,,Nú árið er liðið…” enn eitt Kómdíuárið að baki og við hæfi að horfa um öxl og kikka á hvað vestfirska atvinnuleikhúsið hefur verið að fást við á árinu. Sannarlega var árið 2010 Kómískt við bættum við okkur leikara, frumsýndum fjögur ný íslensk leikverk, sjöunda Act alone leiklistarhátíðin var haldin, Leiklistarkóli Kómedíu tók til starfa og síðast en ekki síst fengum við loks fast þak undir höfuðið.

Árið hófst á Heilsugæslunni hápólitíska gamanleiknum sem hafði slegið í gegn árið áður um land allt. Farið var í leikferð um landið norður, suður og austur. Þann 18. mars var fyrsta frumsýning ársins þegar við frumsýndum í samstarfi við Lýðveldisleikhúsið svörtu kómedíuna Síðasti dagur Sveins skotta. Þetta er viðmesta og sögulegasta uppfærsla Kómedíu til þessa. Í fyrsta lagi var leikurinn æfður í nýju húsnæði leikhússins í gömlu fyrstihúsi á Ísafirði Norðurtanga sem hefur fengið nafnið Listakaupstaður. Þar hafa fjölmargir listamenn safnast saman undir einu þaki og stunda list sína af kappi. Í öðru lagi bættist nýr leikari í Kómedíuna, Ársæll Níelsson og eru nú Kómedíuleikararnir tveir. Í þriðja lagi þá voru sex listamenn á sviðinu sem er Kómedíumet. Höfundur leiksins er Benóný Ægisson sem einnig samdi tónlist ásamt Steingrími Guðmundssyni, Henna-Riikka Nurmi samdi dansana og Marsibil G. Kristjánsdóttir hannaði leikmynd og búninga. Ársæll Níelsson, Elfar Logi Hannesson og Halldóra Malin Pétursdóttir voru í aðalhlutverkum en auk þeirra léku Benóný, Henna og Steingrímur í sýningunni. Sveinn skotti fékk afbragðsviðtökur áhorfenda og verður sýndur að nýju strax á komandi ári bæði fyrir vestan og í höfuðborginni.

Næsta frumsýning var 21. maí þegar The Poet Comes Home var frumsýnt í Arnardal. Leikurinn er byggður á Þormóðar þætti Kolbrúnaskálds í Fóstbræðrasögu og er einsog nafnið gefur til kynna á ensku. Höfundar eru Sigurður Þ. Líndal og Elfar Logi Hannesson, Sigurður leikstýrði en Elfar Logi lék, leikmynd og búninga gerði Marsibil G. Kristjánsdóttir. Leikurinn var sýndur við góðar viðtökur og verður á fjölunum á nýju ári bæði í Arnardal og London.

Það leið ekki mánuður þar til næsta verk var frumsýnt. Enn var leikur úr ætt Menningartengdrar ferðaþjónustu sem Kómedían hefur sinnt af miklum krafti og dugnaði í gegnum árin. Verkið sem hér um ræðir nefnist Gaggað í grjótinu eftir og í leikstjórn Höllu Margrétar Jóhannesdóttur, Elfar Logi lék og Marsibil G. Kristjánsdóttir gerði leikmynd og búninga. Frumsýnt var 16. júní í nýstofnuðu Melrakkasetri í Súðavík. Sýnt var reglulega yfir sumarið og verður áframhald á sýningum á nýju ári.

Fjórða og síðasta frumsýning Kómedíuársins var á nýjum sögulegum einleik Bjarni á Fönix sem var sýnt á söguslóðum í Dýrafirði nánar tiltekið í gömlu hlöðunni í Alviðru. Nýji Kómedíuleikarinn Ársæll Níelsson stóð á sviðinu og var höfundur ásamt gamla Kómedíuleikaranum Elfari Loga Hannessyni sem einnig leikstýrði. Kómedíufrúin Marsibil G. Kristjánsdóttir hannaði leikmynd og búninga. Leikurinn var sýndur víða um Vestfirði og einnig í höfuðborginni og verður einnig á fjölunum á nýju ári.

Auk nýju verkanna voru góðkunningjar Kómedíu á fjölunum á árinu Pétur og Einar var sýndur þriðja leikárið í röð en sýningum á leiknum lauk í sumar eftir 40 frábærar sýningar. Mjólkurkýr Kómedíu Gísli Súrsson var á sínum stað og var sýndur bæði á íslensku og ensku yfir sumarið. Ekkert lát virðist vera á fornkappanum súra en sýningar nálgast nú 250.

Act alone leiklistarhátíðin var haldin sjöunda árið í röð á Ísafirði og í Haukadal Dýrafirði. Hátíðin fór fram dagana 13. – 15. ágúst og var dagskráin sérlega einleikin. Sýningar voru alls átta og þar á meðal gestasýning frá Silamiut leikhúsinu í Grænlandi. Einnig voru tónleikar og Brönsleikhús.

Í haust hóf Leiklistarskóli Kómedíuleikhússins starfsemi sína í húsnæði leikhússins í Listakaupstað á Ísafirði. Nemendur voru alls 40 á ýmsum aldri og því óhætt að segja að leiklistaráhugi á Vestfjörðum sé mikill og framtíð leiklistar í fjórðungnum björt. Kennarar Leiklistarskóla Kómedíu voru Ársæll Níelsson og Elfar Logi Hannesson.
Af öðrum Kómedíuverkefnum ársins má nefna að ný Þjóðleg hljóðbók kom út og nú voru það Þjóðsögur frá Hornströndum og Jökulfjörðum. Þetta er sjötta Þjóðlega hljóðbókin sem leikhúsið gefur út en útgáfunni hefur verið afarvel tekið. Talandi um vestfirskar sögur er rétt að nefna Vestfirska húslestra sem leikhúsið hefur haldið í gegnum árin í samstarfi við Bókasafnið á Ísafirði og voru nokkrir slíkir á árinu.

Kómedían hefur sannarlega verið með okkur árið 2010 þökk sé áhorfendum, stuðningsaðilum og öllum þeim fjölda listamanna sem hafa tekið þátt í ævintýri ársins. Hafið margfaldar þakkir fyrir án ykkar væri sagan ekki jafn Kómísk og hún er. Við hlökkum mikið til ársins og vonumst til að hitta ykkur sem oftast í leikhúsinu.

P.s.
Meðal verkefna á nýju ári:

Síðasti dagur Sveins skotta, sýnt í lok janúar á Ísafirði, Þingeyri og Tjarnabíó Reykjavík
Vestfirskur skáldskapur, frumsýnt í febrúar í Arnardal
Bakkabræður, frumsýnt í apríl í Arnardal
Jón Sigurðsson, frumsýnt 17. júní á Hrafnseyri Arnarfirði
Act alone, 12. – 14. ágúst Ísafirði og Haukadal Dýrafirði
Tvær nýjar Þjóðlegar hljóðbækur

{mos_fb_discuss:3}