Leikfélag Kópavogs frumsýndi á dögunum gamansplatterinn ALF eða Andspyrnuhreyfingu ljóta fólksins í Hjáleigunni í Kópavogi. Verkið er eftir Guðjón Þorstein Pálmarsson og Odd Bjarna Þorkelsson sem jafnframt er leikstjóri. Lárus Vilhjálmsson brá sér í Kópavoginn.
ALF
Eftir Odd Bjarna Þorkelsson og Guðjón Þorstein Pálmarsson
Byggt á karakternámskeiði Margrétar Sverrisdóttur með leikhópnum
Leikstjóri Oddur Bjarni Þorkelsson
Frumsýnt 27. apríl
Sýningar í Hjáleigunni, Félagsheimili Kópavogs

alf2.jpgÞað muna eflaust margir eftir Allra kvikinda líki þeirra Kópverja á Leikum Núna í fyrra þar sem þau létu áhorfendur veltast úr hlátri yfir sögum þar sem hlaupið var langt yfir allar grennsur velsæmisins. Þrátt fyrir að blóðið flyti í stríðum straumum og allskyns vessar streymdu um grundir urðu áhorfendur að ímynda sér vökvana sjálfir. Nú hafa þau í Kópavogsleikhúsinu ákveðið að stíga skrefið til fulls og hafa sett á svið fyrsta alvöru splatterinn sem ég hef séð hér á Íslandi.

Handrit ALF eða Andspyrnuhreyfing ljóta fólksins er unnið af Oddi Bjarna Þorkelssyni og Guðjóni Þorsteini Pálmarssyni upp úr karakternámskeiði Margrétar Sverrisdóttur. Þarna er augljóslega lagt upp með að ganga fram að áhorfendum með vænum skammti af gerfiblóði og bröndurum sem yfirleitt beinast að svæðum neðanbeltis eða neðanjarðar. Og láta þá hlægja skömmustulega í leiðinni. Það er ekki annað hægt að segja en að þeim Kópum hafi tekist þetta allvel og ég hló mig máttlausan margoft.

alf.jpgEkki er hægt að segja að söguþráður verksins risti djúpt enda augljóslega ekki lagt upp með það heldur að skemmta áhorfendum frekar eins og gert er í skemmtiþáttum og árshátíðum með stuttum leikþáttum sem eru síðan laustengdir. Þetta er frekar revía en leikrit en þó án þess að einhver bresti í söng og það virkaði bara ansi vel framan af. Þess vegna kom á óvart í seinni hluta verksins hversu leikstjóri vildi vera trúr hinum rýra söguþræði og leggja sig í líma við að binda slaufu á gauraganginn. Það fannst mér eiginlega skemma fyrir og fór eiginlega bara að leiðast. Mín vegna hefði verkið mátt leysast upp í eina allsherjarvitleysu í lokin með tilheyrandi hlátrasköllum frá mér.

Persónur verksins eru alveg kostulegar og margar þeirra með því fyndnara. Þar verður fyrstan að nefna óborganlegan Dr. Kelimann Guðmundar Lúðvíks sem kitlaði heldur betur hláturtaugarnar og er þetta tvímælalaust það besta sem ég hef séð til hans. Tvíeykið Sigsteinn og Bylgja voru síðan alveg frábær í hlutverkum Skeina og Elínar og ég gat engan veginn þekkt Bylgju í sínu gerfi þótt Steini væri sjálfum sér líkur. Margir aðrir leikarar verksins stóðu sig vel en það verður þó að segja að sumir þeirra hefðu mátt leggja meiri alúð við sköpun sinna persóna og leikstjórinn að sýna meiri hörku við að vinsa úr.

alf4.jpgLeikmynd og hljóðmynd var nokkuð vel heppnað og þjónaði verkinu ágætlega. Búningar voru hæfilega subbulegir sem hæfir svona splatter verki. Eins er leikskrá vel blóðug eins og vera ber og full af upplýsingum.

Þrátt fyrir þá annmarka sem ég hef líklegast verið alltof duglegur að telja upp þá skemmti ég mér ágætlega á ALF. Subbulegur og groddalegur húmorinn hæfði vel miðnætursýningu og þegar maður gekk út í grámyglulega nóttina og regnið ýrðist framan í mann þá var ekki laust við að maður skellti upp úr og minntist blóðspýjanna hans Dr. Kelimanns. Leikfélag Kópavogs hefur gert betur en í þetta skiptið er gert út á hláturinn og það tekst bara nokkuð vel. Tvær og hálfa stjörnu fyrir verkið og hálfa í viðbót fyrir Dr. Kelimann.  

Lárus Vilhjálmsson