Skemmtileg leit að sumrinu í Kópavogi
Leitin að sumrinu er nýtt íslenskt barnaleikrit sem frumsýnt var hjá Leikfélagi Kópavogs laugardaginn 12. október. Leikararnir Ástþór Ágústsson, Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson og Magnús Guðmundsson sömdu verkið og leikstýrðu. Leikmynd er unnin af leikhópnum með aðstoð Klæmint Henningsson Isaksen. Um búninga sá Dýrleif Jónsdóttir. Skúli Rúnar Hilmarsson sá um lýsingu.

Verkið fjallar um Jón sem elskar sumarið. Hann er truflaður við að njóta sumarblíðunnar þegar árstíðirnar koma hver á fætur annari, trufla hann og rugla í ríminu. Jón, leikinn af Guðmundi Lúðvík Þorvaldssyni, á samtal við alla fulltrúa árstíðanna, haust, vetur, vor og sumar, en árstíðirnar voru leiknar af Magnúsi Guðmundssyni. Hver árstíð var skýrt afmörkuð hjá Magnúsi á lifandi hátt og þannig dregnar upp ólíkar birtingarmyndir fyrir hverja þeirra. Ástþór Ágústsson sá um að vera lifandi hljóðmynd verksins með allskonar hljóðfærum, tækjum og tólum og er inni á sviðinu með hljóðmyndina.

Veðurfar, sólstaða og séreinkenni hverrar árstíðar voru meginuppistaða verksins og römmuðu inn tíma og sýndu skýrt hvað var á seyði. Einfaldar skiptingar og snjallar lausnir varðandi leikmynd og búninga hjálpuðu til við að láta allt ganga sem hraðast fyrir sig. Leikur var allur til fyrirmyndar og mjög lítið leikrými nýtt til hins ýtrasta með allskonar „slapstick“-brellum sem féllu vel í kramið hjá áhorfendum. Verkið hverfist að mestu um kosti og galla hverrar árstíðar fyrir sig, en sér bæði kosti og galla í spaugilegu og jákvæðu ljósi. Börn eru vön að þurfa að velta veðri og árstíðum fyrir sér við leik og störf og þannig séð á hverjum degi þegar verið er að troða þeim í viðeigandi klæðnað til að þóknast okkar dyntótta íslenska veðurfari. Þau ættu að tengja vel við verkið.

Besti mælikvarði á góða barnasýningu er hvernig áhorfendur bregðast við og má fullyrða að unga kynslóðin hafi mjög gaman af árstíðarbrölti leikhópsins. Ekki skemmdi fyrir að þau fengu tækifæri til að vera þátttakendur í að búa til leikmyndina á stundum, ef þau vildu. Hinir fullorðnu fengu líka eitthvað fyrir sinn snúð þar sem nokkrum bröndurum var beint að þeim. Sýningin fer fram á miðju sviði þar sem börnin fá leyfi til að sitja mjög nálægt leikrýminu og stundum að ganga inn í rýmið. Það leit út fyrir að vera mjög spennandi og vildu jafnvel sumir kíkja inn á svið þegar síst skyldi. Leikarar voru vel undirbúnir til að bregðast við allkonar óvæntum uppákomum frá áhorfendum, spurningum og fleiru.

„Veturinn var skemmtilegastur því að þá á ég afmæli og þá er snjór,“ sagði 5 ára aðalrýnir sýningarinnar sem var með undirritaðri í för. „Svo var prumpið líka mjög fyndið.“ Meira þarf ekki að segja. Í hnotskurn: „Vel útfærð og passlega löng sýning fyrir yngstu áhorfendurna, skemmtilegt viðfangsefni sem börnin skilja vel og mikil leikgleði á ferð. Allir að drífa sig í leikhús í Kópavogi.“

Guðfinna Gunnarsdóttir