirsdóttir (1921-2017), fæddist á Bolungarvík, en flutti til Reykjavíkur 1942. Frásagnir hennar af hernámsárunum sem hún flutti í Ríkisútvarpinu urðu kveikjan að leikritinu Ástandið. Brynhildur átti frumkvæði að stofnun leikfélags eldri borgara, Leikfélaginu Snúð og Snældu og lék fjöldamörg burðarhlutverk í 20 ár auk þess að skrifa fyrir hópinn, bæði leikþætti og dagskrár.

Sýnt í Halanum, Hátúni 12, 105 Reykjavík.  Miðasala á midi@halaleikhopurinn.is og í síma 897 5007.