Aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga
haldinn í Edinborgarhúsinu á Ísafirði 5.–6. maí 2012

 

1.     Fundarsetning. Kosning 2ja og 2ja fundarritara, sem taka þegar til starfa. Lögmæti fundarins kannað.

Þorgeir Tryggvason, formaður Bandalagsins, setti fundinn og stakk upp á Sveinbirni Björnssyni og Sturlu Páli Sturlusyni frá Litla leikklúbbnum sem fundarstjórum og Ármanni Guðmundssyni, ritara skrifstofu, og Evu Björg Harðardóttur, Leikfélagi Mosfellssveitar, sem fundarriturum. Samþykkt af fundinum. Lögmæti fundarins kannað og staðfest.

2.     Kjörnefnd afgreiðir kjörbréf og afhendir atkvæðaspjöld, skýrir stöðu mála varðandi stjórnarkjör og auglýsir eftir tillögum.

Kjörnefnd, skipuð Dýrleifu Jónsdóttur, Leikfélagi Hafnarfjarðar, Sigríði Láru Sigurjónsdóttur, Hugleik og Gerði Sigurðardóttur, Leikfélagi Selfoss, afhenti atkvæðaspjöld og kynnti stöðu mála varðandi stjórnarkjör.

3.     Menningarstefna Bandalagsins lesin og rædd.

Þrúður Sigurðar, Leikfélagi Ölfuss og varastjórn Bandalagsins, las menningarstefnuna. Engar umræður.

4.     Staðfest inntaka nýrra félaga, félög tekin af félagaskrá.

Embla Guðmundsdóttir, Umf. Reykdæla og varastjórn, kynnti aðildarfélög. Leikfélag Austur-Eyfellinga, Leikfélag Bolungavíkur og Leikfélag Flateyrar hafa sótt um inngöngu og stjórn samþykkt þau. Fundurinn staðfesti inntöku þeirra. Ekkert félag hefur sagt sig úr Bandalaginu eða verið tekið af skrá vegna árgjaldaskulda á leikárinu.

5.     Fundargerð síðasta aðalfundar afgreidd.

Fundargerðin borin upp og samþykkt.

6.     Lagabreytingar.

Stjórn fór fram á að breyting yrði gerð á fundardagskrá og lagabreytingar fluttar fram fyrir skýrslu formanns og reikninga. Ástæðan fyrir því var sú að það þurfti lagabreytingu til að gera það löglegt að ársreikningur var gerður af viðurkenndum bókara í ár, ekki löggiltum endurskoðanda eins og hingað til og átti að gera skv. lögum Bandalagsins. Vilborg Valgarðsdóttir, framkvæmdastjóri Bandalagsins, sagði að það væri helmingi ódýrara að láta viðurkenndan bókara setja upp reikninga en löggiltan endurskoðanda. Breytingatillögur gerðar við greinar 3, 7, 12 og 17 í lögum Bandalagsins. Þorgeir Tryggvason gerði grein fyrir tillögunum.

Tillaga að breytingum á lögum Bandalags íslenskra leikfélaga
frá stjórn og varastjórn – lögð fyrir aðalfund 5. maí 2012

Ath. að viðbætur eru feitletraðar en úrfellingar skáletraðar.

3. grein
Markmið Bandalagsins er að vinna að þróun og eflingu leiklistar á Íslandi.
Markmiði þessu hyggst það ná með því:

1. Að stuðla að uppbyggingu leiklistarstarfs í öllum byggðarlögum landsins.
2. Að gera áhugafólki kleift að afla sér menntunar í listinni og skapa því aðstöðu til að þroskast í menningarlegu og faglegu tilliti.
3. Að annast innkaup og sölu á varningi sem leiklistarstarfsemin þarfnast.
4. Að útvega leikverk og sjá um fjölritun þeirra eða útgáfu.
5. Að útvega leikstjóra/leiðbeinendur sé þess óskað.
6. Að miðla upplýsingum og fræðslu á skilvirkan hátt.
7. Að kynna starfsemi íslenskra áhugaleikfélaga innan lands sem utan.
8. Að örva leikfélög til að leita nýrra leiða í leiklistarstarfi.

Til að auðvelda sér að ná markmiðum sínum rekur Bandalagið þjónustumiðstöð og heldur úti Leiklistarvefnum.

7. grein
Stjórn Bandalagsins fer með æðsta vald Bandalagsins milli aðalfunda, hana skipi 5 menn, formaður, varaformaður, ritari og tveir meðstjórnendur. Þeir skulu kosnir á aðalfundi til tveggja ára í senn, þannig að annað árið er kosinn formaður og einn stjórnarmanna, en næsta ár þrír stjórnarmenn. Formaður er kosinn sérstaklega, en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Á sama hátt skal kjósa ýmist tvo eða þrjá í fimm manna varastjórn. Varastjórnarmenn eru boðaðir á alla stjórnarfundi og hafa málfrelsi og tillögurétt, en ekki atkvæðisrétt nema þegar þeir taka sæti í aðalstjórn vegna forfalla aðalmanna. Kosningar skulu bundnar við uppástungur. Formaður boðar til stjórnarfunda. Halda skal minnst fjóra stjórnarfundi á ári og skulu fundargerðir sendar út til félaganna birtar á Leiklistarvefnum og í Ársriti Bandalagsins. Fundur er lögmætur ef minnst þrír aðalmenn mæta.

12. grein
Reikningsár Bandalagsins er almanaksárið. Reikningar þess skulu settir upp af viðurkenndum bókara eða löggiltum endurskoðanda og skulu þeir vera tilbúnir fyrir skoðunarmenn reikninga eigi síðar er fjórum vikum fyrir aðalfund.

17. grein
Bandalagsfélög sem ferðast með leikrit til sýninga, skulu hafa samráð við leikfélög á fyrirhuguðum sýningarstöðum, svo sýningar þeirra skaði ekki viðkomandi félög. Óheimilt er að koma með sama verk til sýningar og verið er að æfa eða sýna á staðnum. Í sýningarferðum skulu Bandalagsfélögin aðstoða hvert annað eftir bestu getu.

Stjórn Bandalags ísl. leikfélaga: 
Þorgeir Tryggvason, formaður
Guðfinna Gunnarsdóttir, varaformaður
Ólöf Þórðardóttir, ritari
Halldór Sigurgeirsson, meðstjórnandi
Ása Hildur Guðjónsdóttir, meðstjórnandi

Varastjórn Bandalags ísl. leikfélaga:
Halla Rún Tryggvadóttir
Magnús J. Magnússon
Bernharð Arnarsson
Þrúður Sigurðardóttir
Embla Guðmundsdóttir

Atkvæði greidd um hverja grein fyrir sig og þær allar samþykktar einróma. Lögin í heild sinni samþykkt, einnig einróma.

7.     Skýrsla stjórnar.

Þorgeir Tryggvason flutti skýrslu stjórnar.

Skýrsla formanns Bandalags íslenskra leikfélaga
á aðalfundi á Ísafirði,  5.–6. maí 2012

I – Stjórn

Á starfsárinu skipuðu stjórn þau:

Þorgeir Tryggvason, Reykjavík, formaður
Guðfinna Gunnarsdóttir, Selfossi, varaformaður
Ólöf Þórðardóttir, Mosfellsbæ, ritari
Ása Hildur Guðjónsdóttir, Reykjavík, meðstjórnandi
og Halldór Sigurgeirsson, Eyjafjarðarsveit, meðstjórnandi

Í varastjórn sátu Halla Rún Tryggvadóttir, Magnús J. Magnússon, Þrúður Sigurðar, Bernharð Arnarson og Embla Guðmundsdóttir.

Í þjónustumiðstöðinni starfa síðan Vilborg Valgarðsdóttir framkvæmdastjóri og ritarinn Ármann Guðmundsson.

Fjórir stjórnarfundir voru haldnir á árinu, flestir í höfuðstöðvunum í Reykjavík, en einnig í tengslum við aðalfund. Stjórnarmönnum og starfsfólki er þakkað fyrir góða og vinnusama fundi á starfsárinu.

II – Starfsemi félaganna

Þrjátíu og níu aðildarfélög Bandalagsins sendu inn styrkumsóknir fyrir alls 102 verkefni fyrir leikárið 2010-2011. Fullur styrkur reyndist vera 258,590 krónur en alls voru 17,0 m.kr til skiptanna. Ársritið okkar inniheldur síðan allar frekari upplýsingar um starfsemina. Ekki liggja fyrir tölur um umfang starfsins á þessu leikári en engin ástæða til að ætla annað en það sé svipað og verið hefur. Félögin í Bandalaginu eru nú sextíu og þrjú. Þrjú hafa bæst við á starfsárinu, öll endurvakin, Leikfélag Austur-Eyfellinga og tvö hér á Vestfjörðum, Leikfélög Flateyrar og Bolungavíkur.

Ég sagði áðan að fundir stjórnar hefðu verið góðir á árinu, en heldur vorum við ekki á tánum á síðasta úthlutunarfundi. Þegar félögum bárust niðurstöðurnar rak talnaglöggur formaður, Silja Björk Huldudóttir hjá Hugleik, augun í að niðurstöðurnar voru ekki allskostar réttar. Athugun framkvæmdastjóra leiddi í ljós reiknisskekkju sem vanreiknaði álagsgreiðslur vegna styttri verkefna sem að sjálfsögðu skekkti síðan niðurstöður allar. Enn og aftur biður stjórn afsökunar á þessum mistökum og þakkar aðildarfélögum fyrir snögg og skilningsrík viðbrögð þegar þau ýmist þurftu að endurgreiða hluta styrksins eða fengu örlítið meira. Silju þökkum við árveknina.

III – Starfsáætlun

Á síðasta aðalfundi var að venju samþykkt starfsáætlun og mun ég fara yfir hana og geta þess hvernig unnið var að hverjum lið fyrir sig.

Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.

Fastir liðir starfseminnar eru meira og minna í höndum til þess kjörinna nefnda og munu fulltrúar þeirra segja okkur frá því undir þar til gerðum lið á dagskránni.

Á síðasta aðalfundi var sagt frá áformum um að hefja markvissa leit að ódýrara húsnæði undir starfsemina. Strax þá um helgina var húsnæðinu á Suðurlandsbraut sagt upp og fljótlega fannst annað, mun ódýrara við Kleppsmýrarveg. Flutningar þangað gengu snurðulaust fyrir sig og húsnæðið smellpassar utan um starfsemina.

Þó það muni auðvitað um lægri leigu er reksturinn þó alls ekki viðunandi. Áhersla hefur verið lögð á það að fá styrk til skrifstofunnar hækkaðan, enda ljóst að við getum ekki lengi haldið úti óbreyttu þjónustustigi fáist það ekki í gegn. Enn hefur ekki tekist að fá húsnæðið á Laugarvegi að fullu greitt, kaupandinn er með sín mál í ferli hjá Landsbankanum.

Að öðru leyti koma rekstrarmál þjónustumiðstöðvarinnar best fram í ársreikningum sem framkvæmdastjóri skýrir síðar á dagskránni.

Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.

Ríkisstyrkurinn er nú 16,7 milljónir kr. til starfsemi leikfélaganna og 3,5 milljónir til þjónustumiðstöðvarinnar. Í málflutningi okkar gagnvart ríkisvaldinu höfum við lagt meiri áherslu á framlagið til hennar. Formaður og framkvæmdastjóri gengu á fund ráðherra nú í vikunni og reifuðu þessi mál og sendu í framhaldinu enn eitt bréfið til fjárlaganefndar. Ekki var nú ráðherrann bjartsýn á að umtalsverðar hækkanir litu dagsins ljós í næsta fjárlagafrumvarpi, en sjáum hvað setur.

Um einkaaðila er varla hægt að ræða í núverandi árferði, auk þess sem möguleikarnir á að sækja fé í þeirra sjóði einskorðast að okkar mati við sérstök verkefni, og fá slík hafa verið á dagskrá hjá Bandalagi, vígamóðu eftir alþjóðlega leiklistarhátíð.

Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.

Þetta ágæta samstarf gengur sinn vanagang. Freyvangsleikhúsið hreppti hnossið síðast og sýndu hina stórkostlegu uppfærslu sína á Góða dátanum Svejk og í kvöld fregnum við hverjir gleðja Þjóðleikhúsgesti í vor.

Taka þátt í Stuttverkahátíð í Færeyjum 15. október 2011

Tvö íslensk leikfélög sóttu Færeyinga heim, Hugleikur og Leiklistarfélag Seltjarnarness. Hátíðin var haldin í Royndinni, félagsheimili Nolsoyinga og fór vel fram. Færeyingar eru einstaklega skemmtilegir heim að sækja og ferðin í alla staði stuttlig og dásamleg. Áfram er áhugi fyrir því meðal forsprakka áhugaleikhússfólks á Norðurlöndunum að útbreiða íslenska stuttverkakúltúrinn, þó ekki hafi verið tekin ákvörðun um aðra slíka hátíð enn sem komið er.

Að bæta handritasafn Bandalagsins, m.a. með því að koma á fót hópi Lestrarhesta.

Ármann Guðmundsson hefur haft veg og vanda af hrossaræktinni og segir frá henni um leið og hann flytur skýrslu handritanefndar.

Lýkur þar með yfirferð yfir starfsáætlun síðasta starfsárs.

Af öðrum stórum málum sem stjórn hefur fengist við er rétt að nefna hér tvö. Í vetur var undirritaður formlegur samningur milli Bandalagsins og Mennta- og menningarráðuneytisins um þá starfsemi sem við innum af hendi og hvert okkar hlutverk er. Þetta var ágætt tilefni til að setja það niður hvað felst í starfsemi okkar, og ágætt plagg til að rökstyðja að styrkfé það sem okkur er ætlað hrökkvi skammt til að uppfylla skyldur okkar.

Þá fengum við til umsagnar frumvarp til nýrra sviðslistalaga sem leysa eiga af hólmi eldri leiklistarlög. Við gerðum athugasemd við lögin og báðum um að skýrt yrði kveðið á um að framlög til okkar væru sérmerkt okkur en ekki hluti af sameiginlegum framlögum til atvinnu- og áhugamanna. Þessi athugasemd var tekin til greina í nýjustu útgáfu frumvarpsins, en ólíklegt er talið að það verði lagt fram eða samþykkt á yfirstandandi þingi.

IV – Erlent samstarf

Áður hefur verið sagt frá stuttverkahátíðinni í Færeyjum. Formaður sótti ársfundi NEATA og alþjóðasamtakanna IATA/AITA sem haldnir voru í tengslum við leiklistarhátíð síðarnefndu samtakanna í Tromsö í Noregi. Bar þar helst til tíðinda að Hilmar Joensen frá Færeyjum var kjörinn forseti NEATA og að árið 2015 verður IATA-hátíðin í Argentínu. Það sem ég sá af hátíðinni í Tromsö var hefðbundið og prýðilegt, en skömmu eftir að ég yfirgaf svæðið var henni slitið vegna atburðanna í Útey og Osló.

Formaður sótti einnig ráðstefnu á vegum NAR í Osló, þar sem komið var á framfæri eindregnum óskum okkar að ferðastyrkjamál norrænna leikfélaga yrðu tekin föstum tökum, enda brýnasta hagsmunamál til að erlent samstarf blómstri og verði annað og meira en fundarhöld.

Einhver hreyfing er komin á það mál, því í vetur bauðst okkur með skömmum fyrirvara að senda fulltrúa á fund á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar um tilhögun styrkja til áhugalistastarfsemi á Norðurlöndum. Hvorki framkvæmdastjóri né nokkur stjórnarmanna átti heimangegnt og var gripið til þess ráðs að kalla til Huldu B. Hákonardóttur, sem lengi sat í stjórn, þekkir norrænt leiklistarsamstarf vel og talar norðurlandamálin eins og innfædd, til að sitja fundinn fyrir okkar hönd. Þar kom fram eindreginn vilji meðal hagsmunaaðila að fé til að styrkja samstarf áhugafólks og sjálfboðaliða á listasviði verði á einhvern hátt sérmerkt. Við Vilborg hnykktum á þessu við mennta- og menningarmálaráðherra núna fyrir nokkrum dögum. Endurskoðun stendur yfir á samstarfssamningi Norðurlandanna á þessu sviði og við vonum að pólitíkusar og kerfiskallar og kellingar komist að gagnlegri niðurstöðu fyrir okkur.

Næsti stórviðburður á þessu sviði verður svo NEATA-hátíðin í Sönderborg á suður-Jótlandi í sumar. Þangað fer fyrir Íslands hönd Sá glataði frá Hugleik, handrit eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur og leikstjóri er Ágústa Skúladóttir. Fyrir utan leiksýningar og þvíumlíkt verður þarna leiksmiðja ungliðadeildar NEATA, en þar verða þrír fulltrúar frá Íslandi, Gríma Kristjánsdóttir, Guðrún Sóley Sigurðardóttir og fulltrúi okkar í stjórn NEATA Youth, María Björt Ármannsdóttir. Og ekki má gleyma DigiDelight verkefninu, smiðju og ráðstefnu um stafræna tækni í leikhúsinu, en Litli leikklúbburinn á Ísafirði verður fulltrúi Íslands þar og mun vafalaust miðla hinni framúrstefnulegu tækni til okkar hinna að hátíð lokinni.

V – Lokaorð

Það er eins og undanfarin ár erfitt að reka áhugaleikfélög og samtök þeirra. Það er hins vegar fyrst og fremst skemmtilegt að vera áhugaleiklistarfólk. Það bað okkur enginn að gera þetta, við höfum þegar ölllu er á botninn hvolft ekki afdráttarlausar skyldur við neina nema okkar eigin ástríðu til að skapa og deila verkum okkar með öðrum. Þarna liggur styrkleiki okkar – minnumst hans reglulega, ræktum hann og höldum áfram af þeim krafti sem hann gefur okkur.

Reykjavík 4. maí 2012
Þorgeir Tryggvason

8.     Framkvæmdastjóri leggur fram endurskoðaða reikninga síðasta árs og skýrir þá.

Vilborg Valgarðsdóttir lagði fram reikninga síðasta árs og gerði grein fyrir þeim:

Tekjutap á milli áranna 2010 og 2011 eru 3,6 m.kr. ef frá eru taldar tekjur vegna NEATA-hátíðarinnar á Akureyri 2010 sem voru um 11 m.kr. Mestu munar um lækkun á styrk frá ríkinu um 2,6 m.kr. en alls hefur hann lækkað um 4,7 m.kr. frá árinu 2008. Sala á vörum stóð því sem næst í stað en „aðrar tekjur“ voru 1,4 m.kr. lægri og munar þar mest um vaxtatekjur og bætur vegna innbrots.

Ekki tókst að lækka rekstrargjöldin milli ára nema um 550 þ.kr. ef frá er talin sem áður kostnaður vegna NEATA-hátíðarinnar. Húsaleiga lækkaði þó um 1,5 m.kr. en „ýmis rekstrarkostnaður“ hækkar um 200 þús. sem rekja má til flutninga og endurnýjunar á búnaði sem stolið var í áður nefndu innbroti.

Bandalagið á enn útistandandi tæplega 11 m.kr. vegna sölu húsnæðisins að Laugavegi 96 (uppreiknað með verðbótum en án vaxta). Fjármál kaupandans eru í endurskoðun hjá Landsbankanum og ekki fyrirséð hvernig niðurstaðan verður. Hann er farinn að tala um að rifta kaupsamningnum, við vonum í lengstu lög að það gerist ekki.

Rekstrartapið árið 2010 var 4,5 m.kr. en var kr. 7,5 m.kr. fyrir árið 2011. Þetta er óviðunnandi staða og verður áfram unnið að lækkun kostnaðar svo sem frekast er unnt en fátt er orðið eftir til að skera nema laun starfsmanna.

9.     Umræður um skýrslu stjórnar og afgreiðsla reikninga.

Þráinn Sigvaldason, Leikfélagi Fljótsdalshéraðs, lagði til að leikfélögin tækju að sér að selja ákveðið magn af sögu Bandalagsins.

Bernharð Arnarson, Leikfélagi Hörgdæla og varstjórn Bandalagsins lýsti því yfir að Leikfélag Hörgdæla ætlaði að kaupa 10 eintök af sögu Bandalagsins til að selja áfram til sinna félagsmanna og skoraði á önnur leikfélög að gera hið sama. Hann þakkaði starfsmönnum Bandalagsins fyrir góð störf í erfiðu fjárhagslegu umhverfi.

Árný Leifsdóttir, Leikfélagi Ölfuss, spurði um hvernig fyrirkomulag styrkja í norrænu samstarfi hefði verið hér áður fyrr.

Þorgeir Tryggvason svaraði því. Fyrir allnokkrum árum fékk NAR, norræna áhugaleikhúsráðið, árlega fjárveitingu til að styrkja leikhópa til ferðalaga. Þegar þessir styrkir lögðust af var áhugafólki vísað á sameiginlega sjóði atvinnu- og áhugamanna. Reynslan af því var að þeir sjóðir eru fyrst og fremst miðaðir við þarfir atvinnumanna og engin dæmi um að einstakir leikhópar hafi fengið styrki til leikferða úr þeim. Á fundinum í Kaupmannahöfn kom fram eindreginn vilji til að sérmerkja með einhverjum hætti fjármagn fyrir áhugalistafólk. Útfærsla á því er í höndum Norrænu ráðherranefndarinnar.

Dýrleif Jónsdóttir sagði að leikfélögin yrðu að íhuga hvort þau vildu halda upp i óbreyttu þjónustustigi á þjónustumiðstöðinni og að þau yrðu að vera viðbúin því að þurfa að borga fyrir það þegar efnahagsástandið væri eins og það er.

Örn Alexandersson, Leikfélagi Kópavogs, sagði að það yrði að ræða þann möguleika að fækka starfsfólki í þjónustumiðstöð, í það minnsta tímabundið. Sú staða gæti komið upp að það væri óumflýjanlegt.

F. Elli Hafliðason, Leikfélagi Selfoss, spurði hvað hugmyndir stjórn hefði um lausn á fjárhagsvandanum ef ekki rættist úr fljótlega.

Þorgeir Tryggvason svaraði því að hingað til hefði það verið metið svo að þetta væri spurning um að þreyja þorrann á meðan að núverandi ástand gengi yfir en ljóst væri að við værum að nálgast endastöð í því máli. Stjórn þyrfti því að huga að fara að leita lausna.

Sigríður Lára Sigurjónsdóttir velti upp þeim möguleika að leita beint til fyrirtækja sem vitað er að eru vel stæð.

Soffía Ingimarsdóttir, Leikfélagi Flateyrar, spurði hvað félögin greiddu í árgjald í dag.

Vilborg Valgarðsdóttir svarði því, árgjaldið 2010-2011 var 50.000 kr.

Reikningar samþykktir.

10.     Skýrslur nefnda og umræður um þær.

a. Vilborg Valgarðsdóttir flutti skýrslu vefnefndar í fjarveru Harðar Sigurðarsonar, lénsherra.

 

Leiklistarvefurinn – Skýrsla vefnefndar 2012
Lögð fram á aðalfundi BÍL á Ísafirði 6. maí 2012

Að flestu leyti hefur vinna við Leiklistarvefinn gengið sinn vanagang á liðnu ári. Tæknileg vandamál sem voru áberandi á síðasta ári hafa lítt látið á sér kræla og það litla sem upp hefur komið, hefur verið leyst fljótt og vel. Það eina sem í raun minnisvert er, var þegar gerð var tilraun í vetur með létta útgáfu af vefnum sem hentar tækjum á borð við snjallsíma og spjaldtölvur. Þegar viðmótið var virkjað varð vefurinn ofurhægur í vinnslu svo hann varð nánast óstarfhæfur. Því var snarlega kippt í liðinn með því að taka umrædda léttútgáfu úr sambandi. Sennilega hafa fáir orðið varir við vandamálið þar sem uppfærslan fór fram utan mesta álagstíma. Hugmyndir um léttútgáfu af vefnum hafa verið settar á ís þar til betri lausn finnst.

Töluverð vandræði voru með útsendingu fréttabréfa framan af síðasta ári en við höfum komist fyrir þau. Vikulegur fréttapóstur er nú sendur út til um 350 áskrifenda.

Það hefur í nokkurn tíma verið draumur Lénsherra að koma upp almennilegu kerfi fyrir verslunina á vefnum. Slíkt kerfi hefur nú verið sett upp og bíður þess að starfsmenn Þjónustumiðstöðvar ákveði flokkun þeirra vara sem í boði eru. Fyrsta kastið er tilgangur kerfisins aðallega að bæta framsetningu söluvarnings, svo framboðið sé skýrara og einfaldara sé fyrir viðskiptavini að sjá hvað er í boði og kynna sér varninginn. Þegar flokkun hefur verið ákveðin verður væntanlega hafist handa við að setja inn upplýsingar og myndir af vörum og kerfið tekið í notkun í kjölfarið. Kerfið býður upp á að hægt sé að versla milliliðalaust á vefnum en til að byrja með munum við bíða með að virkja þann hluta. Það er þó sennilegt að fyrr eða síðar verður það skref tekið.

Eins og venjulega sjá starfsmenn Þjónustumiðstöðvar að mestu leyti um að setja almennt efni á vefinn en undirritaður er til aðstoðar við flóknari hluti. Í síðustu skýrslu nefndi undirritaður þörf á að halda starfsdag þar sem farið væri yfir ýmsa þætti. Slíkur dagur var haldinn síðasta sumar, í mýflugumynd að vísu en skilaði þó ýmsu. Gott væri að halda slíka starfsdaga 1-2 tvisvar á ári, m.a. með það að markmiði að starfsmenn Þjónustumiðstöðvar kæmust betur inn í innviði kerfisins.Þá er enn nokkuð verk óunnið í að hreinsa til í og uppfæra fastar síður á borð við upplýsingasíðu Leiklistarskólans.

Eins og undirritaður kom inn á í skýrslu síðasta árs hefur embætti Lénsherra, þ.m.t. hlutverk hans sem ritstjóra, aldrei verið formlega skilgreint af hálfu stjórnar né því mótaður rammi eða starfssvið. Var í skýrslunni því beint til stjórnar að taka það mál til umræðu. Stjórn ræddi málið og fól í raun Lénsherra það sjálfum að skilgreina sitt eigið starf. Þó freistingin hafi verið að allnokkur hjá undirrituðum að grípa umsvifalaust tækifærið og skipa sjálfan sig hæstráðanda til sjós og lands, hafði hans innri áhugaleikari betur og mun því reyna að skila einhverju vitrænu af sér svo fljótt sem tími leyfir.

Áður en þessari skýrslu er lokið má ítreka þá ábendingu úr síðustu skýrslu að nýta vefinn betur t.d. með því að virkja almenna félaga til að bæta við og uppfæra Leikritasafnið. Lénsherra og Handritavörður Bandalagsins eru ekki alveg sammála um kosti þess og það bíður því enn. Hér vill undirritaður taka það sérstaklega fram að allar ábendingar um nýjungar og það sem betur má fara á vefnum eru vel þegnar.

Þó vanagangur sé nokkuð lýsandi fyrir starfsemina undanfarið er Leiklistarvefurinn nú að nálgast unglingsárin og hver veit nema hormónarnir fari brátt að flæða með tilheyrandi tilfinningaróti. Foreldrarnir bíða spenntir.

Svo lýkur skýrslu vefnefndar.

Fyrir hönd vefnefndar
Hörður Sigurðarson

b. Dýrleif Jónsdóttir flutti skýrslu skólanefndar

Skýrsla skólanefndar á aðalfundi BÍL 5.-6. maí 2012.

Það voru ekki gerðar neinar breytingar á skipan skólanefndar á árinu, hana skipa Hrefna Friðriksdóttir, Dýrleif Jónsdóttir, Gunnhildur Sigurðardóttir, Herdís Þorgeirsdóttir og Hrund Ólafsdóttir. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka öllum samnefndarkonum mínum fyrir mikið farsælt og gott samstarf.

Leiklistarskólinn var settur í 15. sinn þann 11. júní 2011 að Húnavöllum. Þetta var annað árið okkar á nýjum stað. Eins og sagt var frá í fyrra þá tókust flutningar skólans frá bernskuheimili sínu að Húsabakkaskóla yfir til Húnavallaskóla alveg hreint vonum framar. Það fór líka ljómandi vel um okkur í fyrra – við áttum gott samneyti við staðinn og gott samstarf við starfsfólk. Sérstaklega ber að þakka félögum í Leikfélagi Blöndóss fyrir ómetanlega aðstoð og samvinnu við skipulagningu óvissuferðar. Við vonum sem fyrr að framhald verði á þessu uppátæki.

Skólann sóttu alls 37 nemendur sem sátu 3 námskeið. Í boði voru:

1. Framhaldsnámskeið í leiklist – Leiklist II. Kennari Ágústa Skúladóttir.
2. Framhaldsnámskeið í leikstjórn – Leikstjórn II. Kennari Sigrún Valbergsdóttir.
3. Sérnámskeið fyrir reyndari leikara – undir styrkri stjórn Rúnars Guðbrandssonar. Upphaflega stóð til að Steinunn Knútsdóttir héldi utan um það námskeið en hún forfallaðist, Rúnar hljóp í skarðið og varð enginn svikinn af því.

Þá var höfundum boðið í heimsókn – með sama sniði og árið áður. Höfundum var sem sagt boðið að dvelja á staðnum við skapandi skrif og boðið að taka þátt í skemmtilegheitum utan hefðbundinna kennslustunda. Þetta fyrirkomulag mæltist vel fyrir, alls mættu 10 höfundar í styttri eða lengri tíma.

Niðurstöður viðhorfskönnunar bentu til almennrar ánægju með skólastarfið. Það verður þó kannski að geta þess að nemendur kvörtuðu nokkuð yfir matnum. Þetta er erfitt við að eiga, sérstaklega þegar reynt er að stilla kostnaði í hóf. Skólanefndin ákvað að biðja staðarhaldara að taka tillit til kvartana nemenda að einhverju marki. Þetta verður til þess að skólagjöldin hækka nokkuð en rétt að undirstrika að hækkun má einnig rekja til almennra verðlagshækkana.

Árið 2012 er starfstími skólans ráðgerður frá 9.-17. júní að Húnavöllum.

Eins og oftast áður er boðið upp á þrjú námskeið.
– Árni Pétur Guðjónsson mun kenna Leiklist I – þar eru skráðir 18 nemendur og 4 á biðlista
– Sigrún Valbergsdóttir býður upp á sérnámskeið fyrir leikstjóra – Leikstjórn III. Á námskeiðið eru skráðir alls 10 nemendur.
– Þá verður í boði trúðanámskeið fyrir reyndari leikara. Við höfðum ráðið Ágústu Skúladóttur til að stjórna þessu, hún forfallaðist en við erum stoltar af því að bjóða Hörpu Arnardóttur til leiks – hún kenndi við skólann á árum áður og það verður spennandi að endurnýja það samstarf. Umsóknarfrestur var framlengdur af þessu tilefni til 30. apríl en alls eru 12 skráðir á trúðanámskeiðið.

Að lokum ákváðum við að bjóða höfundum enn og aftur í heimsókn með sama sniði og áður. Reyndar er bara 1 skráður en það gæti glæðst.

Þetta er sem sagt skólinn sem við bjóðum upp á í ár. Við erum sannfærðar um að þetta verði ógleymanleg andleg næring fyrir hug og hjarta nemenda – og við verðum að vona að nemendur í ár láti sér betur líka þá líkamlegu næringu sem lögð verður á borð.

Skólanefndin hefur rætt nokkuð hvort þörf sé á námskeiðum utan hins hefðbunda sumarskóla. Það hefur ekkert verið kallað eftir námskeiðum enda talsvert framboð undanfarið á vegum annarra. Skólanefnd hvetur fundarmenn til að koma með hugmyndir ef talin er ástæða til.

f.h. skólanefndar
Hrefna Friðriksdóttir
Dýrleif Jónsdóttir

c. Ármann Guðmundsson flutti skýrslu handritanefndar.

Skýrsla handritasafnsnefndar leikárið 2011-12

Nefndina skipa Hrefna Friðriksdóttir, Örn Alexandersson og Ármann Guðmundsson. Nefndin fundaði ekki á árinu en átti samskipti í gegnum tölvupóst.

Eins og greint var frá á síðasta aðalfundi hafði hópur leiklistarstofnanna, með Þjóðleikhúsið, Borgarleikhúsið og Félag handritshöfunda í broddi fylkingar, frumkvæði að því að falast eftir því að Bandalagið tæki að sér að halda utan um og miðla, væri eftir því óskað, handritum eftir íslenska höfunda á erlendum tungum. Vinna var hafin við þetta, við funduðum bæði með Melkorku Teklu Ólafsdóttur sem var í forsvari fyrir hópinn, og umsjónarmönnum vefsíðunnar okkar um útfærslu á þessu en þegar til kom bauðst Félagi handritshöfunda að vera í samstarfi við nýjan danskan leikritabanka og taldi hagsmunum sínum betur borgið þar, sem að öllum líkindum er rétt mat. Þ.a.l. varð ekkert af þessu samstarfi.

Lestrarhestaverkefnið er komið á fullan skrið og hafa nú flestir lestrarhestar fengið afhentan disk með 30 leikritum sem þeir eiga að lesa og hinir mega eiga von á slíkum glaðningi á næstu vikum. En er þó pláss fyrir fleiri í lestrarstóðinu fyrir áhugasama leikritalesendur. Er stefnt að því allar skráningar verði yfirfarnar og komnar með útdrátt af söguþræði innan tveggja ára.

Aðföng leikritasafnsins hafa verið með allra mesta móti í ár og munar þar mest um tæplega 300 handrit sem við fengum frá Útvarpsleikhúsi RUV en þar kenndi ýmissa grasa og bættust í safnið í allnokkur fjöldi áhugaverðra verka í safnið og reyndar talsvert af minna áhugaverðum verkum. Auk þess eignaðist safnið nánast öll verk Ólafs Hauks Símonarsonar sem það vantaði, Þjóðleikhúsið og Leikfélag Reykjavíkur skiluðu inn sínum nýjustu verkum að vanda og að sjálfsögðu bættist talsvert af nýjum verkum, frumfluttum af okkar aðildarfélögum. Alls telur því safnið nú rúmlega 3.500 titla og fjölgaði þeim um á fimmta hundruð á leikárinu. Skráning og skönnun á þessum nýju titlum mun standa eitthvað fram eftir ári.

f.h. Handritasafnsnefndar
Ármann Guðmundsson

Ólöf Þórðardóttir spurði hvort að sá fjöldi sem skráður sé nú í skólann, dugi til að hann standi undir sér í ár. Dýrleif Jónsdóttir hvað svo vera.

Ylfa Mist Helgadóttir, Leikfélagi Bolungarvíkur, sagði að kvartanir yfir mat í skólanum væru bara væl og fólk verði að velja á milli þess að halda verði niðri og fæðis sem allir væri ánægðir með.

Vilborg Valgarðsdóttir sagðist hafa gert athugun á kostnaði við sambærilega skóla á Norðurlöndum og þar væru skólagjöld alls staðar hærri. Hún sagði að hækkunin núna væri líka vegna vanmats á kostnaði sl. 2 ár.

F. Elli Hafliðason sagði við ættum kannski að líta á það þannig að í raun höfum við verið heppin hvað verðið hefur verið lágt hingað til, sérstaklega á meðan við vorum á Húsabakka. þetta sé  ekki dýrt miðað við hvað fólk fái fyrir peninginn.

Þorgeir Tryggvason sagði að það eina sem hann saknaði í skólastarfinu væri að boðið væri uppá grunnnámskeið í skapandi skrifum en taldi líklegt að það væri verið vinna í að bæta úr því. Dýrleif Jónsdóttir staðfesti að svo væri.

Dýrleif Jónsdóttir sagði að aðstaða á Húnavöllum væri öll betri en á Húsabakka og þ.a.l. dýrari. Hún sagði að rúmar 8.000 kr. á dag fyrir mat, gistingu og námskeið væri ekki mikið.

11.     Drög að starfsáætlun næsta árs kynnt og skipað í starfshópa.

Guðfinna Gunnarsdóttir kynnti tillögu stjórnar að starfsáætlun.

Starfsáætlun Bandalags íslenskra leikfélaga leikárið 2012-2013

Almenn starfsemi

1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.

2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.

3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.

Sérverkefni ársins

1. Halda námskeið í markaðssetningu og stjórnun leikfélaga haustið 2012.

2. Halda einþáttungahátíð í tengslum við aðalfund 2013.

Fundargestum var skipt í fjóra hópa sem tóku til starfa og kynntu svo niðurstöður sínar.

Starfshópur 1

Sigríður Lára Sigurjónsdóttir kynnti niðurstöður hóps 1:

Hóp 1 skipuðu:
Ingólfur Þórsson, Freyvangsleikhúsinu
Árný Leifsdóttir, Lf. Ölfuss
Eva Sóley Þorkelsdóttir, Ld. Umf. Skallagríms
Hanna Margrét Kristleifsdóttir, Halaleikhópnum
Eva Björg Harðardóttir, Lf. Mosfellssveitar
Anna Helga Guðmundsdóttir, Lf. Bolungarvíkur
Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, Hugleik

Almenn starfsemi

1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.

Við erum ekki tilbúin í þá skerðingu á þjónustu þjónustumiðstöðvar, sem hlytist af niðurskurði á starfshlutfalli.

2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.

Reyna þarf að ná inn peningum frá ríki eftir öðrum leiðum. T.d. í gegnum þjónustusamning við Menntamálaráðuneyti. Hefur það t.d. húsnæði sem við mættum vera í? Við vildum leggja áherslu á að horfa frekar á að ná inn meiri tekjum einhversstaðar heldur en að skera þjónustuna niður.

Rætt um hvort aðildarfélögin gætu tekið á sig meiri kostnað. Spurning um að klípa af verkefnastyrk eða hækka félagsgjöld.

Einstaklingsbundnar nálganir á fjárlaganefndarmenn hafa borið árangur. Reyna þær aftur

3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.

JÁ!

Sérverkefni ársins

1. Halda námskeið í markaðssetningu og stjórnun leikfélaga haustið 2012

Stjórn bandalagsins þarf að gera rassíu í að fá fleiri félög til að senda fulltrúa á aðalfund. Stjórnarmenn þurfa að hringja í fósturfélög, kynna námskeiðið og hvetja til þátttöku.

Rætt um auglýsinga- og markaðsmál og almennt talin þörf á fjölmiðlafulltrúum í tenglsum við kynningar sýninga. Kennsla í skrifum fréttatilkynninga væri gagnleg svo og handbók um gagnrýniskrif.

Spurning um staðsetningu námskeiðs, á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landi?

2. Halda einþáttungahátíð í tengslum við aðalfund 2013

Endilega hafa einþáttungahátíðir annað hvert ár í tengslum við Bandalagsþing.

Örn Alexandersson kynnti niðurstöður hóps 2

Hóp 2 skipuðu:
Ylfa Mist Helgadóttir, Lf. Bolungarvíkur
Þröstur Ólafsson, Litla leikklúbbnum
Stefanía Björnsdóttir, Halaleikhópnum
Sigríður Hafsteinsdóttir, Lf. Selfoss
Margrét Hildur Pétursdóttir, Ld. Umf. Skallagríms
Örn Alexanderson, Lf. Kópavogs
Þráinn Sigvaldason, Lf. Fljótsdalshéraðs

Almenn starfsemi

1.Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.

• Alvarleg staða þjónustumiðstöðvar rædd fram og til baka, ýmsar lausnir ræddar. Stærsti kostnaðarliður er  launagreiðslur og því gæti þurft að segja upp starfsmanni eða breyta starfshlutfalli þar sem laun eru helmingur af útgjöldum. Allir sammála um að reyna halda starfsemi óbreyttri og leita annarra leiða til að lækka kostnað.

Tillögur að lausn:
• Hvert leikfélag fái bækur fyrir ca. 50.000 kr. á félag, sem mundi gera samtals ca. 3.000.000 (bækur og styrkur)
• Hækkun árgjalda í 70.000 kr., bara þetta eina ár. Samtals ca. 1.200.000
• Húsaleiga hefur lækkað um 1.300.000 – leita að enn ódýrara húsnæði?
• Ýmis rekstrarkostnaður annað aðhald 500.000 kr.
• Samtals eru þetta 6.000.000 sem dekka ca. halla þessa árs, eykur handbært fé og vaxtagjöld verða pósitíf.

• Sækja tölur um fjölda áhorfenda hjá skólum og öðrum áhugasýningum til að fá heildarfjölda sem sækja áhugasýningar – þessar tölur geta unnið með okkur þegar við sækjum um hækkuð framlög.
• Halda skólanum áfram með sama sniði.
• Leiklistavefur – Áfram með sama sniði og reyna sölu á styrktarlínum á vefnum.
• Stjórn Bandalagsins endurskoði um mitt næsta ár hvort segja þurfi upp starfsmanni eða breyta starfshlutfalli þegar upphæð styrks frá ríkinu er ljós.

2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.

Hækkuð framlög – sjá lið 1. Tillaga: Að stjórn Bandalagsins sæki um að minnsta kosti 10 styrki til stórra fyrirtækja á leikárinu.

3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.

Vissulega á að halda áfram samstarfi við Þjóðleikhús en skoða þyrfti hvort hægt er að minnka kostnað tímabundið með því að fulltrúi valnefndarinnar komi ekki á aðalfund heldur feli framkvæmdastjóra Bandalagsins að tilkynna valið.

Sérverkefni ársins

1. Halda námskeið í markaðssetningu og stjórnun leikfélaga haustið 2012

Já.

2. Halda einþáttungahátíð í tengslum við aðalfund 2013

Já og mögulega fjáröflunarþátt á sjónvarpsstöð.

Axel Vatnsdal kynnti niðurstöður hóps 3

Í hópi 3 voru:
Axel Vatnsdal úr Leikfélagi Hörgdæla
Katrín Eiðsdóttir, Umf. Reykdæla
Sigríður Svavarsdóttir, Leikfélagi Hörgdæla
Soffía Ingimarsdóttir, Leikfélagi Flateyrar
F. Elli Hafliðason, Leikfélagi Selfossi
Guðrún Sóley Sigurðardóttir, Leikfélagi Sýni
Ólína Adda Sigurðardóttir, Leikfélagi Bolungarvíkur

Almenn starfsemi

1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.

Allir eru sammála um að við vilja halda starfinu áfram í óbreyttri mynd.

2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.

• Rætt var um að hafa stóra leiklistarskemmtun, Björgum Bandalaginu. Allir gefa sína vinnu. Elli ætlar að tala við frænku sína Vigdísi Finnbogadóttir til að vera verndari skemmtuninar. Tillögur um að kjósa nefnd sem tekur að sér að koma þessu í framkvæmd.
• Kynna Bandalagið, starfsemi og vinnu.
• Hafa landshlutaskemmtanir. Leikfélögin setja upp styrktarsýningu.
• Kjósa í fjáröflunarnefnd til að hrinda hugmyndum í framkvæmd.

3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.

Allir sammála um að þessi liður megi ekki missa sín. Mætti samt kynna þetta meira í fjölmiðlum.

Sérverkefni ársins

1. Halda námskeið í markaðssetningu og stjórnun leikfélaga haustið 2012

Öllum líst vel á þennan lið, mjög þarft námskeið.

2. Halda einþáttungahátíð í tengslum við aðalfund 2013

Allir fagna tilögunni um einþáttungahátíð.

Gerður Sigurðardóttir kynnti niðurstöður hóps 4

Hóp 4 skipuðu:
Hulda Gunnarsdóttir, Lf. Ölfuss
Gerður Halldóra Sigurðardóttir, Lf. Selfoss
Þórvör Embla Guðmundsdóttir, Umf. Reykdæla
Þrúður Sigurðardóttir, Lf. Ölfuss
Þröstur Jónsson, Halaleikhópnum
Fanney Valsdóttir, Lf. Hörgdæla
Brynhildur Sveinsdóttir, Lf. Mosfellssveitar

Almenn starfsemi

1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.

• Starfsemi þjónustumiðstöðvarinnar í þeirri mynd sem hún er í í dag er mjög mikilvæg og við teljum að öll skerðing á henni muni koma niður á starfsemi leikfélaganna. Okkur finnst því að hvorki megi skerða starfsemi hennar né starfshlutföll starfsmanna. Vilborg og Ármann standa sig afskaplega vel.
• Leiklistarskólinn er stórfenglegur, við bendum leikfélögum á að hvetja meðlimi til að sækja hann.
• Vefurinn er æði og við hvetjum leikfélög til að vera dugleg að senda inn efni og myndir.

2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.

• Þeir sem hafa aðgang að þingmönnum/meðlimum í fjárlaganefnd reyni að tala við þá um aukin framlög.
• Settur verði af stað undirskriftalisti þar sem hvert leikfélag safnar undirskriftum meðal meðlima sinna þar sem óskað er eftir auknum framlögum til þjónustumiðstöðvarinnar.
• Sett verði á fót nefnd sem leitar að lausnargjaldi til að leysa Bandalagið úr þeirri gíslingu sem það er í.
• Mikilvægt er að sýna fram á mikilvægi starfsemi leikfélaga um allt land fyrir íslenskt samfélag –  til dæmis væri hægt að nýta áætlaða einþáttungahátíð samhliða næsta aðalfundi BÍL í þessum tilgangi.

3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.

Samstarf við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins – endilega.

Sérverkefni ársins

1. Halda námskeið í markaðssetningu og stjórnun leikfélaga haustið 2012

Væri möguleiki að skipulagning og markaðssetning komandi einþáttungahátíðar gæti verið verkefni á námskeiðinu?

2. Halda einþáttungahátíð í tengslum við aðalfund 2013

Endilega, og endilega að nota í áróðurs- og markaðssetningarskyni fyrir starfsemi leikfélaga í landinu.

12.     Tillögur lagðar fyrir fundinn.

Þorgeir Tryggvason lagði til fyrir hönd stjórnar, breytingu á úthlutunarreglum. Hann lagði til að eftirfarandi ákvæði yrði bætt inn í úthlutunarreglurnar:

Með umsóknum um styrk vegna sýninga á höfundaréttarvörðu efni skal fylgja staðfesting á að sýningarleyfi hafi verið veitt. Styrkir eru ekki veittir vegna sýninga án leyfis rétthafa.

Hann röskstuddi þetta með því að Bandalaginu væri ekki stætt á því að úthluta opinberu fé til að stuðla að brotum á höfundarétti.

F. Elli Hafliðason lýsti yfir ánægju með tillöguna og sagðist þekkja dæmi frá framhaldsskólaleikfélögum um að þau hafi ætlað setja upp verk í leyfisleysi en verið stoppuð rétt fyrir sýningar.

Vilborg Valgarðsdóttir sagði að þetta myndi engu breyta fyrir 95% leikfélaga þar sem þau fengju tilskilin leyfi alltaf hvort er. Þetta væri tilkomið vegna svörtu sauðanna sem kæmu órorði á hina.

Tillagan samþykkt með öllum atkvæðum.

Vilborg Valgarðsdóttir lagði fyrir hönd stjórnar fram eftirfarandi tillögu:

Stjórn leggur til að 1 milljón kr. af verkefnastyrk aðildarfélaganna verði látin ganga til reksturs Þjónustumiðstöðvarinnar.

Örn Alexandersson lagði til að fundurinn samþykkti tillöguna, þar með væri búið að ná einni milljón upp í fjárlagagatið.

Ingólfur Þórsson benti á að það væri alls ekki sjálfgefið að peningar væru teknir af leikfélögum til að renna stoðum undir starfsemi þjónustumiðstöðvarinnar en kvaðst þó styðja tillöguna að þessu sinni.

Gerður Sigurðardóttir sagði að Bandalagið væri jú batterí leikfélaganna og þeim bæri því skylda til að styðja það þegar hart væri á dalnum.

Örn Alexandersson sagði að vissulega væri það ekki sjálfgefið að taka af styrknum til félaganna en eins og staðan er væri það ein af þeim lausunum sem grípa þyrfti til.

Tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum

Örn Alexandersson lagði fram eftirfarandi tillögu fyrir hönd hóps 2

Að stjórn Bandalagsins sæki um a.m.k. 10 styrki til stórra fyrirtækja á leikárinu.

Tillagan samþykkt einróma

Axel Vatnsdal lagði fram eftirfarandi tillögu fyrir hönd hóps 3:

Við leggjum til að  stofnuð verði fjáröflunarnefnd til að finna lausnir á fjárhagsvanda Bandalagsins. Nefndin skal skipuð 3 aðalmönnum og 2 til vara.

Ingólfur Þórsson sagðist trúa því að höfundum tillögunnar gegni gott eitt til en hann teldi að þetta væri í raun það sem framkvæmdastjóri og stjórn væru að gera. Hann taldi því óþarfa að stofna slíka nefnd.

Embla Guðmundsdóttir sagði að sér þætti tillagan of ómótuð og þyrfti að vera nákvæmari.

Þorgeir Tryggvason sagði hann teldi að það væri ekki klókt að stofna nefnd sem hefði einhverns konar veiðileyfi á fjáröflun óháð stjórn og framkvæmdastjóra. Tillagan væri vel meint en misráðin.

Halldór Sigurgeirsson sagðist ekki styðja tillöguna en taldi að það væri mikilvægt að nýta sér sambönd, maður á mann, þegar kæmi að fjáröflunum.

Tillagan felld með öllum greiddum atkvæðum.

Örn Alexandersson lagði fram eftirfarandi tillögu:

Að óska eftir því við aðildarfélög Bandalagsins að þau kaupi allt að 10 eintök (eða fleiri), af sögu Bandalagsins, til að styrkja bága fjárhagsstöðu þess.

Ólöf Þórðardóttir lagði til að frekar yrði samin ályktun þar sem leikfélög, sem ekki sóttu fundin, væru hvött til að leysa til sín ákveðið magn bóka. Hún lýsti því yfir að Leikfélag Mosfellssveitar ætlaði að kaupa 20 eintök og skoraði á Hörgdæli að jafna. Sem þeir gerðu um hæl.

Örn Alexandersson dró tillöguna til baka.

Gerður Sigurðardóttir lagði fram að eftirfarandi fyrir hönd hóps 4:

Ef leikfélag sendir ekki fulltrúa á aðalfund Bandalagsins, skerðist styrkur til félagsins um ákveðna prósentutölu.

Tillöguna rökstuddi hún með að ósanngjarnt væri að lítill hluti leikfélaga legði í kostnað og vinnu við það mikilvæga starf sem fram færi á aðalfundi. Allir ættu að leggja sitt af mörkunum.

Guðrún Sóley Sigurðardóttir lagði eftirfarandi breytingartillögu fram:

Að öll aðildarfélög greiði ákveðna upphæð til Bandalagsins og hafi þar með greitt pláss fyrir einn einstakling með atkvæðisrétt á Bandalagsþingi. Sendi félag ekki fulltrúa, renni upphæðin til Bandalagsins.

Guðfinna Gunnarsdóttir sagðist telja afar hæpið að binda hendur aðildarfélaganna þannig, þótt þau vilji ekki senda fulltrúa á aðalfund og lýsti andstöðu við báðar tillögurnar.

Þorgeir Tryggvason sagði að svona tiilögur hefðu komið fram áður og hann væri líkt og áður andvígur þeim. Það væri illmögulegt að draga upphæð af styrknum þar sem hann væri ætlaður til að styrkja listastarfsemi og því væntanlega ekki vel séð af stjórnvöldum að það yrði notað til að sekta félögin auk þess sem það yrði flókið í framkvæmd. Hina tillöguna taldi hann áhugaverðari en hún væri samt í raun dulin hækkun á árgjaldi.

F. Elli Hafliðason sagðist vera andvígur þessum tillögum, hann sagði margar ástæður fyrir félög sendu ekki fulltrúa og sumar væru mjög góðar og gildar.

Ingólfur Þórsson sagðist sammála síðustu ræðumönnum, þótt vissulega væri gaman að sjá fleiri félög þá væri ekki ástæða til að skattleggja þau félög sem ekki vildu mæta.

Halldór Sigurgeirsson sagðist hafa hringt í fjölmörg félög þegar hann var að reyna safna fólki í rútu til að koma á þingið og hafa orðið mjög hissa á áhugaleysi félaganna. Ekkert benti þó til annars en þau væru hin ánægðustu með frammistöðu Bandalagsins.

Vilborg Valgarðsdóttir rifjaði upp að til er kerfi sem kallað er fósturfélagakerfið en þar er félögunum skipt á milli stjórnarmanna sem eru síðan tengiliðir við þau félög sem þeim er  úthlutað. Þetta sé tilvalið að nýta, ekki síst nú þegar framundan er námskeið í stjórnun leikfélaga.

Örn Alexandersson lagði til að tillögu Guðrúnar Sóleyjar yrði vísað til stjórnar en tillaga hóps 4 felld.

Tillaga hóps 4 felld með öllum greiddum atkvæðum

Tillaga Arnar Alexanderssonar um að breytingartillögu Guðrúnar Sóleyjar verði vísað til stjórnar, samþykkt.

13.     Starfsáætlun afgreidd.

Tillaga stjórnar samþykkt einróma.

Starfsáætlun Bandalagsins er því svona:

Starfsáætlun Bandalags íslenskra leikfélaga leikárið 2012-2013

Almenn starfsemi

1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.

2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.

3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.

Sérverkefni ársins

1. Halda námskeið í markaðssetningu og stjórnun leikfélaga haustið 2012.

2. Halda einþáttungahátíð í tengslum við aðalfund 2013.

14.     Kjörnefnd tilkynnir niðurstöður sínar og mælir með a.m.k. 1 aðila í hvert sæti sem kjósa skal í.

Kjörnefnd gerði grein fyrir stöðu framboðsmála.

15.      Stjórnarkjör

Í framboði til aðalstjórnar voru: Guðfinna Gunnarsdóttir, Halldór Sigurgeirsson, Ása Hildur Guðjónsdóttir, Þráinn Sigvaldason og Örn Alexandersson. Kosningu hlutu Guðfinna Gunnarsdóttir, Halldór Sigurgeirsson og Þráinn Sigvaldason.

Í framboði til varastjórnar voru Bernharð Arnarson, Ylfa Mist Helgadóttir og Ása Hildur Guðjónsdóttir. Kosningu hlutu Bernharð Arnarson og Ylfa Mist Helgadóttir

16.     a. Kosning 3ja manna kjörnefndar og eins varamanns til eins árs.

Stjórn lagði til að kjörnefnd yrði óbreytt, Dýrleif Jónsdóttir, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir og Gerður Halldóra Sigurðardóttir, Gunnhildur Sigurðardóttir til vara.

Samþykkt einróma.

16.    b. Kosning 2ja skoðunarmanna reikninga og eins til vara til eins árs.

Skoðanamenn reikinga gáfu allir kost á sér til áframhaldandi starfa, þær Anna Jórunn Stefánsdóttir og Hrefna Friðriksdóttir sem aðalmenn og Júlía Hannam til vara.

Samþykkt einróma.

17.     Ákveðið árgjald til Bandalagsins.

Halldór Sigurgeirsson kynnti tillögu stjórnar:

Tillaga stjórnar að árgjaldi 2012-2013:

Stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga leggur til að árgjöld aðildarfélaga fyrir leikárið 2012-2013 verði kr. 60.000.

Félög sem setja upp tvær styrkhæfar sýningar á leikárinu borgi eitt og hálft gjald eða 90.000 og félög sem setja upp þrjár sýningar eða fleiri borgi tvöfalt gjald eða kr. 120.000.

Félög sem setja ekki upp styrkhæfa sýningu á leikárinu borgi hálft árgjald eða kr. 30.000.

Dýrleif Jónsdóttir spurði af hverju boðið sé upp á að vera að hálfu leyti í Bandalaginu. Sér findist að öll félög ættu að greiða fullt gjald í grunninn.

F. Elli Hafliðason sagði það gæti farið illa með þau félög fjárhagslega sem setja óreglulega upp sýningar að þurfa alltaf að greiða fullt árgjald.

Ingólfur Þórsson sagðist telja að Bandalagið væri á rangri braut með hækkun árgjalds og lýsti sig andvígan hækkunninni. Hann sagði stutt síðan árgjaldið var síðast hækkað og spurði hvar það mundi enda ef álögur á leikfélögin væru hækkuð í hvert skipti sem illa áraði.

Guðfinna Gunnarsdóttir sagði að stjórn liti á það sem skyldu sína að koma með tillögur til að stoppa í fjárlagagatið og hefði ekki mörg úrræði en þetta væri eitt þeirra.

Örn Alexandersson spurði hvað þessi hækkun mundi þýða í krónum talið.

Fundarmenn reiknuðu út að það væri gróflega áætlað í kringum 800.000 kr.

Ylfa Mist Helgadóttir fullyrti að þetta væri ekki mikil hækkun miða við verðlagsþróun í landinu. Hún lýsti yfir stuðningi við tillögu stjórnar.

Halldór Sigurgeirsson sagði að Bandalagið væri eign leikfélaganna og þau hlytu að þurfa bera þann kostnað sem hlytist af rekstri þess.

F. Elli Hafliðason sagði að hann teldi að eins og staðan væri í dag væri óumflýjanlegt að hækka árgjaldið.

Þorgeir Tryggvason sagði að sú staða gæti alveg komið upp að ekki væri hægt að halda uppi óbreyttu þjónustustigi. Hann lagið til að menn samþykktu þessar tillögur og síðan yrði farið í leita annarra leiða til að fjármagna rekstur Bandalagsins. Hann sagði að þótt vissulega eigi leikfélögin Bandalagið, sé rekstur þeirra sjálfara mikilvægari en rekstur Bandalagsins.

Tillaga stjórnar borin og samþykkt.

18.     Önnur mál

Vilborg Valgarðsdóttir greindi frá því að frá 1. júní hækki höfundagreiðslur skv. samningi við Félag leikskálda og handritshöfunda upp í 10.094 kr. fyrir verk sem tekur 90 mínútur eða meira í sýningu. Sem fyrr verður lágmarksgreiðsla miðuð við 8 sýningar og lágmarksgreiðsla því 80.752 kr. per uppsetningu. Greiðslur fyrir styttri verk og þýðingar hækka í samræmi við þetta. Hækkun þessi tekur gildi 1. júní nk.

Þorgeir Tryggvason lagði tvær ályktanir fyrir fundinn. Sú fyrri er ætluð fjölmiðlum og er henni beint til yfirvalda:

Aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga,
haldinn í Edinborgarhúsinu á Ísafirði 5.-6. maí 2012 ályktar:

Starf áhugafólks að listsköpun er mikilvægur þáttur í öllum heilbrigðum samfélögum. Það á ekki síst við um listgreinar þar sem hópar fólks vinna að sameiginlegri rannsókn og tjáningu á mannlífinu, listgreinar á borð við leikhúsið.

Það er almennt viðurkennt að íslenskt áhugaleikhús er miðlægt í íslenskri leiklist og íslenskri menningu. Stór hluti Íslendinga á sína fyrstu snertingu við töfra leikhússins meðal áhugamanna, hvort heldur er sem áhorfendur eða þátttakendur.

Með þátttöku í starfi áhugaleikfélaga eflist fólk í skilningi á samfélagi sínu. Samskiptahæfni skerpist, hæfileikinn til að setja sig í spor annarra þroskast. Í leikhúsi áhugamanna starfar fólk hlið við hlið að sameiginlegu marki, einstaklingar með ólíkan bakgrunn, í mismunandi aðstæðum og úr öllum starfsstéttum. Slík samvinna er óendanlega dýrmæt, ekki síst við aðstæður eins og ríkja núna á Íslandi.

Aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga, haldinn á Ísafirði 5.-6. maí 2012, hvetur stjórnvöld til að standa vörð um listsköpun áhugamanna og áhugaleikhúsið sérstaklega. Skerðingar á fjárstuðningi undanfarin ár draga mátt úr hreyfingunni og rýra möguleika áhugaleikhússins til að eflast og þroskast.

Fjárveitingar til starfseminnar vega ekki þungt fyrir ríkissjóð en skipta sköpum fyrir þetta mikilvæga grasrótarstarf sem hefur svo margt dýrmætt til málanna að leggja.

Sú seinni er ætluð aðildarfélögum Bandalagsins:

Aðalfundur Bandalags Íslenskra leikfélaga haldinn í Edinborgarhúsinu á Ísafirði 5.-6. maí 2012 beinir þeim skilaboðum til þeirra aðildarfélaga Bandalagsins sem ekki senda fulltrúa á Bandalagsþing að skoða sinn hug og bæta úr þátttökuleysinu á næsta þingi.

Bandalagsþing og aðalfundir áhugaleikhúshreyfingarinnar eru líflegar og skemmtilegar samkomur þar sem áhugaleikhúsfólk allsstaðar að af landinu hittist og fjallar um sín hugðarefni og hagsmunamál. Þar gefst tækifæri til að hafa áhrif á stefnu og verkefni samtakanna, nýta sinn lýðræðislega rétt og axla sínar lýðræðislegu skyldur.

Aðalfundarfulltrúar 2012 hlakka til að sjá fulltrúa mun fleiri leikfélaga á næsta Bandalagsþingi, þar sem auk fundar og samveru verður boðið upp á glæsilega einþáttungahátíð. Sjáumst þar.

Báðar ályktanir samþykktar einróma.

Gerður Sigurðardóttir spurði hvort Vilborg hefði einhverjar upplýsingar um hvaða leikfélög hefðu aldrei samband við þjónustumiðstöina.

Vilborg Valgarðsdóttir sagðist ekki hafa neinar nákvæmar tölur um það en hennar tilfinning væri að nánast öll aðildarfélög hefðu samskipti við þjónustumiðstöðina. Það væri misjafnt hvað erindi þau ættu en meira að segja leikfélög sem hefðu ekki sett upp sýningar árum saman hefðu annað slagið samband.

Anna Helga Guðmundsdóttir spurði hvort ástæða væri til að hækka álag á förðunarvörur.

Embla Guðmundsdóttir kom með samantekt á leikhúsaðsókn í Borgarbyggð. U.þ.b. 3/4 hlutar íbúa Borgarbyggðar sóttu sýningar Bandalags-leikfélaganna fjögurra í sveitarfélaginu. Þess utan væru leiksýningar í öllum grunnskólum og í menntaskóla sveitarfélagsins.

Guðfinna Gunnarsdóttir benti á að leiklist dafnaði í landinu þrátt fyrir peningaleysi og barlóm.

Örn Alexandersson lýsti yfir ánægju með upplýsingarnar frá Emblu og velti fyrr sér hvort ástæða væri til að taka sambærilegar upplýsingar saman yfir allt landið.

Sigríður Lára Sigurjónsdóttir sagðist telja að hægt væri að nágast þessar upplýsingar hjá Hagstofunni.

Þröstur Ólafsson þakkaði fyrir hönd Litla leikklúbbsins fyrir góðan fund.

19.     Næsti aðalfundur, hugmyndir reifaðar um stað og stund.

Embla Guðmundsdóttir bauð fyrir hönd Umf. Reykdæla að það héldi aðalfund að ári í Reykholtsdalnum og stuttverkahátíð í Logalandi.

Þorgeir þakkað fundargestum fyrir hugmyndaríkan, skeleggan og gagnlegan fund, Ísfirðingum fyrir góðan aðbúnað og sleit því næst fundinum.

Fundargerð ritaði Ármann Guðmundsson