Leikfélag Kópavogs
Óþarfa offarsi eftir Paul Slade Smith
Leikstjórn: Hörður Sigurðarson. Þýðandi: Hörður Sigurðarson
Óþarfa offarsi er farsi sem hefur fest sig í sessi meðal betri farsa í leikhúslífi enskumælandi þjóða. Hann hefur verið settur upp 155 sinnum, þá aðallega sitt hvoru megin við atlantshafið. Einu löndin sem verkið hefur verið sett upp í, sem hafa ekki ensku að móðurmáli, eru Singapúr og Ísland. Verkið er hnyttinn, hraður og vel skrifaður farsi. Tekst Herði Sigurðarsyni einkar vel til í þýðingu á verkinu.
Öll umgjörð verksins var vel úr garði gerð. Hljóðmynd var snurðulaus, það sama má segja um ljós. Búningar pössuðu vel við persónur og leikmynd var… stórkostleg. Realistísk, full af smáatriðum, sem öll höfðu tilgang í verkinu, ekkert var fyrir leikurum, þrátt fyrir að tvö rúm, sem myndu hæfa drottningum væru ávallt á sviðinu. Svo ekki sé minnst á allar dyrnar. Virtist leikmyndin líka vera gædd þeim kosti að magna upp allar raddir á sviði. Er vel við hæfi að taka ofan af fyrir þeim Klæmint Henningsson Isaksen og Nicolaj Falck fyrir vel unnið verk og ef einhvern tíma var munur á áhuga og atvinnuleikhúsum, þá var hann ekki hér.
Byrjun verksins sýndi strax að leikurum verksins var eins mikil alvara og leikmyndahönnuðum. Var leikurinn hjá öllum þéttur, nákvæmur og hraður. Persónur voru allar skýrar. Allir konfliktar, hvort sem þeir voru persónubundnir eða á milli persóna, voru skýrir, og ásetningur allra persónanna var skýr. Byrjun verksins var best, ef horft er til þéttleika í samspili leikara, en svo losnaði aðeins um leikinn þegar leið á fyrri hálfleik, en eftir hlé var sama þéttleika og var í byrjun verks haldið út til loka.
Allir leikarar stóðu sig vel. Það var enginn veikur hlekkur í verkinu. Þó er við hæfi að nefna Guðmund Lúðvík Þorvaldsson sérstaklega. Hans leikur stóð upp úr í annars góðum leikhópi og virðist hann hafa einstaka hæfileika þegar kemur að gamanleik. Tímasetningar hans og tilfinning fyrir húmor á sviði eru æðislegar. Samt er nokkuð öruggt að hans leikur væri ekki eins áberandi ef hann hefði ekki góðan og samstilltan hóp í kringum sig. Eins og raunin er í þessu verki.
Samspil leikara er að miklu leyti á ábyrgð leikstjóra. Virtist vera lítil áhersla á dýpt persóna og mikil á skýrleika og nákvæmni. Þetta er kannski eitt af því sem skiptir mestu máli í farsa. Ef kafað er of djúpt, þá er kómík fórnað fyrir drama. Eins er hraðinn og þéttleiki verksins lykilatriði til að skila hnyttninni og konfliktum vel til áhorfenda. Tókst Herði Sigurðarsyni vel til, eins og fyrr hefur komið fram. Hefur hann góða tilfinningu fyrir hvað þarf til að góður farsi skili sér.
Svo í stuttu máli er uppsetning Leikfélag Kópavogs á Óþarfa offarsi hreint út sagt æðisleg.
Hörður S. Dan.