Þann 7. október hefjast að nýju sýningar á Ævintýrum Múnkhásens í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði. Sýningin hlaut einróma lof gagnrýnenda og frábærar viðtökur hjá áhorfendum síðastliðinn vetur. Sævar Sigurgeirsson skrifar handritið og Ágústa Skúladóttir leikstýrir en Ágústa frumsýndi í byrjun september nýja uppfærslu af Dýrunum í Hálsaskógi í Þjóðleikhúsinu. Tónlistina semja Ármann Guðmundsson, Eggert Hilmarsson og Þorgeir Tryggvason meðlimir í Ljótu hálfvitunum. Ævintýri Múnkhásens er lygileg sýning fyrir alla aldurshópa, full af ólíkindum, glensi og leikhústöfrum sem fá fólk til að vantreysta eigin augum.

Ævintýri Múnkhásens er alveg lygilega skemmtileg fjölskyldusýning fyrir alla frá 5 ára aldri um hin ótrúlega lygalaup Múnkhásen, sem átti m. a. að hafa setið á fljúgandi fallbyssukúlum, ferðast til tunglsins upp baunagras og bjargast úr díki með því að draga sjálfan sig upp úr á hárinu.Þetta er lygileg sýning fyrir alla aldurshópa, full af ólíkindum, glensi og töfrum leikhússins.

Næstu sýningar eru:
Sunnudaginn 7. október
Sunnuddaginn 14. október
Laugardaginn 20. október
Sunnudaginn 4. nóvember
Sunnudaginn 11. nóvember

Gaflaraleikhúsið er nýr leikhópur atvinnufólks í leiklist og menningarstarfsemi. Tilgangur með starfsemi félagsins er að efla leiklistarstarfsemi á Íslandi með rekstri framsækins leikhúss sem mun fara nýjar leiðir í verkefnavali og rekstri. Markmið leikhússins er að treysta undirstöður atvinnuleikhúss á Íslandi og fjölga atvinnutækifærum leikhúslistafólks. Gaflarar, eins og hópurinn kýs að kalla sig, samanstendur af eftirfarandi aðilum: Ágústu Skúladóttur, Björk Jakobsdóttur, Gunnari Birni Guðmundssyni, Gunnari Helgasyni, sem hafa á höndum listræna stjórn leikhópsins, og Lárusi Vilhjálmssyni sem er framkvæmdastjóri.

Sýningar hefjast kl. 14

Gaflaraleikhúsið er í Vikingastræti 2 í Hafnarfirði (við hliðina á Fjörukránni). Miðapantanir í síma 565–5900 og á www.midi.is