Lokasýning Pörupilta á uppistandinu Homo Erectus verður sýnd í Þjóðleikhúskjallaranum föstudaginn 5. apríl. Sýningin var sýnd fyrir fullu húsi sl. vetur, sem fyrri hluti sýningarinnar Uppnáms þar sem tvíeykið Viggó og Víóletta stigu á stokk eftir hlé. En nú hafa Pörupiltar unnið uppistandið Homo Erectus áfram. Uppistandið er lengra, fyndnara og fræðilegra – fjallkonan hefur bæst við og frekari vangaveltur um lífið og tilveruna.
Pörupiltar eru á milli starfa og milli kvenna. Þeir hafa farið á mörg sjálfstyrkingarnámskeið hjá Vinnumálastofnun og lært helvíti margt. Nú vilja þeir gefa af sér til samfélagsins – kenna ykkur eitthvað af því sem þeir hafa lært. Strákarnir leika á allan tilfinningaskalann en þeirra uppáhaldsumræðuefni, fyrirutan lífið og listina, er konur. Þeir munu ræða opinskátt um konur, vandamál þeirra, samskipti kynjanna og deila með áhorfendum heimspekilegum vangaveltum sínum um lífið og tilveruna.
Pörupiltar eru Alexía Björg Jóhannesdóttir, Sólveig Guðmundsdóttir og María Pálsdóttir.
Húsið opnar kl. 20:30 og sýningin hefst kl. 21:00
Sýningin tekur um klukkustund og endar í tómri vitleysu og slagsmálum.
Miðaverð kr. 2500. Hópafsláttur fyrir 20 manns og fleiri – kr. 2000 miðinn.
Miðasala í síma 551-1200 og á www.leikhusid.is