Nú um stundir býður Leikfélag Hafnarfjarðar upp á vel unna sýningu á Ubba kóngi eftir Alfred Jarry. Frá fyrsta andartaki og allt til loka bera hvert atriðið á fætur öðru í þessari uppfærslu þess vott að allir sem hönd lögðu á plóginn hafa lagt sig fram um að vanda til verka. Leikhópurinn er vel samhæfður undir faglegri stjórn leikstjórans, Ágústu Skúladóttur, og það var ákaflega gaman að sjá hvað hópatriðin eru nostursamlega sviðsett og æfð í þaula. Tónlist Eyvindar Karlssonar, sem hann flytur sjálfur ásamt nokkrum öðrum hljóðfæraleikurum og stundum meira og minna öllum leikhópnum, er leikhúsleg og á vel við sýninguna.

Sum tónlistaratriðin eru sýningarinnar mesta prýði, einkum vakti Söngurinn um afhausanirnar við texta Karls Ágústs Úlfssonar ánægju með sínum brechtísku undirtónum. Lokasöngurinn var líka sérlega vel fluttur og sviðsettur. Heildaráferð búninga, leikmynda og leikmuna, var vel af hendi leyst í flestu tilliti, en þótt vissulega séu ýmsar vísanir í losun úrgangsefna líkamans í þessu margfræga leikriti þá fannst mér klósetthúmorinn stundum fara nokkuð úr böndunum. Jafnvel bestu hugmyndir missa marks í leikhúsi sé þeim veifað of ótt og títt framan i áhorfendur.

Þegar þetta leikrit Jarry, sem á frummálinu heitir Ubu roi, var frumsýnt í París árið 1896 olli verkið miklu fjaðrafoki. Drullan í fyrsta tilsvari leikritsins fór fyrir brjóstið á vel siðuðum Frökkum og um skeið munaði litlu að sýningin endaði í algerri upplausn vegna þess að það lá við handalögmálum milli þeirra áhorfenda sem hrifust af nýnæmi verksins og hinna sem fannst smekk sínum og virðingu mjög misboðið með þeirri lágkúru og fáránleika sem boðið var upp á. Sú er ekki lengur raunin. Þótt það sé kúkað og klæmst á sviðinu í Gaflaraleikhúsinu í sýningu Leikfélags Hafnarfjarðar hneykslar það held ég engan lengur enda flest sem þar fer fram mesti barnaleikur í samanburði við margt það efni sem hverjum sem horfa vill er aðgengilegt í gegnum internet og jafnvel samskiptamiðla. Hitt er annað að losti og græðgi, þeir lestir sem leikritið fjallar öðrum þræði – og kannski einkum – um, eru enn að minnsta kosti jafnmiklir vágestir í mannheimum og þeir voru þegar Jarry skapaði Ubba og frú hans. Til þess að sá boðskapur skili sér að fullu til áhorfenda þarf að vera djúp alvara að baki farsakenndri gróteskunni á sviðinu. Stundum mátti kenna slíkan alvörutón í sýningu Leikfélags Hafnarfjarðar, einkum framan af, en hann varð smám saman æ fjarlægari uns hann heyrðist á ný í afar vel sviðsettu, leiknu og sungnu lokaatriði, sem áður var raunar minnst á.

Allar götur síðan leikritið Ubu roi var fyrst sýnt á leiksviði hefur það verið deiluefni meðal áhugafólks um leikhús, gagnrýnenda og skríbenta. Sumir líta svo á að verkið sé lélegur skáldskapur og lítils virði en aðrir hefja það til skýjanna sem eitt fyrsta fræið að flestri nýsköpun í leikhúsi tuttugustu aldar. Víst er að Bubbi kóngur var á sinn hátt tímamótaverk og áhrif leikrita Jarry á súrrealista og dadaista og síðar absúrdista í leikritun eru óumdeilanleg. Þessi skyldleiki hefði að mínu mati mátt verða mun áþreifanlegri og greinilegri í sýningu Leikfélags Hafnarfjarðar, svo góð sem hún annars er.

Fyrsta íslenska uppfærslan á þessu verki Jarry var í leikstjórn Sveins Einarssonar á Herranótt Menntaskólans í Reykjavík seint á sjöunda áratug síðustu aldar. Þá var leikritið kallað Bubbi kóngur og hefur gengið undir því nafni hérlendis allar götur síðan þótt Leikfélag Hafnarfjarðar hafi valið að breyta heiti þess. Um það hlýtur félagið að hafa haft samráð við Steingrím Gaut Kristjánsson, sem þýddi verkið upphaflega og endurgerði þýðinguna nú fyrir sýninguna í Hafnarfirðinum. Bubbi kóngur í leikstjórn Sveins varð á sínum tíma mikið umræðuefni manna á meðal, þótt hneykslunin væri lítil eða kannski engin. En þýðing Þórarins Eldjárns á söngtextum fyrir sýninguna rann ljúflega í eyru og sumir þeirra voru oft kirjaðir í partýjum og eru kannski enn. Og ekki má gleyma því að margir hafa enn gaman af að rifja það upp að í þessari sýningu lék Davíð Oddson, síðar borgarstjóri í Reykjavík, forsætisráðherra og seðlabankastjóri, titilhlutverkið. Að þessari sýningu og hlut Davíðs í henni er raunar vikið í uppsetningu Leikfélags Hafnarfjarðar nú, en það er afar smekklega gert og er bara til prýði. Sama má segja um aðrar smátilvísanir í samtímann, svo sem skuldaniðurfærslur og skagfirska sælu.

Alfred Jarry leitaði víða hugmynda þegar hann skrifaði Bubba kóng og hin bubbaleikritin, en alls eru þau fjögur talsins. Fyrstu gerð leikritsins skrifaði Jarry með tveimur vinum sínum meðan hann var enn í menntaskóla og fyrirmyndin að Bubba var efnafræðikennari þeirra skólapilta sem ekki var í miklum metum meðal nemenda. Þeir félagarnir settu verkið upp í eigin brúðuleikhúsi og áhrif frá þeirri listgrein hafa fylgt leikritinu og mörgum sýningum á því allt til þessa dags. Við frekari þróun verksins sótti Jarry í fleiri hefðir og Ubu roi hefur stundum verið lýst sem skrumstælingu á glæpaharmleikjum Shakespeares, þó einkum Macbeth og Ríkarði þriðja. Auk þessa er vert að benda á að Pétur Gautur eftir Ibsen var uppáhaldsleikrit Jarry. Hann lék dofrakónginn í nafntogaðri uppsetningu Aurelien Lugné-Poe á verkinu og er sagður hafa gengið með eintak af leikritinu í vasanum hvert sem hann fór og lesið upp úr því fyrir hvern þann sem heyra vildi. Það eru ákveðin líkindi með Bubba og konungi tröllanna hjá Ibsen og vissulega er sitthvað í leikriti Jarry sem leiðir hugann að Macbeth, hinum breyska Skota, sem lætur tilleiðast að drepa kónginn svo hann sjálfur geti sest í hásæti hans. Þetta varð einkar sýnilegt í fyrstu atriðum á uppfærslu Leikfélags Hafnarfjarðar þar sem Huld Óskarsdóttir fór á kostum í túlkun sinni á Ubbu þegar hún ögraði manni sínum og atti honum á foraðið.

Að öðrum leikurum ólöstuðum þá var Huld þar fremst meðal jafningja. Einstaklega fim og létt í hreyfingum, svipbrigði og túlkun öll mjög skýr og vel unnin og textameðferð með ágætum. Auk þess var eitthvað einkennilega franskt við sviðsframkomu hennar, svo franskt að það væri góð hugmynd að bjóða henni upp á að leika í svo sem einu Moliérestykki. Halldór Magnússon leikur Ubba, valdaræningja og kóng, og gerir það oft vel. Hann hefur hins vegar ekki sama úthaldið og einbeitingu í persónusköpun sinni og Huld og átti stundum erfitt með að finna rétta tónhæð og styrk í raddbeitingu. Það var mjög miður því að af frammistöðu hans annars var auðheyrt að með því að leggja svolítið meiri rækt við þennan mikilvæga þátt í leiknum hefði hann áreiðanlega getað náð á hlutverkinu þeim heljartökum sem þarf til þess að bera það fram til algers sigurs. Sem Davíð er sagður hafa gert forðum.

Hið sama má segja um flesta aðra leikara í sýningunni. Textameðferðin var oft þeirra veikasti hlekkur. Hér skar Kristín Svanh. Helgadóttir sig raunar dálítið úr í hlutverki Rósamundu drottningar, þar sem hún fór afar fallega með texta og undirstrikaði með því að skrif Jarry eru ekki bara strákslegur anarkismi. Með örlítið meiri og markvissari texta- og raddvinnu með öllum leikhópnum hefði þessi sýning Leikfélags Hafnarfjarðar gerað orðið næsta óaðfinnanleg. Að því sögðu skal ítrekað að hér er á ferðinni mjög góð áhugaleiksýning, uppfærsla sem hlýtur að vera með því besta sem íslenskt áhugaleikhús býður upp á þessu leikári.

Trausti Ólafsson